Jens Stefán Halldórsson prentmyndasmiður fæddist í Reykjavík 6. apríl 1929. Hann lést 28. júlí 2024 á Hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ.

Foreldrar hans voru Ástbjörg Magnúsdóttir, f. 8.6. 1890, d. 23.2. 1970, og Jón Halldór Þórarinsson, sjómaður og skrifstofumaður, f. 17.4. 1901, d. 13.7. 1999.

Jens átti þrjú systkini, þrjá hálfbræður og fósturbróður. Elstir voru tvíburabræðurnir Ingiberg Þórarinn, f. 1926, d. 2015, og Harald Gunnar, d. 1997, yngst var Ástbjörg, f. 1930, d. 2013. Þrír hálfbræður sammæðra voru Harald Ragnar Nordgulen, f. 1913, d. 1919, Ludvik A. Nordgulen, f. 1915, d. 1984, og Alfred Nordgulen, f. 1916, d. 1981. Einnig átti hann fósturbróður, Jón Magnússon Nordgulen, f. 1909, d. 1988.

Jens kvæntist 25. október 1952 Alexíu Margréti Ólafsdóttur, f. 21. apríl 1933, d. 19.1. 2007. Foreldrar hennar voru Ólafur Ingi Árnason yfirfiskmatsmaður, f. 1900, d. 1987, og Ólöf Jóna Ólafsdóttir, f. 1903, d. 1968. Börn Jens og Alexíu eru fjögur: 1) Ólöf Jóna, f. 1952, maki Björn Grímsson, f. 1950, börn: a) Alexía Margrét, f. 1984, unnusta Harpa Rún Eysteinsdóttir, f. 1988, og b) Sara Stefanía, f. 1989. 2) Ástbjörn, f. 1955, maki May-Brit Kongshaug, f. 1963, d. 2023, börn: a) Svanhild Kristín, f. 1982, og b) Ástbjörg f. 1984, maki Benjamín Snorri Dungal, f. 1982. Þau eiga Alexander Ástbjörn, f. 2014, og Lilju Guðrúnu, f. 2019, fyrir átti Ástbjörg Sólhildi Sonju, f. 2005, c) Atli Halldór, f. 1989. 3) Jenný Stefanía, f. 1958, maki Grettir Grettisson, f. 1958, d. 2021, börn: a) Jens, f. 1976, sambýliskona Kolbrún Eva Sigurðardóttir, f. 1983, börn þeirra eru Benjamín Darri, f. 2019, og Baltasar Orri, f. 2024, fyrir átti Jens Jennýju Stefaníu, f. 2009, og b) Íris Rut, f. 1990. 4) Ingibjörg, f. 1962, maki Gunnar Smith, f. 1963, börn: a) Axel Már, f. 1978, hann á Kristófer Axel, f. 1998, Ingibjörgu Emilíu, f. 2005, Clöru, f. 2015, og Alexíu, f. 2020, auk þess uppeldisdóttur, Jasmín Rós, f. 2008, b) Theodór Gunnar, f. 1986, hann á Söru Söndru, f. 2005, Maríu, f. 2014, og Davíð, f. 2019, og c) Hlynur Jens, f. 1990, sambýliskona Hrafnhildur Alice Hansen, f. 1995, hann á Viktoríu, f. 2012, Emilíönu Fjólu, f. 2015, og Jón Gunnar, f. 2018.

Jens og Alexía bjuggu öll sín hjúskaparár í Reykjavík, þar af 13 ár í Stigahlíð 8, en fluttu síðan 1970 í Skipholt 6, þar sem þau bjuggu æ síðan. Jens starfaði við prentmyndasmíði alla sína starfsævi. Hann lærði til sveins hjá Helga Guðmundssyni hjá Leiftri og vann síðar í Myndamótum en lengst af stýrði hann prentmyndastofunni Litrófi í Einholti 2. Hann bjó yfir mikilli fagþekkingu á litgreiningu og prentmyndagerð og lærði á alls kyns vélar, aðallega í Þýskalandi. Tæknibylting varð í prentmyndasmíði með tilkomu tölvutækninnar, sem olli mikilli breytingu þegar offset- og flexoprentun ruddi sér til rúms. Jens starfaði hjá Plastprenti við flexoprentmyndagerð og einnig hjá Plastos þar sem hann starfaði til starfsloka.

Jens var heiðursfélagi hjá Kiwanisklúbbnum Geysi í Mosfellsbæ og sinnti trúnaðarstörfum með þeim til margra ára.

Útför fer fram frá Háteigskirkju í dag, 7. ágúst 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi er farinn í sumarlandið þar sem mamma beið hans, saman sé ég þau dansa undir tónum lagsins Ramona.

Elsku pabbi, þessi mikla tilfinningavera (næstum „drama queen“), hann gat verið svo óskaplega glaður og þakklátur fyrir það sem gott var gert og reiður yfir ranglæti og vondu fólki, hann gat orðið meyr og tárast yfir góðverkum og sorglegum myndum. Svo mikil góðmennska og gjafmildi bjó í honum sem fjölskyldan og ástvinir nutu.

Heilsa hans var farin að tefja fyrir honum fyrir rest þótt viljinn og hugurinn væri tilbúinn. Hann gat ekki skilið af hverju ekki væri hægt að fixa þessa veikleika sem fylgdu ellinni, því hann vildi svo geta tekið þátt í fjölskylduferðum og fögnuðum og ég tala ekki um að komast til Spánar í eitt skipti enn.

Fyrsta minning mín um pabba er þegar ég labbaði niður Laugaveginn tveimur metrum á eftir honum, hann svo glaður með lífið trallandi og flautandi, nýbúinn að eignast lítinn dreng. Stelpurófan var feimin og ætlaði ekki að láta bendla sig við þennan blístrandi 27 ára kall.

Hann hafði svo gaman af því að ferðast með mömmu, oftast fóru þau til Ítalíu og seinna til Spánar þar sem þau keyptu sér raðhús, þangað var farið hvert vor og haust.

Hann vílaði heldur ekki fyrir sér að ferðast 10-12 tíma til Kanada í heimsóknir til dóttur sinnar og tengdasonar sem bjuggu þar.

Hann átti gott líf, var ríkur að barnabörnum og barnabarnabörnum, sem hann var svo góður við og stoltur af, þegar hann taldi þau upp minnti hann mig á Bárð á Búrfelli með smjörhleifana sína.

Það var mér svolítið áhyggjuefni að kynna fyrir honum öldruðum fjölbreytileika lífsins í fjölskyldunni minni, en áhyggjurnar hurfu skjótt, því hann tók því svo vel og var algjörlega fordómalaus enda voru þetta hans barnabörn.

Pabbi minn, ég þakka þér fyrir elskulega 72 ára samveru.

Þín dóttir,

Ólöf Jóna.

Elsku pabbi er horfinn á braut, sæll og saddur langra og farsælla lífdaga.

Þegar Ísland var hernumið að morgni 10. maí 1940 var pabbi ellefu ára gamall, sendill í Tjarnarbúðinni. Hann fylgdist af áhuga með hermönnunum marsera upp Suðurgötuna, þar sem náðist skemmtileg mynd af honum á hjólinu. Hann hellti sér á kaf í hermannavinnu, seldi þeim War News og Daily Post, fish and chips á kvöldin og sætabrauð um miðjan dag. Hann sagðist hafa þénað vel því hermennirnir voru vinsamlegir og greiddu honum ríflega. Herinn gaf út sérstakan passa fyrir hann til að auðvelda honum aðgang að lokuðum svæðum. Pabbi lærði ágætis ensku sem nýttist honum vel alla ævina, sérstaklega í vinahópnum í Kanada.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vinna með pabba sem sendill í prentmyndastofunni Litrófi. Þar fylgdist ég heilluð með öllum verkþáttum vinnslunnar sem voru margir og flóknir. Pabbi var mikill fagmaður og eftirsóttur í sínu fagi og hafði sérþekkingu á litgreiningu og vélum. Prentmyndagerðin þurrkaðist út með tilkomu tölvutækninnar og hef ég stundum hugsað um hvernig þessir ferlar hurfu inn í rafræna heiminn. Sendillinn gegndi eins konar hlutverki internetsins, hjólaði á milli auglýsingastofa og prentsmiðja með teikningar, filmur og klisjur. Besta minningin var þegar átrúnaðargoðin í Trúbroti komu á fund til pabba til að ræða útlit og myndgreiningu á Mandala-plötuumslaginu. Pabbi var ævinlega tæknisinnaður og tileinkaði sér því nýja tækni sem fólst í flexo-myndmótagerð. Hann starfaði hjá Plastprenti og síðast var hann deildarstjóri hönnunardeildar hjá Plastos, þar sem ég fékk aftur að vinna með pabba í áratug.

Foreldrar mínir urðu eins konar frumbyggjar á La Marina á Spáni 1989, þegar þau ásamt vinahópi úr Kiwanis byggðu sér lítil raðhús. Þau kölluðu svæðið Torfuna og nutu þess að dvelja þar vor og haust í góðra vina hópi í áratugi.

Pabbi hafði sérstakt blæti fyrir sjónvörpum, var fyrstur í blokkinni til að eignast sjónvarp 1963 og keypti sér litasjónvarp nr. 12 á Íslandi eftir að því hafði verið hvíslað að honum að Onedin-skipafélagið væri sent út í lit til prufu.

Hlýjan og góðleikinn geislaði af honum, og lét engan ósnortinn. „They don't come like him anymore,“ sagði kanadísk samstarfskona mín þegar hann birtist á skrifstofunni og kynnti sig fyrir öllu fólkinu með handabandi og hlýju. Hann átti líka stóran vinahóp í Kanada sem hann naut að vera með, ferðast á skemmtiferðaskipum og á ýmsa fallega staði.

Það voru forréttindi og gæfa að eiga pabba eins og þig, ég var alltaf svo stolt af þér. Þú vildir allt fyrir alla gera, varst traustur og trúr vinur vina þinna og alltaf hlýr og nærgætinn. Takk fyrir allt, elsku pabbi minn, góður Guð geymi þig.

Þín pabbastelpa,

Jenný Stefanía.

Elsku besti afi Jens.

Ein uppáhaldsminningin mín með þér er þegar ég og mamma komum í heimsókn til þín í Skipholtið fyrir nokkrum árum. Þú tókst til veglegar veitingar handa okkur, drykki og nammi í skál, sem reyndist svo ekki vera nammi heldur súputeningar. Þér fannst þessi mistök þín fyndnust af okkur öllum, svo hlustuðum við á Andre Rieu spila á „youtoo“.

Þú varst alltaf svo stoltur af fjölskyldunni og fannst gaman að segja öllum sem vildu heyra hvað þú værir ríkur að eiga fjögur börn, tíu barnabörn og svo alveg fullt af barnabarnabörnum. Þú varst einnig sá gjafmildasti og vildir alltaf gefa barnabörnunum pening fyrir ís eða bíóferð.

Það var líka svo gaman að spila á spil við þig, þú varst alltaf til í að spila og varst svo fljótur að læra ný spil, alveg þó þú værir orðin 90 ára gamall.

Þegar haldið var í bústað þá var mynd af ömmu það fyrsta sem þú pakkaðir niður og svo fór myndin beint á svefnborðið í bústaðnum. Það var líka mynd af ömmu á öllum veggjum og borðum heima hjá þér.

Ég minnist þín svona, elsku afi, sem yndislegasta og mesta dúllukarls sem elskaði ömmu heitna á hverjum einasta degi, frá því þú sást hana fyrst á ballinu alveg til þíns síðasta dags.

Ég elska þig og bið að heilsa ömmu.

Þín

Alexía Margrét
Björnsdóttir.

Nú kveðjum við Jens, kæran móðurbróður okkar. Hann var alltaf hlýr og umhyggjusamur og sýndi það best með vináttu við föður okkar þegar báðir voru á efri árum er hann bauð honum reglulega til sín. Þeir töluðu um gamla daga, jafnvel með kaupstaðarkaffi og bakkelsi. Það voru notalegar stundir.

Það var alla tíð mikil vinátta og kærleikur milli systkinanna og maka þeirra og margt brallað. Jens sagði að hann hefði farið í sína fyrstu utanlandsferð með föður okkar, sem sinnti viðskiptum ytra, og hafði gaman af.

Síðar fóru þau hjónin Jens og Alla og foreldrar okkar í margar ferðir saman. Bæði systkinin áttu athvarf á Spáni og þar naut Jens sín og var höfðingi heim að sækja. Frá honum fór enginn svangur eða þyrstur, þvílík var gestrisnin. Oft var rifjuð upp eftirminnileg ferð þeirra frá Þýskalandi, þar sem faðir okkar og Jens keyptu bíla og óku þeim til Spánar.

Í heimsókn fyrir stuttu á Hlaðhamra, þar sem hann bjó síðustu ævidagana, lék hann á als oddi og ekki við annað komandi en að hann sýndi okkur herbergið sitt og allan útsaum konu sinnar sem hann var svo stoltur af og saknaði mikið.

Nú er Jens, síðastur af sinni kynslóð, farinn yfir í Sumarlandið þar sem þau Alla sameinast á ný.

Við sendum fjölskyldu Jens okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Halldóra Teitsdóttir og Harald Þór Teitsson.