Tölvumynd af nýju líforkuveri sem reisa á í Dysnesi í Eyjafirði á næstunni.
Tölvumynd af nýju líforkuveri sem reisa á í Dysnesi í Eyjafirði á næstunni.
Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnarsamlags Norðurlands, segir að áætlaður kostnaður við uppbyggingu innviða í Dysnesi við Eyjafjörð, þar á meðal allt að 700 metra langa bryggju, verði um 10 milljarðar króna

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnarsamlags Norðurlands, segir að áætlaður kostnaður við uppbyggingu innviða í Dysnesi við Eyjafjörð, þar á meðal allt að 700 metra langa bryggju, verði um 10 milljarðar króna. Þar af kosti höfnin 4-6 milljarða. Hafnarsamlagið sér um rekstur og þróun hafna á Akureyri, í Grýtubakkahreppi, Svalbarðsstrandarhreppi, Hörgársveit, Hrísey og Grímsey. Dysnes er í um 3,5 km fjarlægð frá Hjalteyri og 15 km norður af Akureyri.

Dreifist á 20-30 ár

Í samtali við ViðskiptaMoggann segir Pétur að kostnaðurinn muni dreifast á næstu 20-30 ár og að svæðið verði byggt upp í áföngum. Enn er óvíst hvernig fjármögnun verður háttað en Pétur segir áhuga á verkefninu mikinn og hann er bjartsýnn á aðkomu nokkurra aðila.

Fyrsta fyrirtækið til að koma sér fyrir í Dysnesi, og marka þannig upphaf verkefnisins, er Líforkuver sem snýr að eyðingu dýraleifa. Bjarkey Olsen matvælaráðherra opnaði í gær nýjan vef fyrirtækisins.

Líforkuverið er stórum hluta á vegum ríkisins og kostnaður við fyrri áfanga þess er áætlaður 2,9 milljarðar sem falla að miklu leyti á ríkið. Eins og fram kemur í fréttatilkynningu um málið byggir líforkuverið á söfnunarkerfi um landið sem áætlað er að kosti árlega um 3-400 milljónir króna. Heildarkostnaður við verið er fimm milljarðar króna.

Jarðakaup fyrsta skrefið

Pétur segir aðspurður að undirbúningur að uppbyggingu í Dysnesi hafi staðið sl. 10-15 ár en fyrsta skrefið var að kaupa þær jarðir sem svæðið stendur á, alls um 100 hektara.

„Það er búið að klára bæði aðal- og deiliskipulag og unnið er að umhverfismati fyrir höfnina. Því lýkur vonandi á fyrri hluta næsta árs. Þá verður okkur ekkert að vanbúnaði að hefja byggingu hafnarinnar.“

Pétur segir að dýpt hafnarinnar ráðist af þeirri þjónustu sem kallað verður eftir á svæðinu.

„Við erum að byggja upp til næstu áratuga. Þetta er eitt besta hafnarstæðið á Norðurlandi. Í gegnum tíðina hafa ýmsar hugmyndir verið uppi um atvinnustarfsemi á svæðinu, t.d. byggingu álvers eða þjónustu við norðurslóðir. Nú hugsum við þetta einkum sem þróunarstað fyrir Eyjafjarðarsvæðið og landið allt, einkum fyrir hafnsækna starfsemi.“

Aðspurður segir Pétur að það geti tekið um 2-3 ár að byggja fyrsta áfanga hafnarinnar.

„Það verður spennandi að geta farið af stað. Við biðum lengi eftir tryggri raforku á svæðið sem nú er komin,“ segir hann.

Svæðið skiptist í þrennt

Svæðinu verður skipt í þrennt að sögn Péturs. Sautján athafnalóðir verða í boði, ellefu iðnaðarlóðir og tólf lóðir fyrir hafnsækna starfsemi. Þá er gert ráð fyrir gámavöllum.