Sigurður Kristinsson, gítarleikari og akstursíþróttamaður, fæddist 7. desember 1964. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 22. júlí 2024.

Foreldrar hans voru Kristinn Karlsson, f. 4.10. 1936, d. 18.5. 2023, og Bryndís Sigurðardóttir, f. 22.1. 1941, d. 8.12. 2018. Systur hans eru Harpa, f. 30.11. 1958, og Arna Dís, f. 31.7. 1972.

Fyrri kona Sigurðar var Brynhildur Fjóla Hallgrímsdóttir, f. 7.8. 1971. Þau skildu. Börn þeirra eru Eneka Abel, f. 29.6. 1998, Dania Berit, f. 28.6. 2000, og Júlía Fídes, f. 15.11. 2002.

Eftirlifandi kona Sigurðar er Ting Zhou. Þau giftust 27.4. 2011. Börn þeirra eru Bryndís Xian, f. 23.1. 2012, og Vilhjálmur Hui, f. 21.6. 2013.

Sigurður var einn af fyrstu félögum Sniglanna og bar Sniglanúmerið #55. Hann var stofnfélagi í hljómsveitinni Sniglabandinu og lék þar fyrst á trommur en síðar á gítar. Hann sinnti tónlist á margvíslegan hátt, m.a. sem upptökumaður og upptökustjóri auk þess að annast undirleik hjá fjölda listamanna. Hann gaf út tvær sólóplötur. Sigurður var einnig atkvæðamikill í ýmiss konar akstursíþróttum og keppti meðal annars í rallýkrossi og akstri RC-bíla. Hann menntaði sig í kerfisfræði og starfaði í nokkur ár að tölvutækni.

Útför Sigurðar fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 7. ágúst 2024, klukkan 14.

Kollþrykktur, eins og hann var kallaður innan Sniglanna, er allur. Siggi var einn af stofnfélögum Sniglabandsins og lék með hljómsveitinni fyrstu árin, fyrst á trommur en síðar á gítar. Siggi var stór og litríkur karakter. Sum uppátæki hans voru með algjörum ólíkindum og sögurnar ótrúlegar. Hann var gríðarlega hæfileikaríkur á mörgum sviðum, það var nánast sama hvað hann tók sér fyrir hendur. Innan skamms var hann búinn að afla sér allrar þekkingar og kominn í fremstu röð á viðkomandi sviði.

Siggi var algjörlega ótrúlegur ökumaður og lék listir sem enginn gæti leikið eftir. Hann var jákvæður og úrræðagóður. Einhverju sinni tók hann þátt í nokkurs konar útileikhússýningu sem var við hliðina á Skúlagötu 4. Þar var sett upp sena eins og úr amerískri glæpamynd, glæsipíur og einhverjir kallar með byssur – og þar var Siggi á Camaronum sínum spólandi í hringi. Nema hvað, þegar mest á reyndi slitnaði bensínbarkinn í bílnum. Nú voru góð ráð dýr en Siggi dó ekki ráðalaus. Kærastan hans var með eitthvert prjónadót í framsætinu, Siggi tók garnhnykil og festi í blöndunginn á bílnum, þræddi garnið inn um framrúðuna, batt um fingur sér og stjórnaði þannig bensíngjöfinni. „The show must go on!“

Siggi átti fjölmörg áhugaverð ökutæki og tók stundum þátt í sýningum. Á einhverri sýningu snemma á níunda áratugnum lýsti hann vélinni þannig að hún væri með kollþrykkta stimpla. Þetta hugtak snerist upp á hann sjálfan og festist við hann. Hann tók þessu viðurnefni með bros á vör, gegndi því og það eru margir sem þekkja Sigga ekki öðruvísi en Kollþrykktan.

Siggi fór með Sniglabandinu í fræga ferð til Sovétríkjanna sálugu. Þar átti hann hvern stórleikinn á fætur öðrum. Stundum kom fyrir að einhverjir heimamenn vildu etja kappi við hann í gítarleik og skoruðu hann á hólm í gítareinvígi, en því fór fjarri að nokkur hefði roð við honum. Andstæðingarnir voru bókstaflega jarðaðir svo jaðraði við niðurlægingu. Það var þó ekki í lundarfari Sigga að reyna að niðurlægja nokkurn mann, hann var alltaf jákvæður, hjálplegur og greiðvikinn.

Einhverju sinni fékk Siggi vinnu við að keyra steypubíl. Hann linnti ekki látum fyrr en hann hafði náð tökum á þeirri list að taka handbremsubeygju á steypubílnum og spóla síðan aftur á bak inn í stæðið. Svo óheppilega vildi til að þegar Siggi hafði fullkomnað þessa íþrótt og sýndi hana á planinu hjá steypufyrirtækinu var forstjórinn að horfa á bílaplanið út um gluggann og sá aðfarirnar. Þar með var ferli Sigga lokið sem steypubílstjóri, „en orðstír deyr aldregi, hveim es sér góðan getr“.

Takk fyrir samferðina Siggi og megirðu njóta þín á hinum eilífu kappakstursbrautum forfeðranna. Lífið er bragðdaufara án þín. Fjölskyldu hans sendum við innilegar samúðarkveðjur.

F.h. félaga Sigga úr hljómsveitinni Sniglabandinu,

Skúli Gautason.