Nýjungar „Það er verulega mikið af ungu fólk sem er að gera slíka hluti að maður trúir því varla,“ segir Áskell.
Nýjungar „Það er verulega mikið af ungu fólk sem er að gera slíka hluti að maður trúir því varla,“ segir Áskell. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það mætti kannski kalla slagverkið hljóðfæri nútímans. Það er gífurlega mikið að gerast í faginu núna,“ segir Áskell Másson tónskáld í samtali við Morgunblaðið um plötuna Morse Code sem verk hans eru í forgrunni á

Snædís Björnsdóttir

snaedis@mbl.is

„Það mætti kannski kalla slagverkið hljóðfæri nútímans. Það er gífurlega mikið að gerast í faginu núna,“ segir Áskell Másson tónskáld í samtali við Morgunblaðið um plötuna Morse Code sem verk hans eru í forgrunni á. Tónverkin á plötunni flytur bandaríski slagverksleikarinn Michael Sammons og eru þau öll helguð sneriltrommunni sem hljóðfæri. Platan kom út fyrr í sumar og er gefin út af bandaríska plötufyrirtækinu Equilibrium Records.

En ég er trommari!

„Við vorum búnir að vera að ræða heilmikið saman en ég hafði samt ekki hugmynd um að Mike væri sérfræðingur í því að spila á trommur. Ég hélt einfaldlega að hann væri Marimbu-leikari af því að ég hafði heyrt til hans þannig og hann er alveg afburðatónlistarmaður á það hljóðfæri. Þetta sýnir kannski bara best hversu frábær hann er að öllu leyti. En eftir langt samtal segir Mike svo allt í einu: „But I’m a drummer!“ (En ég er trommari!). Ég var alveg steinhissa. Það var síðan þess vegna sem hann langaði til að fá verk þar sem sneriltromman væri í aðalhlutverki og þetta varð til þess að ég skrifaði verkið „Io“ fyrir hann. Það er verk fyrir sneriltrommu og slagverkstríó, marimbu, víbrafón og pákur,“ segir Áskell spurður út í aðkomu sína að plötu Sammons. Verkin á plötunni eru öll samin fyrir og tileinkuð Sammons utan eitt, en það er verkið „Prím“ eftir Áskel.

Auk þess að vera þekktur slagverksleikari er Sammons kennari og fyrirlesari og þar að auki yfirmaður slagverksdeildarinnar við Tónlistarháskólann í Utah-ríki í Bandaríkjunum. Þeir Áskell eru góðir kunningjar og hefur Áskell meðal annars haldið meistaraspjall (e. masterclass) á námskeiði hjá Sammons. Það er á Áskeli að heyra að samstarfið hafi gengið afar vel og er hann ánægður með útkomuna. „Mér finnst hljómurinn á plötunni alveg til fyrirmyndar. Mike hefur fengið einhverja af helstu upptökumönnum í bransanum með sér í lið svo ég tali nú ekki um hljóðfæraleikarana, sem eru allir frábærir. Og það hvernig Mike spilar sjálfur á hljóðfærið, það er alveg með því besta sem maður heyrir yfirleitt.“ Þá er mikið sagt því að Áskell hefur unnið með mörgum af þekktustu slagverksleikurum heims, svo sem Evelyn Glennie og Gert Mortensen, svo að nokkur séu nefnd.

Rammar inn plötuna

Á Morse Code eru tvö tónverk eftir Áskel, það er „Prím“ sem er fyrsta verkið á plötunni og „Io“ sem er síðasta lag hennar og samið sérstaklega fyrir þetta tilefni eins og áður hefur komið fram. Tónverkin tvö ramma þannig inn restina af plötunni. „Io er glænýtt verk og það mun einnig koma út á prenti hjá útgefandanum mínum í Sviss, Editions BIM. Titillinn er dálítið sérstakur, en hann vísar til samnefnds tungls sem Galíleó Galíleí uppgötvaði og gyðjunnar Io úr grísku goðafræðinni.“

Þá er ýmislegt fleira á döfinni hjá Áskeli um þessar mundir og leiðir hann til að mynda dómnefnd í alþjóðlegri tónsmíðakeppni ítölsku samtakanna Percussive Arts Society en þau eru ein af umfangsmestu samtökum slagverksleikara í heiminum. Árið 2016 var Áskell heiðraður með æðstu viðurkenningu samtakanna fyrir þau áhrif sem tónverk hans hafa haft á þróun og tækni í slagverksleik.

Slagverkið í stöðugri þróun

Spurður út í helstu nýjungar og þróun á sviðinu svarar Áskell að það megi segja að slagverkið sé hljóðfæri nútímans. „Það er mikið um nýja tækni og ný slagverkshljóðfæri og allt mögulegt. Svo er verulega mikið af ungu fólk sem er að gera slíka hluti að maður trúir því varla,“ segir hann og nefnir m.a. slagverksleikarann Pei-Ching Wu. „Hún er algjör snillingur á marimbu og spilar með sex sleglum í einu. Það gera auðvitað fleiri, en enginn á sama hátt, hver er með sitt grip og gripin eru fjöldamörg. Svo er alltaf að koma fram einhver ný tækni í sambandi við hljóðfærin. Ef við tökum marimbuna sem dæmi, þá var stærsta konsertgrandmarimban til að mynda fjórar og einn þriðji áttund þegar ég skrifaði Marimbu-konsertinn minn árið 1985. Í dag eru eiginlega allar stóru marimburnar hins vegar fimm áttundir. Þá ertu kominn með risastórt hljóðfæri sem er yfir þrír metrar á lengd.“

Tilkynnt verður um vinningshafa keppninnar í september. Spurður hvernig dómnefndarstarfið leggist í hann svarar Áskell glaður í bragði: „Mjög vel. Það er gaman að fá að sjá hvað fólk er að gera á sviði slagverksins í dag og þá sérstaklega unga fólkið.“

Morse Code er fáanleg sem geisladiskur og einnig aðgengileg á helstu streymisveitum, s.s. Spotify og Apple Music og á vef Amazon og Equilibrium Recordings.

Höf.: Snædís Björnsdóttir