Keir Starmer á blaðamannafundi. Verkamannaflokkurinn er með skattafríðindi auðmanna í sigtinu en gæti endað á að valda hagkerfinu og ríkissjóði tjóni með uppátækinu.
Keir Starmer á blaðamannafundi. Verkamannaflokkurinn er með skattafríðindi auðmanna í sigtinu en gæti endað á að valda hagkerfinu og ríkissjóði tjóni með uppátækinu. — AFP/Henry Nicholls
Þegar Rishi Sunak boðaði til þingkosninga í Bretlandi var það fyrir löngu ljóst að næstu ríkisstjórn yrði vandi á höndum og að fyrsta verk á dagskrá yrði að fylla upp í stórt gat í fjárlögunum. Nú er Keir Starmer fluttur í Downingstræti 10 og er það …

Þegar Rishi Sunak boðaði til þingkosninga í Bretlandi var það fyrir löngu ljóst að næstu ríkisstjórn yrði vandi á höndum og að fyrsta verk á dagskrá yrði að fylla upp í stórt gat í fjárlögunum.

Nú er Keir Starmer fluttur í Downingstræti 10 og er það stefna Verkamannaflokksins að skrapa saman 8,6 milljörðum punda með sérstökum sköttum á hátekjumenn í fjármálageiranum, nýjum sköttum á skólagjöld einkaskóla og hvalrekaskatti á hagnað olíu- og gasfyrirtækja. Þorra upphæðarinnar, eða um 5,2 milljarða punda, hyggst Starmer hins vegar kreista út úr aðfluttum auðkýfingum sem hingað til hafa fengið að njóta hagstæðra skattakjara í Bretlandi.

Það úir og grúir af milljóna- og milljarðamæringum í London einmitt vegna þess að þeir hafa – ef þeir eru af erlendum uppruna og tekjur þeirra koma erlendis frá – getað nýtt sér eldgamlar reglur og glufur til að lágmarka skattgreiðslur sínar.

Ekki ætti að koma lesendum á óvart að fregnir herma að komið sé fararsnið á þetta vellauðuga fólk. Það er ósköp ljúft að búa í London en lífið þar er varla svo gott að það sé endilega þess virði að greiða formúgu í skatta fyrir það eitt að eiga lítið hreiður í Chelsea eða Knightsbridge. Þetta er fólk sem getur í raun búið hvar í heiminum sem því sýnist og hefur úr fjölda staða að velja þar sem þeim bjóðast hagstæð skattakjör. Fyrir skattana sem sparast geta þau svo keypt sér nýjan Bugatti, ef ekki nýja einkaþotu, og ef þau skyldi vanhaga um gotterí frá Fortnum & Mason er eflaust hægt að fá það sent með DHL hvert á land sem er.

Bresk stjórnvöld ættu ekki að vera hissa enda hefur þetta gerst áður. Tekjuskattar í Bretlandi voru hækkaðir í topp í seinni heimsstyrjöldinni og allt þar til Thatcher komst til valda var jaðarskatturinn á tekjuhæstu einstaklingana um og yfir 90%. Þessir okurskattar höfðu þau áhrif að flestar stórstjörnur menningarlífsins sáu sér þann kost vænstan að flýja land til að geta haldið eftir einhverju af tekjum sínum. Rod Sewart og Tom Jones stungu af til Kaliforníu, Rolling Stones og Bítlarnir þutu allir í burtu, Cat Stevens flaug suður til Brasilíu, Sting skaust til Írlands, Freddie Mercury fór á flakk en David Bowie settist að í Sviss. Allir greiddu þeir hóflega skatta upp frá því og breski ríkissjóðurinn þurfti að láta sér lynda að fá 90% af núll pundum.

Er til skemmtileg saga af því þegar Bowie var nýlentur og vinalaus til Sviss og dauðleiddist í risastóru húsi sínu í jaðri Genfar. Eitt kvöldið er bankað á dyrnar og þar stendur Roger Moore, annar breskur skattaflóttamaður á hátindi frægðar sinnar. Bowie gladdist við að fá þennan góða gest og áttu þeir afskaplega skemmtilega kvöldstund saman. Næsta dag var bankað aftur á dyrnar, og aftur var glaðbeittur Moore mættur á svæðið. Að sjálfsögðu var honum boðið inn að spjalla í annað sinn og gott ef hann sagði ekki sömu sögurnar og kvöldið áður.

Svona gekk þetta í tvær vikur þar til Bowie var orðinn svo aðframkominn að hann faldi sig undir eldhúsborðinu sínu og þóttist ekki vera heima þegar Moore bankaði á dyrnar.

Segir sagan að Bowie hafi síðar verið boðið hlutverk vonda karlsins í A View to a Kill, en að hann hafi hafnað boðinu af ótta við að þurfa að hlusta á sögurnar hans Moore enn eina ferðina.

Betra er að ná sínu fram með góðu en illu

Eflaust munu margir milljarðamæringarnir sem Starmer tekst að fæla frá Bretlandi stefna rakleitt á Sviss. Þar er löng hefð fyrir því að bjóða sterkefnuðum útlendingum að setjast að og greiða hlutfallslega lága skattprósentu eða semja um að borga hinu opinbera hóflega fasta upphæð árlega. Svisslendingarnir hafa fyrir löngu áttað sig á því að lítið af miklu er meira en mikið af engu, og skilja örugglega líka að það getur ekki annað en styrkt hagkerfið að fá inn í samfélagið fólk með mikla fjárfestingargetu og dýrmæt viðskiptasambönd.

Talandi um Sviss og James Bond, þá minnir hugmyndafræði Verkamannaflokksins (og vinstrimanna almennt) á það hvað vondu karlarnir í Bond-myndunum eru oft skammsýnir og ráðabrugg þeirra órökrétt. Síðastliðinn vetur tók ég mig til og horfði aftur á allar gömlu Bond-myndirnar og áttaði mig m.a. á að Ernst Stavro Blofeld skortir allt viðskiptavit.

Í bestu Bond-myndinni, On Her Majesty‘s Secret Service, hefur Blofeld (Telly Savalas) komið sér fyrir á Piz Gloria sem er einmitt minn uppáhaldsstaður í Sviss, á toppi Schilthorn skammt suður af Interlaken, og skammt norður af Crans-Montana þar sem Roger Moore lést á heimili sínu í hárri elli.

Uppi á svissneska fjallstindinum hefur Blofeld tekist að nota dáleiðslu til að lækna laglegar ungar stúlkur af matarofnæmi, en dáleiðslan getur líka gert stúlkurnar að viljalausum verkfærum og hyggst Blofeld senda þær til allra heimshorna með efnavopn sem má fínstilla til að útrýma heilu dýra- og plöntutegundunum fyrir fullt og allt. Hótar Blofeld að nota efnavopnið nema alþjóðasamfélagið fallist á að hreinsa hann af öllum sínum fyrri glæpum og leyfi honum að setjast í helgan stein í ró og næði.

Ababbabb! – hugsaði ég. Menn hafa fengið Nóbelsverðlaun fyrir minni afrek en að finna lækningu við ofnæmi! Þá er greinilegt að vísindamennirnir á rannsóknarstofu Blofelds voru mörgum áratugum á undan sinni samtíð í veiru- og bakteríurannsóknum og augljóst að nota mætti efnavopnið hans til að t.d. hjálpa bændum að losna við arfa og aðskotadýr og þannig margfalda hjá þeim uppskeruna.

Það hefði varla staðið á þjóðum heims að gefa Blofeld sakaruppgjöf fyrir annað eins framlag til lækna- og landbúnaðarvísindanna og hann hefði getað fengið allt sem hann óskaði sér með góðu, frekar en illu.

Starmer og breskir skattgreiðendur munu væntanlega læra svipaða lexíu og Blofeld þegar tilraunir þeirra til að plokka peninga af aðflutta hátekjufólkinu verða til þess að það hverfur á brott og tekur með sér öll jákvæðu efnahagslegu áhrifin sem þeim fylgdu.

Valdefling skattgreiðenda

Það mætti alveg endurlífga umræðuna um að gera Ísland að lágskattalandi og skoða í leiðinni hvað læra má af reynslu þeirra þjóða sem hafa farið lágskattaleiðina með góðum árangri. Þessi vinna ætti m.a. að taka mið af því að alþjóðavæðingin hefur valdeflt skattgreiðendur svo að aldrei hefur verið auðveldara fyrir fólk með fínar tekjur að flytja sig um set og greiða sína skatta þar sem þeim sýnist. Fólk þarf ekki einu sinni að vera á Belgravia-launum til að geta bætt hag sinn og lífsgæði verulega með því að pakka niður í töskurnar og flytja sig um set eftir að hafa búið rétt um hnútana með hæfum skattalögfræðingi, rétt eins og Moore, Ringo, Jagger og allir hinir gerðu hér um árið.

(Og vilji fólk samt endilega gefa eitthvað til baka til íslensks samfélags þá er mun skilvirkara að gera það með beinum framlögum til góðgerðarfélaga. Hið opinbera fer ekki vel með peninginn.)

Einnig ætti að athuga hvaða breytinga við megum vænta á íslensku samfélagi og hvort að núverandi nálgun í skattamálum – og lífeyrismálum líka – falli vel að þörfum og samsetningu þjóðarinnar eins og hún verður eftir nokkra áratugi. Fræðin eru nefnilega samhljóma um að með minnkandi einsleitni samfélaga dregur úr vilja fólks til að greiða háa skatta. Um fjórðungur landsmanna er núna af erlendum uppruna, og ef þróunin heldur áfram á sömu braut verður þessi hópur orðinn helmingur samfélagsins eftir aldarfjórðung – og ekkert nema gott um það að segja; en kannski að fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjendur muni árið 2050 hafa lítinn áhuga á að halda uppi gegnumstreymis-lífeyriskerfi sem þeim gæti þótt aðallega þjóna hagsmunum innfæddra. Og kannski að innfæddir muni hafa takmarkaðan áhuga á að greiða fyrir þá heilbrigðisþjónustu, skólakerfi og félagslegu aðstoð sem blessað aðkomufólkið notar.

Sakar nokkuð að skoða hvort Ísland geti gert eins og Malta og Írland, sem löðuðu til sín stórfyrirtæki með hóflegum sköttum og tókst þannig að margfalda landsframleiðslu sína? Þarf skandinavíska módelið endilega að vera upphafið og endirinn á öllu, og er eitthvað sem segir að þær lausnir sem reynst hafa svo vel í Sviss og Singapúr geti ekki líka virkað á Íslandi?