Ráðherrar þurfa að sinna grunnskyldum

Við umfjöllun Morgunblaðsins um grunnskólamenntun að undanförnu hefur margt komið í ljós en fátt gott. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, almenningi er umhugað um menntun barna og umræðan um grunnskólann hefur ekki farið fram hjá neinum.

Og þó, því engu er líkara en að sú umræða hafi farið fullkomlega fram hjá Ásmundi Einari Daðasyni, barna- og menntamálaráðherra. Hann hefur engan veginn tekið til máls eins og ætlast má til af ráðherra málaflokksins, gengist við ábyrgð sinni eða lagt fram úrbætur.

Engum átti að koma á óvart að örðugleikar kæmu upp við eðlisbreytingu á framkvæmd samræmdra prófa, sér í lagi þegar ekki var veitt nægu fé til þess. En hitt var skrýtið að eftir að það gerðist, var ekki ráðin bót á því eða unnt að leggja fyrir próf með gamla laginu, heldur gefist upp og samræmd próf látin niður falla.

Sú ákvörðun reyndist grunnskólum, nemendum og foreldrum til tjóns. Af mælingum var augljóst fyrir, að eitthvað væri að, en lausnin var örugglega ekki sú, að hætta mælingum og fara með niðurstöður PISA sem ríkisleyndarmál.

Þegar við bætist að menntamálaráðherra er tvísaga um hvenær nýtt samræmt námsmat verði tilbúið til innleiðingar, hann fer ekki að lögum um reglulega skýrslugjöf til Alþingis um framkvæmd grunnskólahalds, og hundsar erindi Persónuverndar árum saman, blasir við að lausatökin í ráðuneyti hans eru slík að ekki verður við unað.

Í aðdraganda kosninga vantar ekkert upp á hugmyndaflug ráðherraliðsins um ný og frábær verkefni. En það er ekki til of mikils mælst af kjósendum, að ráðherrar sinni fyrst grunnskyldum sínum og fari að lögum.