Söngstjörnur Giuseppe di Stefano (t.h.) ásamt Mariu Callas á Schiphol-flugvellinum í Hollandi 9. desember 1973.
Söngstjörnur Giuseppe di Stefano (t.h.) ásamt Mariu Callas á Schiphol-flugvellinum í Hollandi 9. desember 1973. — Ljósmynd/Dutch National Archives, Wikimedia
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Giuseppe di Stefano hafði gríðarleg áhrif á sönglistina.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Giuseppe di Stefano – eða Pipo – fæddist í Motta Sant‘ Anastasia á Sikiley árið 1921 og lést í hárri elli árið 2008 en þá hafði hann búið um skeið við vanheilsu í kjölfar fólskulegrar árásar sem hann varð fyrir í Kenía fyrir sléttum 20 árum (2004), þar sem fjölskylda hans átti sumardvalarstað. Hann fluttist ungur með fjölskyldu sinni til Mílanó þar sem hann ólst upp. Sönghæfileikar hans komu snemma í ljós og sextán ára gamall hóf hann söngnám og vann þegar til verðlauna í nokkrum smærri keppnum. Árið 1941 komst hann að sem nemandi hjá ítalska barítónsöngvaranum Luigi Montesanto en var kvaddur í herinn áður en til þess kæmi að hann gæti hafið nám. Fyrir mildi var di Stefano hlíft við veru á austurvígstöðvunum – sennilega vegna sönghæfileikanna – og árið 1943 flúði hann til Sviss. Ári síðar – það er að segja 1944 – söng hann í útvarpssal hjá svissneska útvarpinu og upptökur þaðan eru með því elsta sem varðveist hefur af söng di Stefanos.

Röddin var engu lík

Giuseppe di Stefano þreytti frumraun sína við Reggio Emilia-leikhúsið á Norður-Ítalíu sem Des Grieux í Manon í apríl árið 1946, þá rétt tæplega tuttugu og fimm ára. Innan skamms var hann farinn að syngja í húsum á borð við Liceu í Barcelona og Rómaróperunni við fádæma undirtektir. Tuttugu og sex ára gamall kom hann svo fyrst fram við Scala-óperuna í Mílanó; hann söng fyrst við Metrópólítan-óperuna 1948 en ekki í Covent Garden fyrr en 1961 þegar ferill hans var senn á enda og það var einmitt í því húsi tveimur árum síðar, það er að segja 1963, sem ungur og upprennandi tenórsöngvari, Luciano Pavarotti, hljóp í skarðið fyrir di Stefano í sýningu á La Bohème.

Gagnrýnendur höfðu ólíkar skoðanir á di Stefano, einkum þegar líða tók á ferilinn, en það er engum blöðum um það að fletta að röddin var engu lík – það er að segja á meðan hún var í lagi. Rudolf Bing, framkvæmdastjóri Metrópólítan-óperunnar, segir til að mynda frá því í sjálfsævisögu sinni að styrkleikabreytingunni á háa C-inu í kveðju Fausts, „Salut! Demeure“, gleymi hann aldrei – og þar talaði maður sem var ekkert sérstaklega hrifinn af karakter di Stefanos.

Skortur á tækni kom í koll

Giuseppe di Stefano hafði létta, lýríska rödd sem naut sín best í hlutverkum á borð við Elvino í La sonnambula, Nemorino í Ástardrykknum, greifanum af Mantua í Rigoletto og Alfredo í La traviata. Hann var einnig frábær sem til að mynda Riccardo í Grímudansleiknum og Cavaradossi í Toscu; di Stefano söng einnig þyngri hlutverk, sum á sviði og önnur í stúdíói, svo sem Don Alvaro í Valdi örlaganna, Canio í Pagliacci, Turridu í Cavalliera Rusticana, Manrico í Il trovatore og ekki hvað síst Calàf í Turandot, en mörg þessara hlutverka áttu í raun og veru engan veginn við raddgerðina; di Stefano hélt því að vísu fram að söngvarar ættu ekki að hafa of miklar áhyggjur af verkefnavali – og það væri jafnframt rangt að skipta þeim í flokka eins og til að mynda hnefaleikaköppum – en hann átti eftir að súpa seyðið af þessari kenningu. Þegar árið 1953 voru áhorfendur byrjaðir að púa á hann á Scala, einkum fyrir að hanga í tóninum og syngja of sterkt – það er að segja sjaldnast undir forte – og verkefnavalið fór einnig fyrir brjóstið á gagnrýnendum.

Það er ekkert efamál að söngtæknin – eða öllu heldur skortur á henni – varð di Stefano að fótakefli. Hann söng ávallt með mjög opinni röddu og gætti þess ekki að hlífa röddinni – einkum á því raddsviði sem nefnt er „passaggio“ (yfirgangurinn) – það er að segja f og g – og eiga þannig meira inni fyrir hæsta raddsviðinu; di Stefano áleit allt slíkt tal vitleysu og líkti því að loka hálsinum meðal annars eitt sinn við að það hlaupa undir kalda sturtu.

Dáður fyrir veikan söng

Giuseppe di Stefano var í guðatölu hjá mörgu óperuáhugafólki. Og hann hafði auðvitað gríðarleg áhrif á sönglistina. Pavarotti tilgreindi hann til að mynda ávallt sem eftirlætissöngvara sinn og þegar Jussi Björling heimsótti Mario Lanza í Bandaríkjunum hlustuðu þeir saman á hljómplötur með di Stefano. Það er ekki hvað síst fyrir ótrúlegan hæfileika til að syngja veikt sem di Stefano var dáður ásamt tilfinningaþrunginni túlkun sem einkennir flest af því sem hann gerir.

Ég nefndi að ofan að söngtæknin hefði orðið di Stefano fjötur um fót en það væri hins vegar alrangt að halda því fram að söngvarinn hafi að einhverju leyti kastað til höndunum í tónlistarflutningi sínum. Raunar má segja að þrátt fyrir dálítið óheflaða framkomu hafi di Stefano verið mjög þenkjandi tónlistarmaður. Hann var afar músíkalskur og lagði mikið upp úr dramatískri túlkun þeirra hlutverka sem hann tók sér fyrir hendur. Reyndar átti hann það til að fara pínulítið yfir strikið – til að mynda í endanum á La Bohème – en hæfileikarnir voru slíkir að hann gat leyft sér meira frjálsræði en margir kollegar hans; di Stefano hafði enn fremur nákvæmlega engan áhuga á að fara troðnar slóðir í óperuflutningi og áleit allt sem tengdist ríkjandi hefð einskis virði.

Stormasöm tengsl við Callas

Það verður auðvitað ekki minnst á Giuseppe di Stefano án þess að geta um náið samband hans og Mariu Callas. Leiðir þeirra lágu fyrst saman í Rio de Janeiro árið 1951 þar sem þau sungu saman í La traviata. Þau sungu upp frá því margsinnis saman á sviði, oftast á Scala en samband þeirra var að mörgu leyti stormasamt; di Stefano þoldi framan af illa alla þá athygli sem Callas fékk og eftir frumsýningu á La traviata á Scala í maí 1955 þar sem Callas var í hlutverki Violettu rauk hann á dyr með þeim orðum að óperuflutningur snerist ekki um forsíður á glanstímaritum.

Saman hljóðrituðu þau fjölmargar óperur fyrir EMI/Warner og af þeim er sennilega Tosca með de Sabata í mestu áliti. Það var svo di Stefano sem taldi Callas á að koma aftur fram opinberlega eftir langt hlé og saman fóru þau í tónleikaferð um heiminn árið 1973. Raddlega séð voru bæði algjörlega búin; ég á upptöku sem gerð var í þessari tónleikaferð og þrátt fyrir rífandi stemningu er söngurinn hreint út sagt hræðilegur.

Giuseppe di Stefano er og verður í uppáhaldi hjá mörgum óperuáhugamönnum og þó svo að túlkun hans hafi ekki verið gallalaus má segja að söngur hans hafi einmitt orðið til þess að laða hlustendur að óperutónlist – og það á ekki hvað síst við um þann sem hér heldur á penna.

Höf.: Magnús Lyngdal