Eiríkur Snorrason fæddist í Reykjavík 21. mars 1959. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu að Eiríksgötu 9 aðfaranótt mánudagsins 22. júlí 2024.

Foreldrar hans voru Snorri Guðmundsson leigubílstjóri, f. 3.6. 1915, d. 5.8. 1981, og Þórey Eiríksdóttir húsmóðir, f. 3.10. 1929, d. 29.3. 2022.

Eiríkur var ókvæntur og barnlaus.

Systkini Eiríks eru þrjú. Þau eru: 1) Guðmundur endurskoðandi, búsettur í Reykjavík, f. 7.2. 1958, kvæntur Sigríði Elsu Oddsdóttur, börn þeirra eru Berglind, Snorri, Ásta Hrund og Brynja. 2) Ragnheiður skrifstofumaður, búsett í Kópavogi, f. 29.5. 1960, gift Theodóri Guðfinnssyni, þeirra börn eru Bryndís María og Thelma Björk. Fyrir átti Ragnheiður Þóreyju Heiðdal. 3) Sigríður bókari, búsett í Calgary í Kanada, f. 15.11. 1966, í sambúð með Kjartani Sigurðssyni. Þeirra börn eru Helena og Bjarki.

Eiríkur ólst upp í Reykjavík hjá foreldrum sínum. Að loknu landsprófi starfaði hann eitt ár við fiskvinnslu í Vestmannaeyjum. Síðan lá leiðin í Iðnskólann í Reykjavík þar sem hann lauk námi í rafeindavirkjun. Að námi loknu þar hóf hann störf hjá Sjónvarpsmiðstöðinni, nú Raflandi, og starfaði þar óslitið síðan þá eða yfir fjörutíu ár. Fyrstu tuttugu ár ævinnar bjó Eiríkur með foreldrum og systkinum sínum á Frakkastíg 26A og síðan á Eiríksgötu 9 frá árinu 1979. Þar bjó hann ásamt móður sinni þar til hún vegna heilsubrests fluttist á hjúkrunarheimili árið 2020. Naut hún einstakrar umhyggjusemi Eiríks alla tíð.

Eiríkur var fróðleiksfús, las mikið og hafði yndi af ferðalögum, innanlands og utan. Ljósmyndun var honum sérstakt áhugamál. Hann hafði gaman af að dansa og hlustaði mikið á tónlist, einkum tónlist frá sínum uppvaxtarárum og fiktaði við sjálfsnám í hljóðfæraleik á seinni árum. Systkinabörnin voru honum mikils virði og sinnti hann þeim af mikilli alúð.

Útförin verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, 7. ágúst 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Ekki grunaði okkur hjónin þegar við kvöddum Eirík á Akureyri 12. júlí síðastliðinn að þetta yrði okkar síðasta faðmlag. Við vorum að koma austan af Héraði þar sem við höfðum átt sérlega skemmtilega viku saman á æskuslóðum tengdamömmu. Þar ferðuðumst við um í austfirskri blíðu eins hún getur best orðið. Mikið var spjallað og rifjað upp gamalt og gott. Við Eiríkur brölluðum ýmislegt saman, innanlands og utan á þessum síðastliðnu fjörutíu árum síðan ég kom inn í fjölskylduna. Ekki vorum við alltaf sammála og kom það fyrir að mættust stálin stinn. Sjálfsagt vorum við bæði jafnþrjósk, hann hrúturinn og ég ljónið. Jafnan enduðu þessar orðasennur með því að hann lét í minni pokann og sagði „æi, ég nenni ekki að tala meira um þetta“, og þóttist ég eiga síðasta orðið. En þrátt fyrir deildar meiningar áttum við oft okkar stund og „fórum á trúnó“. Þá kom í ljós að á bak við þrjóskupúkann og sprelligosann bjó ljúfur og viðkvæmur maður. Síðasta trúnaðarsamtalið áttum við einmitt fyrir austan þar sem farið var yfir margt sem á ævi okkar hafði drifið. Þá stund geymi ég í hjarta mér sem yndislega minningu.

Eiríkur bjó alla tíð með tengdamömmu á Eiríksgötunni. Þegar börnin okkar voru lítil héldu þau öll að Eiríkur væri afi þeirra enda voru hann og tengdamamma alltaf saman, t.a.m. alltaf hjá okkur á aðfangadagskvöld. Eitt sinn þegar ég var að lesa fyrir börnin kom fyrir setning í sögunni „…þá kom Eiríkur prins…“ . Þá gellur í þeirri yngstu, tveggja ára; Eiríkur, alveg eins og afurinn minn! Þetta vakti mikla kátínu hjá eldri systkinunum og var Eiríkur eftir það kallaður afurinn minn til aðgreiningar frá öllum hinum ófáu frændunum sem bera sama nafn. Afurinn gat verið mjög skemmtilegur og þegar hann fór í margs konar gervi þá kallaði það oft fram mikinn hlátur og kátínu.

Þegar við heyrðum af ótímabæru andlátinu þá var það fyrsta sem kom upp í huga mér:

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Minningin lifir.

Sigríður Elsa Oddsdóttir.

Maður veit varla hvað maður á að segja maður er dofinn yfir þessu, Eiki frændi farinn enginn á Eiríksgötunni að taka á móti manni í sunnudagsbíltúrnum. En maður reynir að hugsa um allar stundirnar sem maður náði að upplifa. Samband fjölskyldu minnar við þig var mikið og meira núna á síðari árum sem við metum mikils, alltaf var hægt að kíkja á Eiríksgötuna og aldrei komið að tómum kofunum þar.

Mín fyrstu ferðalög með þér var ég sem ungur pjakkur. Þú varst alltaf til í að leika við mann og gera það sem manni langaði til og þegar maður fór að eldast gátum við spjallað um allt og ekkert.

Ég var svo heppinn að ná að fara með þér og pabba í afmælisferðir ykkar erlendis sem við náðum að koma á koppinn. Síðasta ferð okkar feðga með þér var í fyrra sem var mjög góð í alla staði. Í þessum ferðum okkar var oft mikið glens og grín og ávallt stutt í spuna. Eitt gott sem við gátum alltaf hlegið að er þegar þú lentir í því í einni af ferðum okkar á erlendri grundu að gleyma að skila hótellyklinum og ferðaðist jafnvel alla leið heim með hann í vasanum án þess að taka eftir því. En í þá daga var alvörulykill, ekki kort líkt og í dag. Í einni ferð okkar erum við að rifja þessi mistök þín upp og mikið hlegið. Daginn eftir förum við að ganga frá og koma okkur í ferðagír á næsta áfangastað. Þegar við komum þar þá rekur þú upp smá hlátur og við feðgar skiljum nú ekki hvað þetta á að þýða. Viti menn, þú varst með lykilinn í vasanum, jæja þá var nú mikið hlegið. En við tók svo að finna pósthús á næsta áfangastað og koma lyklinum í póst. Svona gátu ferðir okkar stundum verið og alltaf var gaman hjá okkur og gleði í fyrirrúmi. Við nutum þess að vera saman allir þrír, þú gafst mikið af þér og við vonum að við höfum gefið líka mikið til þín. Þú varst einstakur ferðafélagi, alltaf svo áhugasamur og jákvæður. Varst iðulega búinn að skoða vel svæðið sem fara átti til og lesa þér til um þann stað.

Sem betur fer á maður mörg góð ferðalög með þér hvort sem það var erlendis eða á klakanum, hvort sem það var á þurru malbiki eða til fjalla. En því miður eigum við feðgar ekki eftir að ná ferðinni sem við vorum búnir að bóka með þér í haust. Við feðgar þurfum að fara án þín en ég er viss um að þú verðir nú ekki langt undan þar sem þetta var nú ferðin þín, afmælisferð þín og verður hún tileinkuð þér.

Eiki frændi, takk fyrir allt, takk fyrir að vera svona góður og hlýr, bæði við mig sem barn og síðan við börnin mín. Við eigum ekki orð yfir þann söknuð sem við sitjum nú með. Við munum alla vega eiga allar þær minningar sem við upplifðum.

Ásgeir, Stína og fjölskylda.

Fallinn er frá langt um aldur fram frændi og vinur, Eiríkur á Frakkastígnum, síðar á Eiríksgötunni. Hann var fjórum árum yngri en ég en samt sem áður fannst mér við vera jafningjar frá byrjun okkar kynna, sem hófust þegar hann kom fyrst til dvalar hjá okkur fjölskyldunni á Stöðulfelli. Mikil og náin vinátta og kærleikur var á milli þessara fjölskyldna, mæður okkar nánar systur sem höfðu mikinn samgang alla tíð á meðan báðar lifðu. Ekki var dvölin löng þetta fyrsta sumar en þær urðu svo nokkuð lengri næstu sumur þar á eftir. Fljótt kom í ljós að áhugi Eiríks lá ekki til þess lífsstíls sem sveitalífið bauð upp á. Hann valdi frekar að lesa góða bók en að fylgja okkur strákunum til leikja og verka. Einni bók man ég eftir að hann hafði meiri mætur á en öðrum og las oft, þetta var gamall þykkur doðrantur um einhvern Tarzan. Ekki veit ég um hvað hún snérist annað en að hún fjallaði um einhvern sterkan kappa, en úr öllu reyndi hann að gera sér boga örvar og var hann þá í þeim leikjum indíáni eða Hrói höttur. Þess háttar kappa höfðum við sveitadrengir ekki heyrt um en urðum þátttakendur í þessum leikjum. Einn góðan lestrarsið sá ég hjá honum sem ég hef ekki séð hjá neinum öðrum, en þegar hann handlék bók sem hann langaði að lesa, las hann fyrst síðustu tíu blaðsíður bókarinnar og ef þær lofuðu góðu var öll bókinn lesin. Ég átti síðar eftir að dvelja sem ungur drengur á heimili fjölskyldunnar á Frakkastígnum og kynntist ég þá betur öllu þessu frábæra skyldfólki mínu og hefur sú vinátta haldist síðan. Sagt er að þar sem er hjartahlýja er húspláss nóg og sannaðist það vel hjá þessari góðu fjölskyldu, alltaf var pláss og öllum boðið að vera. Tíminn líður og árin breytast í áratugi en allt er þetta eins og hlutirnir hafi ekkert breyst en þó við erum orðnir fullorðnir menn og minningin verður manni æ dýrmætari með árunum sem er svo gott að rifja upp og njóta. Eiríkur var einstaklega minnugur á allt það sem hann upplifði frá æsku og til dagsins í dag. Síðasta samtal okkar var laugardaginn áður en hann lagði í sína hinstu för. Þá sagði hann mér frá ferðalagi sem hann fór austur á land að vitja æskuslóða mæðra okkar, sagði hann mér hverja hann hafi hitt og hvert hann fór um Austurland. Það var fastur liður frá því ég man eftir að fjölskyldan á Frakkastígnum kæmi að Stöðulfelli á skírdag með alla fjölskylduna og hélst sá góði siður alla tíð. Þó svo að systurnar væru látnar fannst Eiríki ómögulegt annað en koma í heimsókn til okkar í sveitina á skírdag og var þar engin undantekning síðustu páska.

Nú síðari ár höfum við systrasynir hist reglulega. Minnst einu sinni á ári, annað árið einhvers staðar í Reykjavík og hitt árið farið í smá ferðalag, svo sem tveggja nátta. Margs er að minnast, góður drengur fallinn og eftir sitjum við með allar góðu og fallegu minningarnar. Systkinum Eiríks og mökum þeirra votta ég mínar innilegustu samúðarkveðjur og ekki síst systkinabörnunum hans sem áttu svo stóran hlut í hjarta Eiríks.

Oddur Guðni Bjarnason.

Elsku Eiki frændi var bráðkvaddur aðfaranótt 22. júlí sl. Undir það vorum við fjölskyldan ekki búin, og eflaust ekki hann sjálfur, enda töldum við að við ættum ófáar samverustundir eftir. Eftir sitja þó allar góðu og dýrmætu minningarnar.

Eiki, eins og við ávallt kölluðum hann, var okkur afar náinn. Hann átti hvorki maka né börn og lét þau orð falla að við systkinabörnin hans dyggðum honum vel. Hann var því einstaklega góður við okkur og tók alltaf vel á móti okkur á Eiríksgötunni, þar sem hann bjó ásamt ömmu. Hann var höfðingi heim að sækja og við systur minnumst sérstaklega besta „Eika-brauðsins“ sem hann glaður gerði fyrir okkur; þykkar, skorpulausar franskbrauðsneiðar með Heinz-baunum og osti í ofni. Hann reiddi einnig fram fínustu boð og var hefð að stórfjölskyldan hittist í hádeginu á aðfangadag hjá ömmu og Eika þar sem við áttum dýrmætar stundir og að sjálfsögðu var bara boðið upp á það besta, hangikjöt, flatkökur og laufabrauð. Það var einnig alveg víst að Eiki átti alltaf góðgæti handa okkur yngri kynslóðinni.

Húmorinn er eitt það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar Eika er minnst. Hann var alltaf eitthvað að „djóka“ eins og það heitir á góðri íslensku og hláturinn hans lifir sterkt í minningunni. Hann var ekki aðeins góður við okkur, heldur var hann einstaklega góður við ömmu, hugsaði vel um hana og heimilið, fór með hana landshlutanna á milli og var henni til halds og trausts. Húmorinn einkenndi einmitt svo skemmtilega þeirra samband og sérstaklega í seinni tíð þar sem svartur húmorinn var oft þeirra leið til að takast á við lífið, gera grín að hversdagslegum hlutum og augnablikum. Hann var svo hjartahlýr og hjálpsamur og alltaf til í að redda hlutunum.

Samverustundirnar urðu margar því Eika var alltaf boðið með og alltaf var hann til í að taka þátt í öllu hvort sem það voru afmæli, matarboð, fjallgöngur eða sundferðir og mætti hann yfirleitt með myndavélina til að festa minningarnar á filmu. Einnig bauð hann okkur með í mörg ferðalög og sumarbústaðaferðir. Hann hafði mikla ástríðu fyrir því að ferðast og fræðast, innanlands og utan, og var hann eins og lifandi vegahandbók. Las á öll bæjarskilti og vissi mikið um staðhætti. Bílarnir hans Eika voru honum hugleiknir og var venjan sú að þegar nýr bíll var keyptur var farið í bíltúr með nánustu ættingjum til að prófa og dást að nýja gripnum. Ekki var verra að alltaf var boðið upp á Trölla-Tópas í bílferðunum með honum, sem gerði þær enn þá vinsælli.

Eiki var pottþéttur, hafði ákveðnar skoðanir og stóð á sínu. Oftast voru hlutirnir annaðhvort svartir eða hvítir og ekki í boði að hafa neina gráa tóna þar á milli. Vanafastur rútínumaður sem elskaði tónlist og bækur. Hann var alveg einstakur karakter.

Elsku Eiki, þín verður sárt saknað og við vonum að þú, amma og afi séuð með húmorinn í lagi í sumarlandinu fagra.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Þínar systurdætur,

Þórey, Bryndís og Thelma.

Frakkastígur 26A, Freyjugata 5. Sjötti áratugur síðustu aldar. Órjúfanleg tengsl milli tveggja fjölskyldna. Systkinin á Frakkastíg, þau Gummi, Eiríkur, Ragga og Sigga. Við systkinin á Freyjugötu, Sigga, Eiríkur, Erla, Svanhvít og Ástrós. Aldur systkinanna fellur saman eins og í púsluspili, eins og allt sé skipulagt. Mæður okkar, Þórey og Björgheiður Eiríksdætur, voru systur en Björgheiður var móðir okkar. Feður okkar, Snorri og Sverrir Guðmundssynir, voru bræður. Báðir leigubílstjórar á Hreyfli. Órjúfanleg tengsl frændsystkina frá vöggu til grafar. Elsku Eiríkur Snorrason, frændi okkar á Frakkastígnum, síðar Eiríksgötu 9 er farinn frá okkur, allt, allt of fljótt. Minningarnar hrannast upp. Skólavörðuholtið, sundhöllin, plötusafnið hans Eiríks, hann keypti sér sko hljómplötu um hver mánaðamót hér á árum áður. Nafnarnir Snorrason og Sverrisson fóru báðir í Iðnskólann á Skólavörðuholti, Eiríkur frændi í útvarpsvirkjun og Eiríkur Sverrisson í rafvirkjun. Fullorðinsárin tóku við. Áfram dýrmæt tengsl við Eirík frænda okkar. Eiríkur og Þórey móðir hans bjuggu saman á Eiríksgötunni allt þar til hún lést fyrir tveimur árum. Hann bjó áfram á Eiríksgötunni. Honum leið vel þar og ekki hans stíll að vera að breyta mikið til. Enda óþarfi að vera að flækja lífið. Mæðginin Eiríkur og Þórey á Eiríksgötu 9 voru dásamleg mæðgin. Hvað hann Eiríkur var góður við mömmu alla sína tíð. Þau heimsóttu mömmu okkar reglulega á Skjól þar sem hún dvaldi síðustu æviár sín. Mömmu okkar þótti afar vænt um hann Eirík frænda, enda ekki hægt annað, algjör ljúflingur. Við vorum svo heppin að fá Eirík með mömmu sinni, móðursystur okkar, á atburði barna okkar, s.s. fermingarveislur, stúdentsveislur o.fl. Öllum þótti vænt um „Eirík frænda“. Eiríkur hafði unun af því að ferðast, ekki bara á Austurlandið ár eftir ár, heldur líka víðar hérlendis og einnig erlendis. Við systkinin öll eigum okkar ferðaminningar með honum. Þeir nafnar, Eiríkur Snorrason og Sverrisson, ferðuðust mikið saman. Oftar en ekki var Ásgeir, sonur Eiríks bróður, með í för. Þeir frændur voru búnir að ákveða ferð utanlands núna í ágúst, tilhlökkunin var mikil. En þá gripu örlögin inn í. Eiríki frænda var ætlað að fara í lengra ferðalag en til stóð. Elsku frændi, það er erfitt að átta sig á því að hann sé látinn. Missirinn er mikill, ekki síst fyrir Eirík bróður. Þeir frændur voru nátengdir, í reglulegum samskiptum. Þeir kvöddu hvor annan í sátt og samlyndi að sunnudagskveldi. Næsta morgun var ljóst að frændi okkar væri allur. Minning um góðan dreng lifir. Takk fyrir samfylgdina elsku frændi. Við systkinin og fjölskyldur okkar sendum frændsystkinum okkar og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Sigríður, Eiríkur,
Erla, Svanhvít og
Ástrós Sverrisbörn.