” Á samspil rannsóknarfréttaframleiðslu og tjáningarfrelsi starfsmanna stjórnsýslunnar mun reyna á fyrir Hæstarétti Íslands á komandi mánuðum.

Lögfræði

Birgir Már Björnsson

Hæstaréttarlögmaður á LEX lögmannsstofu og kennari í skuldaskilarétti við Háskólann í Reykjavík.

Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 er réttur manna til tjáningar skoðana sinna og sannfæringar verndaður hér á landi. Hver maður á því rétt á að láta í ljós skoðanir sínar en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Á grunni þessa tjáningarfrelsis og sérlaga sem þeim tengjast starfa fjölmiðlar sem jafnan eru taldir njóta rúms tjáningarfrelsis við störf sín.

Nokkuð hefur borið á umræðu um tjáningarfrelsi starfsmanna stjórnsýslunnar síðustu daga en almennt hefur verið talið að starfsmenn stjórnsýslunnar hafi tjáningarfrelsi til að tjá sig um upplýsingar sem aðgengilegar eru á grundvelli upplýsingalaga. Einnig hefur færst í vöxt frá bankahruni að umfjöllun fjölmiðla sé í formi rannsakandi fréttaframleiðslu sem hafi það að markmiði að afhjúpa reglulega meinta ólöglega háttsemi eða háttsemi sem kann að virðast siðferðislega ámælisverð frá þeim sjónarhóli sem beint er að viðkomandi umfjöllunarefni. Algengt er að inn í slíka fréttaumfjöllun dragist starfsmenn stjórnsýslunnar þar sem óskað er viðbragða þeirra við umfjöllunarefninu. Á slíkri fréttaframleiðslu eru skiptar skoðanir en ljóst er að hún getur haft viðtæk áhrif fyrir þann aðila sem umfjöllunin beinist að, bæði persónulega og fjárhagslega. Mikilvægt er að gæta að því ef umfjöllun fjölmiðla hefur það yfirlýsta markmið að vera hvoru tveggja afhjúpandi og regluleg, að hin mannlega kappsemi og persónulegar skoðanir beri ekki lögbundnar skyldur og vandaðan fréttaflutning ofurliði. Þurfa fjölmiðlar og opinberir aðilar enda lögum samkvæmt að ábyrgjast skoðanir sínar fyrir dómi og tjón sem af óréttmætum fréttaflutningi leiðir getur verið gífurlegt fyrir tjónþola þess og sækjanlegt úr hendi þess sem valdur er.

Á samspil rannsóknarfréttaframleiðslu og tjáningarfrelsi starfsmanna stjórnsýslunnar mun reyna á fyrir Hæstarétti Íslands á komandi mánuðum. Málið sem þar er til úrlausnar varðar bótakröfu fyrrum eigenda Brúneggja ehf. (Brúnegg) gegn Ríkisútvarpinu (RÚV) og Matvælastofnun (MAST) í tengslum við umfjöllun Kastljóss 28. nóv. 2016, sem síðar leiddi til gjaldþrots Brúneggja. Gagnvart MAST byggir bótakrafan meðal annars á því að MAST hafi á grundvelli gagnabeiðni RÚV, afhent gögn til RÚV umfram lagaheimild upplýsingalaga nr. 14/2012. MAST hafi þá ekki upplýst Brúnegg um gagnabeiðni RÚV og svipt Brúnegg lögbundnum rétti til að gæta hagsmuna sinna vegna hennar. Jafnframt hafi starfsmenn MAST tekið þátt í undirbúningi vinnslu Kastljóss, MAST sem eftirlitsaðili tjáð sig um málefni sem þeim hafi ekki verið heimilt að tjá sig um og starfsmenn MAST látið í ljós gildishlaðna skoðun sína á starfsemi Brúneggja. Gagnvart RÚV byggir bótakrafan m.a. á því að umfjöllun og efnistök Kastljóss um Brúnegg hafi allt í senn verið ósanngjörn, röng og villandi og brotið hafi verið gegn grundvallarskyldum fjölmiðla um sanngirni, hlutlægni, jafnræði, fréttnæmi og hagsmuna þeirra sem umfjöllun beindist að.

Í dómi Landsréttar í málinu kemur fram að gögn málsins beri með sér að strax í kjölfar sýningar Kastljósþáttarins hafi orðið hrun í sölu afurða Brúneggja og því slegið föstu að Brúnegg hafi orðið fyrir tjóni. Í dóminum er því jafnframt slegið föstu að tjón Brúneggja hafi verið sennileg afleiðing afhendingu gagna af hálfu MAST og yfirlýsinga starfsmanna MAST við framleiðslu fréttaefnisins. Jafnframt er tiltekið að MAST hafi brotið gegn 17. gr. upplýsingalaga með því að veita Brúneggjum ekki kost á því að tjá sig um þau gögn sem MAST hygðist veita RÚV varðandi einkahagsmuni Brúneggja.

Enn fremur var tekið fram að starfsmönnum MAST hafi verið heimilt að tjá sig um málefni Brúneggja en þeim hafi í svörum sínum þó borið að taka mið af lögbundnu hlutverki starfa sinna og gæta í hvívetna góðra og vandaðra stjórnsýsluhátta. Að mati Landsréttar hafi ummæli starfsmanna MAST ekki verið innan þeirra marka og falið í sér brot gegn lögmætis- og meðalhófsreglum stjórnsýsluréttar. Með vísan til þessara brota MAST og starfsmanna þess var talið að MAST bæri skaðabótaábyrgð gagnvart eigendum Brúneggja vegna tjóns sem þeir urðu fyrir. Landsréttur taldi þó að þrátt fyrir að athugasemdir Brúneggja við ýmis efnistök RÚV væru réttmætar og að óljós tengsl væru um hluta umfjöllunar Kastljóss við fréttaefnið, yrði því ekki slegið föstu að umfjöllun Kastljóss sem slík hafi verið efnislega röng eða ekki átt sérstakt erindi við almenning á þeim tíma sem þátturinn var sýndur. Taldi Landsréttur af þeim sökum sönnur ekki hafa verið færðar á að RÚV hafi með umfjöllun sinni og efnistökum sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi svo bótaábyrgð varði.

Hæstiréttur hefur nú veitt hvoru tveggja, eigendum Brúneggja og MAST, áfrýjunarleyfi í málinu á þeim grundvelli að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um skyldur og ábyrgð fjölmiðla. Niðurstaða Hæstaréttar verður því líkleg til fjölmiðlafárs.