Bergþóra Gísladóttir fæddist 10. september 1931 á Esjubergi, Kjalarnesi. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík 5. júlí 2024.

Foreldrar hennar voru Gísli Guðmundsson, f. 7. mars 1889, d. 28. apríl 1963, bóndi á Esjubergi, og Oddný Árnadóttir, f. 2. apríl 1889, d. 2. ágúst 1979, ljósmóðir og bóndi á Esjubergi. Systkini Bergþóru voru Guðmundur, f. 1910, d. 1973, og Sigríður, f. 1916, d. 1988. Bergþóra ólst upp á Esjubergi á Kjalarnesi þar til hún fór til Reykjavíkur til að stunda nám við Verslunarskóla Íslands.

Hún giftist þann 7. júlí 1950 Valdimari Magnússyni, f. 7. júlí 1925, d. 12. júlí 1972, trésmíðameistara frá Botni, Geirþjófsfirði, Suðurfjarðahreppi. Þau bjuggu alla tíð í Reykjavík. Bergþóra og Valdimar eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Hrafnhildur, f. 1951, gift Friðjóni Bjarnasyni, f. 1950. Þau eiga samtals fimm börn og þrettán barnabörn. 2) Ólafur Örn, f. 1953, kvæntur Unni Ernu Hauksdóttur, f. 1955, d. 2015. Þau eignuðust þrjú börn, eitt er látið, og fimm barnabörn. 3) Reynir, f. 1962. Maki hans er Hlíf Gestsdóttir, f. 1962, og synir þeirra eru þrír.

Fjöldi afkomenda Bergþóru og Valdimars er 22, 21 á lífi, einn látinn.

Útför Bergþóru fer fram frá Neskirkju í dag, 7. ágúst 2024, kl. 13.

Kveðja til mömmu.

Elsku mamma, margs er að minnast og margt að þakka. Æskuárin eru okkur systkinunum ofarlega í huga núna. Þú varst góð móðir, dugleg og rösk. Það var oft gestkvæmt á heimilinu, Systkini pabba voru mörg og bjuggu mörg í Smáíbúðahverfinu og var samgangur töluverður. Oft var farið í sunnudagsbíltúr að Esjubergi, þar sem amma og afi bjuggu og líka Sigga og hennar fjölskylda. Vinir og kunningjar ykkar foreldranna og okkar systkinanna voru líka velkomnir á heimilinu og var oft glatt á hjalla.

En lífið var ekki alltaf dans á rósum. Mamma var ekki nema 41 árs þegar hún varð ekkja, er pabbi lést af slysförum. Skömmu eftir það hóf hún störf hjá Pósti og síma og starfaði þar sem deildarstjóri þar til starfsævinni lauk.

Þó að í ýmsu væri snúast gaf hún sér tíma með fjölskyldunni og auk þess að sinna áhugamálum, lestri, handavinnu og gönguferðum, ferðaðist hún víða um heiminn. Í mörg ár var hún á Kanarí eftir áramótin og auk þess ferðaðist hún m.a. til Egyptalands og Kína.

Hún var skörp og með góðan húmor. Hún lá ekki á skoðunum sínum, ef henni fannst eitthvað, og reyndi að fylgjast með fram á síðasta dag. Þó af henni væri dregið undir það síðasta fylgdist hún af fremsta megni með því sem fram fór í kringum hana, þó að sjón og heyrn væru farin að daprast mjög.

Elsku mamma, við kveðjum þig með söknuði og þakklæti í huga. Þú sinntir okkur af alúð og við áttum margar ánægjustundir saman, svo sem um jól og aðrar hátíðir. Einnig eigum við góðar minningar úr sumarbústaðaferðum og öðrum ferðalögum með þér, fyrr og síðar. Við munum heldur aldrei gleyma síðustu samverustundum okkar á Litlu-Grund, þar sem þú dvaldist síðustu mánuði lífs þíns. Takk fyrir allt og allt.

Hvíldu í friði elsku mamma.

Hrafnhildur,
Ólafur Örn og Reynir.