Hjördís Ágústsdóttir Briem fæddist á Akureyri 2. nóvember 1929. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 23. júlí 2024.

Faðir hennar var Ágúst Kvaran, f. 16.8. 1894, d. 30.1. 1983, stórkaupmaður, leikari og leikstjóri á Akureyri, og móðir Þórlaug Guðný Björnsdóttir, f. 31.3. 1907, d. 23. 7. 1999, húsfreyja á Akureyri. Systur Hjördísar, sammæðra, eru Guðbjörg Margrét Stella Möller, f. 26.2. 1939, og Aðalheiður Ingibjörg Mikaelsdóttir, f. 6.2. 1945. Systkini Hjördísar, samfeðra, eru Þórdís Edda Ágústsdóttir Kvaran, f. 21.8. 1920, d. 21.2. 1981, Axel Kvaran, f. 7.1. 1932, d. 12.4. 2020, og Anna Lilja Kvaran, f. 28.10. 1935.

Þann 6. nóvember 1954 giftist Hjördís Gunnlaugi E. Briem, f. 8.11. 1922, d. 1.1. 2014, sakadómara í Reykjavík og síðar yfirsakadómara í Reykjavík. Börn Hjördísar og Gunnlaugs eru: 1) Valgerður Margrét, f. 9.7. 1956. Eiginmaður hennar er Guðmundur Einarsson og börn þeirra eru Arnar Geir, Brynja Dögg og Ásdís Rúna. 2) Kristinn, f. 7.1. 1961. Eiginkona hans er Kolbrún Sigurðardóttir og synir þeirra eru Hafsteinn og Brynjar Orri. Sonur Kristins er Gunnlaugur Már. 3) Gunnlaugur, f. 8.9. 1962. Dætur hans eru Aníta og Katrín. 4) Áslaug, f. 3.7. 1965. Eiginmaður hennar er Tómas Jónsson og dætur þeirra eru Hjördís Maríanna, Sara Hildur og Anna Rakel. Samtals á Hjördís 28 afkomendur.

Hjördís ólst upp á Akureyri. Hún stundaði nám við Norræna lýðháskólann í Kungälv í Svíþjóð á árunum 1948-1949. Hún lauk síðan námi frá Hjúkrunarskóla Íslands 1954. Hún starfaði sem hjúkrunarkona við Sjúkrahúsið á Akureyri á árinu 1954 en síðan starfaði Hjördís á ýmsum deildum Landspítalans og á Kleppspítalanum. Lengst af starfaði Hjördís sem hjúkrunarfræðingur á geðsviði Landspítalans og var þar aðstoðardeildarstjóri um árabil.

Hjördís og Gunnlaugur hófu búskap sinn í Hlunnavogi en bjuggu síðar á Rauðalæk og í Fossvogi. Þau áttu landskika við Silungatjörn þar sem þau byggðu sér hús og hófu trjárækt og er þar nú myndarlegur skógur. Lengst af hafði Hjördís lítinn tíma til að sinna öðrum áhugamálum því nóg var að gera á stóru heimili auk starfa hennar við hjúkrun. Hún var fólkinu sínu ávallt mikil stoð og stytta, einstaklega umhyggjusöm og alltaf boðin og búin að hjálpa öllum. Heimili þeirra Gunnlaugs var kærleiksríkt athvarf fyrir börnin og barnabörnin sem þau sinntu vel. Hjördís var dugleg, metnaðarfull og ósérhlífin. Hún var myndarleg húsmóðir sem töfraði fram glæsilegt kaffihlaðborð við hvert tilefni. Hún hafði gaman af blómarækt, var mikill fagurkeri, vildi hafa fínt og fallegt í kringum sig og bar heimilið þess merki. Í desember 2022 flutti Hjördís á hjúkrunarheimilið Sóltún.

Útför Hjördísar fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 7. ágúst 2024, klukkan 13.

Þakklæti er efst í huga mínum við kveðjustund elsku tengdamóður minnar. Sérstaklega fyrir að vera ávallt til staðar þegar við Áslaug vorum að koma fótum undir okkar búskap og þurftum á stuðningi að halda í barnauppeldinu og þakklæti fyrir að styðja okkur og stelpurnar okkar með ráðum og dáð æ síðan.

Hjördís setti farsæld sinna nánustu framar öðru og hún lagði svo sannarlega sitt af mörkum til þess að stuðla að velgengni þeirra. Hennar líf og yndi var að sinna þeim, vera þeim til staðar, hvetja áfram, hughreysta og ekki síst gefa þeim að borða. Þess vegna var hún alltaf stór hluti af lífi stelpnanna okkar og annarra barnabarna sinna og líka örlagavaldur í lífi sumra langt umfram venjubundið ömmuhlutverk. Þau öll bera henni fagurt vitni í dag.

Hjördís var glæsileg heiðurskona, fáguð, vönduð og hógvær. Það var aldrei asi á henni og hún setti sig aldrei á háan hest eða hækkaði róminn. Hún þurfti þess ekki, hún náði sínu fram á sinn hægláta hátt. Hún lifði fallegu, friðsömu og hamingjuríku lífi og sýndi styrk sinn þegar á reyndi. Sérstaklega er minnisstætt hvernig hún stóð eins og klettur við hlið ástkærs eiginmanns síns heitins í langvarandi veikindum hans.

Hjördís var gestgjafi af guðs náð og hafði áhuga á öllu sem tengdist matargerð og uppskriftum og nutu margir góðs af. Hún kunni líka að þiggja og njóta og var sérstaklega góður og jákvæður matargestur. Þó að hún hafi verið húsmóðir af gamla skólanum þá var hún líka útivinnandi og hafði jákvætt hugarfar til nýrra tíma. Hún náði t.d. að tileinka sér nýjungar í farsíma- og spjaldtölvutækni á níræðisaldri og vildi fylgjast vel með breytingum.

Það er erfitt að ímynda sér elskulegri tengdamóður en Hjördísi og góðvildin geislaði af henni. Eins og hennar var von og vísa þá tók hún mér afar vel við fyrstu kynni og það bar aldrei skugga á okkar samskipti, sem einkenndust af gagnkvæmri virðingu og væntumþykju.

Allra síðustu árin voru Hjördísi frekar erfið en þá má segja að hún hafi uppskorið að vera sú fyrirmynd sem hún var, og hún naut þá dyggrar aðstoðar afkomenda sinna. Ég er þakklátur fyrir samfylgdina með Hjördísi og allt sem hún gaf í sínu farsæla lífi. Guð blessi minningu hennar.

Tómas Jónsson.

Amma okkar var einstök kona sem lét sér mjög annt um aðra og þá sérstaklega fólkið sem stóð henni næst.

Í barnæsku vorum við svo heppnar að amma og afi bjuggu við hliðina á leikskólanum og skólanum sem við sóttum. Við nutum góðs af því að vera mikið hjá þeim eftir skóla og fengum alltaf gott að borða í Hellulandinu. Amma var afar gestrisin og það fór enginn svangur heim frá henni, enda var hún alltaf að dunda sér í eldhúsinu að baka ýmsar kræsingar. Við systur fórum oft í kaffi til hennar með mömmu og ef við komumst ekki með þá fengum við oftar en ekki veitingar sendar heim með henni. Þegar amma og afi bjuggu ennþá í Hellulandi komum við alltaf saman fyrir jól að skera út og steikja laufabrauð, það var okkur mjög mikilvægt að ná því, og seinna meir varð próflestur jafnvel að víkja fyrir laufabrauðsgerð með ömmu.

Amma Dísa sýndi lífi okkar systra alltaf mikinn áhuga og seinna einnig langömmubarna sinna. Hún fylgdist vel með öllu. Þegar við vorum yngri og urðum veikar var amma fyrst til að hringja og gefa góð ráð. Hún lét sér mjög annt um heilsu okkar og við nutum góðs af hjúkrunareiginleikum hennar.

Síðustu árin brást heilsa ömmu og líkaminn varð veikburða. Hún var þó alltaf mjög skýr og mundi eftir hinum ótrúlegustu hlutum og spurði okkur út í okkar lífsverkefni. Amma Dísa náði að kynnast Elísabetu Köru, langömmustelpunni sinni, ágætlega og þeirri litlu fannst afskaplega gaman að fá að fara með á Sóltún að hitta langömmu sína. Við vildum óska þess að amma hefði kynnst Birtu Sóleyju og Tómasi Þór betur og þau að sama skapi henni. Í staðinn munum við segja þeim frá langömmu Dísu.

Nú þegar komið er að kveðjustund er þakklæti okkur efst í huga, fyrir allar stundirnar sem við áttum með ömmu, kærleikann, væntumþykjuna og allar góðu minningarnar sem við eigum um góða ömmu. Við erum sorgmæddar yfir því að fá ekki lengri tíma með ömmu Dísu okkar en á sama tíma þakklátar fyrir þann langa og góða tíma sem við áttum með henni. Við trúum því að núna sé hún komin til afa Gunnlaugs og að þau vaki yfir okkur þar til við hittumst aftur.

Við kveðjum ömmu með miklu þakklæti og geymum allar góðu minningarnar um hana í hjartanu.

Amma kær, ert horfin okkur hér,

en hlýjar bjartar minningar streyma

um hjörtu þau er heitast unnu þér,

og hafa mest að þakka, muna og geyma.

Þú varst amma yndisleg og góð,

og allt hið besta gafst þú hverju sinni,

þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,

og ungar sálir vafðir elsku þinni.

Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,

þær góðu stundir blessun, amma kæra.

Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá

í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þínar,

Hjördís Maríanna, Sara Hildur og Anna Rakel.

Löng nú ævi liðin er

Lífsins ganga’ á enda,

kveðjum góða konu hér

og kærleik viljum senda.

Brosmild var með blíða lund,

bætti stundir allar.

Margan áttum fagran fund,

fínar, glaðar, snjallar.

Guðs nú opnast himins hlið,

heil þú inn þar gengur.

Um þig hugsar englalið,

engin kvöl er lengur.

Úti’ að borða allar þær

sem undan okkur fóru,

eftir erum aðeins tvær

af árgangs okkar flóru.

Hittumst aftur heilladís,

himnum á í stuði.

Sólin sest og sólin rís

í sælunni hjá Guði.

(SGS)

Sigríður Th. Guðmundsdóttir og Jónína Níelsen.