Fjölskyldan Hér eru hjónin Ingimundur og Margrét fremst fyrir miðju með börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Myndin er tekin við skírn Hugrúnar Tinnu Gunnarsdóttur árið 2019 og Margrét heldur á skírnarbarninu.
Fjölskyldan Hér eru hjónin Ingimundur og Margrét fremst fyrir miðju með börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Myndin er tekin við skírn Hugrúnar Tinnu Gunnarsdóttur árið 2019 og Margrét heldur á skírnarbarninu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingimundur Vilhjálmsson fæddist 7. ágúst 1944 í Ysta-Bæli undir Eyjafjöllum. „Ég er alinn þar upp af ömmu minni og afa, Ingiríði Eyjólfsdóttur og Ingimundi Brandssyni, sem bjuggu þar og voru með blandaðan búskap.“ Ingimundur gekk í skóla í Skarðshlíð

Ingimundur Vilhjálmsson fæddist 7. ágúst 1944 í Ysta-Bæli undir Eyjafjöllum. „Ég er alinn þar upp af ömmu minni og afa, Ingiríði Eyjólfsdóttur og Ingimundi Brandssyni, sem bjuggu þar og voru með blandaðan búskap.“ Ingimundur gekk í skóla í Skarðshlíð. „Þetta var svona hefðbundinn sveitaskóli og ég kunni ágætlega við mig þar.“

Eftir skólagönguna í Skarðshlíð fór Ingimundur í héraðsskólann í Skógum og lauk þar prófi 1961. Þá fór hann í Búnaðarskólann á Hvanneyri og lauk þar námi í búfræði 1962. „Það var gaman á Hvanneyri og þar kynntist maður meiri tækni í mjöltun, en við handmjólkuðum bara á bænum heima á þessum tíma,“ segir hann og bætir við að mjaltavélar hafi ekki komið á Ysta-Bæli fyrr en sonur afa hans og ömmu, Sveinbjörn og kona hans Eygló taka við bænum.

Eftir búfræðinámið á Hvanneyri starfaði Ingimundur á Kynbótastöðinni í Laugardal og sinnir því starfi alveg til 1974, meðfram búskapnum frá 1968.

„Ég var dálítið virkur í ungmennafélaginu Eyfellingi í gamla daga og var þar í stjórn félagsins og keppti aðeins fyrir hönd félagsins á Skarphéðinsmótum og víðar,“ segir Ingimundur sem kynntist konu sinni Margréti í gegnum íþróttirnar, en einnig hafði hún verið starfskona á Héraðsskólanum á Skógum. „En það má samt segja að ég hafi fundið hana á sveitaballi, eins og algengt var á þessum tíma.“ Þau giftu sig í október 1967.

„Á vordögum 1968 tókum við jörðina Ytri-Skóga á leigu ásamt öðrum hjónum, þeim Sigurði Sigurjónssyni og Kristínu Þorsteinsdóttur og búum hér samfellt frá þeim tíma.” Það var nóg að gera á bænum þegar ungu hjónin hófu búskap og fjölga fór í fjölskyldunni og Ingimundur segir að barnauppeldið hafi verið meira á könnu Margrétar eins og títt var á þeim tíma. Hann segir að Sigurður hafi verið mikill hestamaður. „Ég hafði meira gaman af búfjárrækt almennt,“ segir hann og bætir við að hann hafi ekki verið mikið í hrossum fyrr en hann fór að búa að Skógum.

„Sigurður var meiri hestamaður og í tamningum en ég fór svolítið í hrossaræktina uppúr því,“ segir hann og bætir við: „Ég er ennþá að gutla við það, en er núna kominn með tamningamann sem sér um að temja fyrir mig, Hlyn Guðmundsson,“ segir Ingimundur sem ætlar að bregða búi í haust. „Sigurður lést af slysförum síðasta haust og líklega mun Kristín kona hans taka við búrekstrinum.“

Ingimundur er hógvær og vill lítið berast á. Hann er þó þekktur hrossaræktandi í sveitinni og var í Hestamannafélaginu Sindra, og hefur að auki tekið þátt í mörgum félagsstörfum í héraðinu. Hann var í stjórn nautgriparæktarfélagsins og fleiri félagsstörfum og tók þátt í leiklistarlífinu í sveitinni. Þá var hann í mörg ár í Flugbjörgunarsveit Austur-Eyjafjalla. Einnig kom hann að umsjón með félagsræktun á Skógasandi þar sem gert var tún þar sem allir í sveitinni slógu á tímabili og menn áttu þar sín stykki. „Svo höfum við hjónin sungið árum saman í kirkjukórnum undir stjórn Þórðar Tómassonar í Skógum sem var kórstjóri í mörg ár.“

Fjölskylda

Eiginkona Ingimundar er Margrét Helga Jónsdóttir, f. 9.11. 1945, bóndi á Ytri-Skógum. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Magnús Jónsson, f. 13.1. 1920, d. 16.12. 2012, og Ásta Helgadóttir, f. 26.5. 1920, d. 19.12. 2012, bændur á Hvítanesi í Vestur-Landeyjahreppi.

Börn Ingimundar og Margrétar Helgu eru 1) Jón Ólafur vélvirki, f. 13.1. 1968, kvæntur Rósu Írisi Ólafsdóttur aðstoðarleikskólastjóra, f. 2.6. 1973 og þau eiga soninn Berg Frey Jónsson, f. 1.5. 2012. 2) Hugrún Inga, húsgagnasmiður og kennari, f. 6.6. 1970, gift Kristjáni Viðari Haraldssyni, tónlistarmanni og heilara, f. 20.2. 1965. Synir þeirra eru Björn Guðberg, f. 23.4. 2003; og Ásgeir Bjartur, f. 31.10. 2004. Áður átti Hugrún dótturina Karen Helgu Kristinsdóttur, f. 10.3. 1995, gifta Gunnari Páli Einarssyni, f. 23.5. 1991 og þau eiga Einar Andra, f. 22.6.2017; og Hugrúnu Tinnu, f. 24.9. 2019. 3) Kristbjörg, sérkennslustjóri í leikskóla, f. 2.4. 1973, gifta Helga Jónssyni framhaldsskólakennara, f. 28.7. 1969. Börn þeirra eru Margrét Birna, f. 24.3. 2001; og Jón Ingi, f. 17.11. 2003. 4) Ásta Rut hjúkrunarfræðingur, f. 21.7. 1978, gift Elías Rúnari Kristjánssyni leiðsögumanni, f. 23.11. 1973. Dætur þeirra eru Karólína Ösp, f. 19.2. 2011; og Viktoría Rún, f. 30.1. 2013. 5) Eva Rún, klæðskeri og textílkennari, f. 29.3. 1980, gift Ólafi Hauk Flygenring tölvunarfræðingi, f. 19.3. 1978. Börn þeirra eru Sindri Páll, f. 10.7. 2010; og Lára Inga, f. 14.2. 2014.

Sammæðra systkini Ingimundar eru Rútur Kristinn Rútsson, f. 21.5.1947, d. 1.1. 1948; Jóhannes Bergþór Long, f. 26.10. 1949, d. 5.10. 2010; og Inga Long, f. 20.4. 1951. Samfeðra systkini Ingimundar eru Frímann Sigurvin, f. 22.8. 1947; Rúnar Vilhjálmsson, f. 19.1. 1950, d. 1.2. 1970; og Eyþór Vilhjálmsson, f. 11.6. 1952.

Foreldrar Ingimundar voru Karólína Kristbjörg Ingimundardóttir, f. 27.2. 1925, d. 9.6. 2016, húsfreyja í Reykjavík, og Vilhjálmur Eyþór Guðbjörn Þorbjörnsson, f. 14.1. 1923, d. 19.7. 2004. Hann bjó í Reykjavík. Fósturfaðir Ingimundar var Ólafur Long.