Sorphirða Kubbur að störfum í Kópavogi. Fyrirtækið keypti þrjá nýja bíla í verkefnið sem hófst 1. ágúst.
Sorphirða Kubbur að störfum í Kópavogi. Fyrirtækið keypti þrjá nýja bíla í verkefnið sem hófst 1. ágúst. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Nýr verktaki sorphirðu í Kópavogsbæ reiknar með að ná áætlun samkvæmt sorphirðudagatali á þriðjudaginn í næstu viku. Kubbur tók við sorphirðu af Íslenska gámafélaginu 1. ágúst en fyrirtækið gerði samning við bæinn til sex ára

Nýr verktaki sorphirðu í Kópavogsbæ reiknar með að ná áætlun samkvæmt sorphirðudagatali á þriðjudaginn í næstu viku.

Kubbur tók við sorphirðu af Íslenska gámafélaginu 1. ágúst en fyrirtækið gerði samning við bæinn til sex ára. Fyrirtækið Kubbur er stofnað á Ísafirði árið 2006 og er Kópavogur ellefta sveitarfélagið sem það starfar fyrir en hin eru Ísafjarðarbær, Bolungarvík, Fjarðabyggð, Ölfus, Vestmannaeyjar, Vesturbyggð, Tálknafjörður, Súðavík, Vestur-Skaftafellssýsla og Snæfellsbær.

Jón Svavarsson, verkstjóri hjá Kubbi í Kópavogi, segir fyrirtækið vera nýtt á svæðinu og með nýja menn sem enn séu að læra á hverfin. Þá sé mikið rusl og uppi ágreiningur um það hvort tæmt hafi verið á réttum tíma áður en Kubbur tók við. Af þessum sökum gangi hægar en vonir stóðu til. Segir hann nýju bílana aðeins öðruvísi en þá sem fyrirtækið hafi notast við til þessa og búi yfir öðruvísi búnaði sem menn séu enn að læra inn á. Kubbur hafi þá ekki unnið með tvískiptar tunnur áður. „Það gengur vel í tunnum með lífrænu og almennu sorpi en það situr mikið fast í pappa- og plasttunnunum.“

Kópavogur er stærsta sveitarfélagið sem Kubbur hefur komið að þjónustu fyrir. Hjá Kópavogsbæ fengust þau svör að Kubbur væri fjórum dögum á eftir áætlun miðað við útgefið sorphirðudagatal. Kubbur keypti þrjá nýja bíla í verkefnið en einn bíllinn hefur verið að bila. Þá segir Jón einn bíl til viðbótar af öðru svæði koma til að hjálpa til við sorphirðuna seinni hluta vikunnar, eða þegar sá bíll losnar úr sínum venjubundnu verkefnum.

„Kópavogsbær og Kubbur unnu saman að því að undirbúa skipti á verktaka sorphirðu eins og vel og hægt var en þrátt fyrir það hafa því miður orðið tafir sem vonandi greiðist úr á næstu dögum,“ sagði Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill Kópavogs, við Morgunblaðið. olafur@mbl.is