Herdís Tómasdóttir
Í fyrsta skipti eftir næstum tvo mánuði af fótbolta og þar á eftir Ólympíuleikum þurfti undirrituð að opna streymisveiturnar á ný og velja sér efni sjálf. Þar er hægt að eyða mörgum klukkustundum af lífi sínu í að velja sjónvarpsefni og hefur undirrituð áskrift að óverjandi mörgum streymisveitum sem engin virðist hafa neitt frumlegt eða nýtt upp á að bjóða í þeirri gúrkutíð sem ágústmánuður er. En við verðum ekki án íþrótta lengi þar sem næst á dagskrá er enska úrvalsdeildin í fótbolta karla sem hefst í kvöld með leik Manchester United gegn Fulham á Old Trafford.
Undirrituð er harður stuðningsmaður United og kennir föður sínum alfarið um þá bölvun. Í staðinn fyrir að halda með liði í Lundúnum eða á suðurhluta Englands þarf undirrituð að fara til Manchester, þar sem ekkert er að gerast, til þess að horfa á fótboltaliðið sitt spila á heimavelli.
Það hefur krafist mikillar hörku að styðja United á síðustu árum sem og sálfræðiþjónustu sem undirrituð á eftir að fá endurgreidda frá klúbbnum. En núna eftir kaup Íslandsvinarins Jims Ratcliffes á hluta af klúbbnum virðist allt vera á réttri leið. Undirrituð á samt von á því að United tapi 0-5.