Fjölskyldan Frá vinstri: Harpa, Ásta, Birna, Frissi og Binni.
Fjölskyldan Frá vinstri: Harpa, Ásta, Birna, Frissi og Binni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í gegnum tíðina hefur fólk velt fyrir sér hvers vegna maður með svo stórt nafn, Fritz Hendrik Berndsen, hafi verið kallaður Binni. Þegar Binni fæddist 16. ágúst 1944 á Öldugötu 42 bjuggu móðir hans og systur hennar, Björg og Binna, þar líka

Í gegnum tíðina hefur fólk velt fyrir sér hvers vegna maður með svo stórt nafn, Fritz Hendrik Berndsen, hafi verið kallaður Binni. Þegar Binni fæddist 16. ágúst 1944 á Öldugötu 42 bjuggu móðir hans og systur hennar, Björg og Binna, þar líka. Binna var að flytja til Bandaríkjanna með amerískum hermanni og til að minna fjölskylduna á hana var Fritz Hendrik litli kallaður Binni.

Fljótlega eftir að Binni fæddist skildu foreldrar hans og hann ólst upp hjá afa sínum og ömmu á Öldugötu 6. Afi hans átti og rak eina fyrstu blómaverslun landsins, Blóm og Ávexti í Hafnarstræti. Á sumrin fór Binni litli með ömmu sinni til Binnu frænku í Ameríku. Á þeim tíma tók slíkt ferðalag 12-17 tíma, með millilendingu í Goose Bay. Eftir fyrsta sumarið var Binni orðinn altalandi á ensku og túlkaði fyrir ömmu sína.

„Að alast upp hjá ömmu og afa var einstakt. Einn rigningardag tók afi minn bílpróf. Hann þurfti að setja vinnukonurnar á sem hann þoldi ekki. Eftir það keyrðum við einungis í Steindórs-leigubíl. Þegar krakkarnir í götunni voru keyrðir af foreldrum sínum á skíði fór afi minn með mig í Steindórsbíl, sem beið á meðan ég skíðaði.“

Binni gekk í Landakotsskóla og síðar í Gaggó Vest og lauk gagnfræðaprófi. Síðan lá leiðin til Kaupmannahafnar í læri í blómaskreytingum, þar sem hann lauk sveinsprófi. Á unglingsárunum var Binni í hljómsveitinni Junior. Á þeim tíma voru unglingaböll síðdegis á laugardögum og sunnudögum í Ingólfskaffi og á kvöldin í Skátaheimilinu. Þar lék hljómsveitin Junior fyrir dansi við miklar vinsældir.

Blóm og ávextir voru annað heimili Binna á uppvaxtarárunum þar sem hann vann með afa sínum. Um tvítugt tók áfengið meira og minna stjórn á lífi Binna næstu tólf árin. „Það sem hélt lífinu í mér á þessum tímum var Jóhannes Bergsveinsson geðlæknir og Kleppsspítali, því þá var engin áfengismeðferð í boði. Um haustið árið 1975 var vinur minn og drykkjufélagi, Hilmar heitinn Helgason, nýkominn frá Freeport-sjúkrahúsinu á Long Island. Hann fór með mig þangað. Stuttu á eftir kom Hilmar með frænda minn, konung rónanna, Lilla Berndsen. Eftir heimkomuna vorum við félagarnir í því að ferja fólk á Freeport og sumir þeirra voru með fleiri flugtíma en flugfreyjur. Eftir því sem fjölgaði í hópnum var Freeport-klúbburinn stofnaður og síðan SÁÁ.“

Binni var varaformaður SÁÁ í fyrstu framkvæmdastjórninni og síðar formaður. Binni og Lilli stofnuðu Líknarfélagið Skjöld sem var áfangaheimili. Eftir stuttan tíma voru flestir Hafnarstrætisrónarnir, vinir Lilla, komnir þangað. Lilli rak heimilið til dauðadags. Binni og nokkrir félagar stofnuðu síðan meðferðarheimilið Von, sem starfrækt var á Bárugötu. Þar komu í meðferð sjúklingar frá Norðurlöndum, flestir frá Færeyjum. „Ég fór ótal ferðir til Færeyja að sækja fyllibyttur. Þá fengum við félagarnir verstu hugmynd í heimi, en það var að opna meðferðarstöð í Danmörku. Það fór í vaskinn enda erfitt að frelsa Danina.“

Árið 1989 stofnaði Binni með Ástu konu sinni Blómaverkstæði Binna þar sem lagður var mikill metnaður í blómaskreytingar. „Í kringum aðventuna voru gluggarnir skreyttir með aðventukrönsum og jólaskreytingum í mismunandi litum milli ára, sem dró að fjölda manns.“

Binni hefur alltaf verið gallharður KR-ingur og West Ham er liðið hans í enska boltanum. „Ástæðan fyrir dálæti mínu á West Ham er að besti vinur minn, Björgólfur Guðmundsson, átti félagið einu sinni. Eitt kvöldið kom æskuvinur minn, Jói heitinn í Bónus, og spurði hvort ég vildi koma út að leika. Við fórum á Nesvöllinn, slógum golfkúlur og eftir það sleppti ég ekki kylfunni. Golfið er enn í dag mitt líf og yndi og eitt árið fór ég tvisvar holu í höggi.

Ég hefði aldrei náð þessum 80 árum nema vegna þess að 17. september nk. eru 49 ár síðan ég drakk síðast áfengi. Ég þakka fjölskyldunni, AA-samtökunum og guði fyrir það.“

Fjölskylda

Eiginkona Binna er Ásta Kristín Kristjánsdóttir sjúkraliði, f. 2.3. 1945. Þau bjuggu í 35 ár á Túngötunni í miðbæ Reykjavíkur en búa nú á Grandavegi í Vesturbænum. Foreldrar Ástu voru þau Jón Kristján Þorgrímsson, bifreiðarstjóri og seinna forstjóri Austurbæjarbíós, frá Laugarnesi, f. 13.9. 1899, d. 19.9. 1952, og Árnbjörg Eberta Concordía Árnadóttir, f. 10.7. 1906, d. 21.11. 1998, sem ólst upp í Reykjavík og í Viðey. Þau giftust á jóladag 1923.

Börn Binna og Ástu eru 1) Birna Björg framkvæmdastýra, búsett í Auðkúlu við Hellu, f. 11.53. 1963. Birna á Arndísi Björgu, Brynjólf og Ástráð með Stefáni Benediktssyni, fyrrv. þjóðgarðsverði og alþingismanni. Þau skildu. Núverandi eiginmaður hennar er Páll Benediktsson fyrrv. fréttamaður; 2) Fritz Hendrik skurðlæknir, búsettur í Reykjavík, f. 24.5. 1965. Eiginkona hans er Jóhanna Dagbjört Magnúsdóttir kennari. Börn þeirra eru Marta Rós, Katla Marín og Fritz Hendrik; 3) Harpa Hrund, mannauðssérfræðingur, búsett í Reykjavík, f. 21.3. 1981. Sambýlismaður hennar er Hörður Valgarðsson kerfisstjóri. Barnabarnabörnin eru fimm talsins.

Sammæðra systkin Binna eru Kristinn Páll Ingvarsson, f. 28.2. 1949, Elísabet Ingvarsdóttir, f. 23.2. 1951, Þórir Ingvarsson, f. 7.11. 1959 og Steinunn Björg Ingvarsdóttir, f. 22.1. 1964. Samfeðra systkin Binna eru Halldór Olgeirsson, f. 14.6. 1949, Guðrún Olgeirsdóttir, f. 28.2. 1953, Þórunn Elsa Olgeirsdóttir, f. 19.5. 1955 og Smári Olgeirsson, f. 1.8. 1959.

Foreldrar Binna voru Steinunn Herdís Berndsen, húsmóðir í Reykjavík, f. 20.11. 1925, d. 5.1. 2002, og Olgeir Sigurðsson, leigubílstjóri í Reykjavík, f. 9.11. 1924, d. 29.7. 2008. Binni ólst upp hjá ömmu sinni og afa þeim Elísabetu Karólínu Berndsen, húsmóður, f. 26.5. 1891, d. 17.7. 1974, og Fritz Hendrik Berndsen, blómakaupmanni, f. 2.9. 1896, d. 8.8. 1966.