Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Þuríður Halldóra Aradóttir Braun, forstöðukona Markaðsstofu Reykjaness, segir að daglega leggi fjölmargir ferðamenn leið sína að nýju hraununum á Reykjanesi. Ef vel fari geti sá áhugi með tímanum skapað tækifæri fyrir Grindvíkinga og átt þátt í að endurræsa bæjarfélagið.
Þuríður segir Grindavíkurbæ, Ferðamálastofu og Markaðsstofu Reykjaness, ásamt Vegagerðinni og fleiri aðilum, hafa unnið að aðgengis- og öryggismálum á svæðinu og í því skyni komið upp áningarstað fyrir ferðamenn í Grenjadal sem sé norðan við þann stað þar sem hraunið rann yfir Grindavíkurveg við Sýlingarfell. Svæðið hafi verið opnað í síðari hluta júlí en með teljara sé hægt að áætla fjölda gesta á svæðinu sem nýtist við rýmingu svæðsins.
Allt að 1.600 manns á dag
Hún segir áætlað að 893 gestir hafi komið á áningarstaðinn milli fjögur og fimm síðdegis sl. miðvikudag. Þá hafi um 1.600 manns komið á svæðið sl. laugardag, samkvæmt teljaranum sem er milli bílastæðisins og göngusvæðisins. Með áningarstaðnum hafi verið brugðist við mikilli umferð ferðamanna sem koma að skoða svæðið.
„Við erum að fá fleiri ferðamenn en áður, náttúruunnendur og áhugafólk um jarðfræði, sem hafa sérstakan áhuga á að skoða eldgosasvæðið. Eftir að leiðin var opnuð í Bláa lónið í byrjun júlí voru töluvert margir ferðamenn að leggja bílum sínum við Grindavíkurveg til að geta skoðað nýja hraunið. Þannig að það var settur upp áningarstaður við Grindavíkurveg til að greiða fyrir umferð og settur upp teljari til að áætla fjölda gesta,“ segir Þuríður.
Markaðsstofa Reykjaness var sett á legg 2009. Þar eru nú þrír starfsmenn og veitir Þuríður Halldóra stofunni forstöðu sem áður segir. Hún segir stofuna markaðs- og þróunaraðila fyrir Reykjanesið og ferðaþjónustuna á svæðinu og að markaðs- og kynningarstarfið miði að því að gera Reykjanes að ákjósanlegum ferðamannastað.
Hófst 19. mars 2021
Yfirstandandi eldgosahrina hófst í Geldingadölum 19. mars 2021. Mikill áhugi var á eldgosunum til að byrja með og hófu landeigendur gjaldtöku á bílastæðum sem komið var upp við upphaf gönguleiðanna. Við tóku eldgos við Meradali og Litla-Hrút, norður af Meradölum, sem viðhéldu áhuga á jarðeldunum. Með hamförunum við Grindavík í fyrrahaust urðu hins vegar kaflaskil og þótti þá ekki lengur við hæfi að ræða um tekjumöguleika ferðaþjónustunnar vegna jarðhræringanna.
Þuríður segir þessa atburði hafa breytt hegðun ferðamanna á Reykjanesi.
„Fyrir eldgosin vorum við að reyna að ná athygli ferðamanna og fá þá til að dvelja á svæðinu í staðinn fyrir að keyra í gegn á leið sinni frá Keflavíkurflugvelli. Eldgosin vöktu þennan áhuga og vildi fólk þá koma á Reykjanesið og skoða meira. Þannig að okkar kynning á svæðinu breyttist mikið. Hún fór úr því að hvetja fólk til að koma á Reykjanesið yfir í að aðstoða fólk við að ferðast um svæðið. Við höfum leiðbeint því hvernig það getur farið um og skoðað eldgosin, ef svo ber undir,“ segir Þuríður.
Hin hliðin á málinu
Mikið hefur verið rætt um neikvæð áhrif hörmunganna í Grindavík á íslenska ferðaþjónustu og fjölda erlendra ferðamanna á Íslandi. Þuríður segir að vissulega hafi margir áhyggjur af stöðunni en því megi ekki gleyma að margir hafi áhuga á að skoða nýju hraunin.
„Ég er ekki viss um að fólk átti sig á því hversu margir eru enn að koma til að skoða hraunið og svæðið. Frá upphafi eldgosanna í mars 2021 og til síðustu áramóta voru til dæmis skráðar um tvær milljónir heimsókna á vef okkar, visitreykjanes.is. Áhuginn er mikill en það koma frá 1.500 og upp undir 20.000 manns á dag inn á síðuna hjá okkur. Samkvæmt samantekt Digital er vefur okkar orðinn fjölsóttasti landshlutavefurinn,“ segir Þuríður.
Markaðsstofa Reykjaness hafi komið skilaboðum frá almannavörnum og lögreglustjóra til ferðamanna og ferðaþjónustunnar, þar með talið varðandi lokanir.
Vilja stuðla að öryggi
Hvað ef það verða ekki fleiri eldgos í bráð og lífið færist í fyrra horf? Hefur þessi áhugi á nýju hraununum og gígunum skapað varanlegan áhuga á þessu svæði á Reykjanesi?
„Eins og staðan er í dag erum við ekki að markaðssetja svæðið nema með þeim hætti að aðstoða fólk við að ferðast um það, upplýsa hvar sé æskilegt að fara, hvað sé opið og hvernig hægt sé að upplifa eldgosasvæðin með öruggum hætti.
Horft til framtíðar verður ferðaþjónustan að öllum líkindum lykilþáttur í að endurvekja Grindavík en við gerum það ekki frá núllpunkti þegar það hættir að gjósa, heldur þurfum við að vinna sameiginlega að þessum verkefnum og undirbúningi fram að lokum þessara umbrotatíma sem eru í gangi.“
Telurðu að Grindavík verði endurreist?
„Það eru skiptar skoðanir á því en ég hef fulla trú á að Grindavík komi til baka og verði jafnvel sterkari. Það á eftir að taka tíma en miðað við kraftinn í fólkinu okkar og samfélaginu þá á þetta eftir að koma til baka,“ segir Þuríður að lokum.