Björn Leví Gunnarsson
Björn Leví Gunnarsson
Það eru til margar tegundir af slúðri og þegar maður les slúður skiptir máli að átta sig á því hvers konar slúður er um að ræða. Er slúðrið byggt á vangaveltum einhvers út frá eigin sjónarhorni eða eru einhverjar heimildir sem liggja þar á bak við?…

Það eru til margar tegundir af slúðri og þegar maður les slúður skiptir máli að átta sig á því hvers konar slúður er um að ræða. Er slúðrið byggt á vangaveltum einhvers út frá eigin sjónarhorni eða eru einhverjar heimildir sem liggja þar á bak við? Eru heimildirnar munnlegar eða skriflegar? Hversu áreiðanlegar eru heimildirnar? Heimildir geta bara verið vangaveltur einhvers annars sem eru ekki byggðar á neinu nema persónulegum skoðunum viðkomandi.

Það skiptir máli að átta sig á eðli slúðursins, hvort markmið þess sé að reyna að upplýsa fólk um hver staðan sé eða villa um fyrir því. Það er hægt að búa til alls konar ósannar sögur um fólk sem hefur alvöruáhrif á pólitíkina. Í raun má segja að kosningaloforð geti verið svona slúður því að það virðist alltaf gerast að einhver kosningaloforð fuðri bara upp eftir kosningar, verði einhvern veginn að pólitískum ómöguleika eða eitthvað svoleiðis. Loforðið um kosningar um áframhaldandi viðræður við ESB eru skýrt dæmi. Báðir flokkarnir sem enduðu í ríkisstjórn árið 2016 höfðu gefið slík loforð en hvorugur flokkanna stóð við það – enda fylgdi það ekki sögunni að þau kosningaloforð ættu bara við ef flokkarnir enduðu í ríkisstjórn með einhverjum öðrum flokkum.

Nýlega fjölluðu þingflokksformenn ríkisstjórnarflokkanna um áframhaldandi samstarf eftir næstu kosningar í fjölmiðlum. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sagði að áframhaldandi samstarf væri útilokað eftir næstu kosningar á meðan þingflokksformenn VG og Framsóknar útilokuðu ekkert. Bæði segjast ganga óbundin til næstu kosninga – sem þau vita ekki hvort verði vorið eða haustið 2025. Þetta er áhugavert af því að forysta Sjálfstæðisflokksins hefur gagnrýnt svokallaða „útilokunarpólitík“ en á sama tíma útilokað samstarf við ákveðna flokka. Hversu mikið er þá að marka þetta?

Orðið á götunni er að hinn og þessi ríkisstjórnarflokkur ætli að sprengja ríkisstjórnarsamstarfið í haust. Það er ekkert nýr orðrómur, en hingað til hefur það frekar verið þannig að ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að ögra hver öðrum til að slíta samstarfinu frekar en ganga sjálfir í verkið. Líklega vegna hræðslu um að þurrkast út í næstu kosningum fyrir að vera óstjórntækir eins og Björt framtíð lenti eftirminnilega í árið 2017 eftir ríkisstjórnarslit.

En nú er síðasta þing kjörtímabilsins að hefjast og það á eftir að vera formannsslagur hjá VG í haust og líklega formannsslagur hjá Sjálfstæðisflokknum sömuleiðis. Nýir formenn erfa þá ríkisstjórnarsamstarf sem þeir kæra sig líklega ekki um. Stóra spurningin verður þá hvernig þau ætla að klára kjörtímabilið því það mun hafa áhrif á nýja formenn í næstu kosningum hvort þau ganga bundin þessari ríkisstjórn til kosninga eða ekki.

Höfundur er þingmaður Pírata. bjornlevi@althingi.is

Höf.: Björn Leví Gunnarsson