Körfuknattleikskonan Daniela Wallen leikur ekki áfram með Keflavík á næstu leiktíð, en hún hefur verið einn besti leikmaður kvennaliðs félagsins undanfarin fimm tímabil. Keflavík kvaddi leikmanninn á Facebook í gær og þakkaði henni innilega fyrir vel unnin störf, innan sem utan vallar, undanfarin ár. Á fimm tímabilum skoraði hún 21,2 stig, tók 13,3 fráköst og gaf 4,7 stoðsendingar að meðaltali í leik. Átti hún sinn þátt í að Keflavík vann þrefalt á síðustu leiktíð og varð deildar-, bikar- og Íslandsmeistari.
Kylian Mbappé var á skotskónum fyrir Real Madrid þegar liðið hafði betur gegn Atalanta í Meistarabikar Evrópu í Varsjá í Póllandi á miðvikudagskvöldið síðasta. Þetta var fyrsta mark Mbappés fyrir Real Madrid síðan hann gekk til liðs við félagið frá París SG fyrr í sumar en Federico Valverde var einnig á skotskónum fyrir spænska liðið. Í Meistarabikar Evrópu mætast sigurvegararnir í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni.
Agla María Albertsdóttir, lykilkona knattspyrnuliðs Breiðabliks, hefur skrifað undir nýjan samning við Kópavogsfélagið til ársins 2025. Alls á hún að baki 151 leik í efstu deild með Breiðabliki, Val og Stjörnunni. Þá á hún að baki 58 A-landsleiki en hún hefur leikið níu leiki í Bestu deildinni í sumar og skorað í þeim sjö mörk.
Portúgalski knattspyrnumaðurinn Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, hefur skrifað undir nýjan langtímasamning við félagið. Gildir samningurinn til næstu þriggja ára, til sumarsins 2027. Fernandes er 29 ára gamall og hefur leikið með Man. United frá því í janúar árið 2020. Alls á hann að baki 234 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 79 mörk og lagt upp önnur 67.
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik fer upp um eitt sæti á nýjum styrkleikalista FIBA sem var gefinn út í vikunni og er nú í 48. sæti. Ísland stendur í stað á styrkleikalista Evrópuþjóða þar sem liðið er í 24. sæti. Ólympíumeistarar Bandaríkjanna eru sem fyrr í efsta sæti heimslistans á meðan Serbía, sem vann til bronsverðlauna, fer upp í annað sæti.