Sambandsdeild
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík eru einu einvígi frá því að komast í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta eftir sterkan útisigur á Flora Tallinn frá Eistlandi í eistnesku höfuðborginni í gær, 2:1.
Liðin skildu jöfn, 1:1, í fyrri leiknum og fara Víkingar því áfram með samanlögðum 3:2-sigri eftir tvo leiki.
Fórnaði sér fyrir málstaðinn
Aron Elís Þrándarson gerði fyrra mark Víkings á 6. mínútu með skalla af stuttu færi. Fórnaði hann sér fyrir málstaðinn því uppaldi Víkingurinn fékk þungt höfuðhögg í þann mund sem hann skoraði. Hann fékk annað höfuðhögg um 20 mínútum síðar og þurfti þá að fara af velli.
Það kom ekki að sök fyrir Víkinga því Nikolaj Hansen gerði annað markið á 36. mínútu með skoti af stuttu færi. Valdimar Þór Ingimundarson, sem hefur spilað mjög vel að undanförnu, lagði upp bæði mörkin.
Heimamenn minnkuðu muninn á 52. mínútu er Markus Soomets skoraði með föstu skoti utan teigs og átti Konstantin Vassijev skalla í stöng skömmu síðar. Eftir það vörðust Víkingar vel, eistneska liðið skapaði sér fá færi og Íslandsmeistararnir sigldu verðskulduðum sigri í höfn.
Víkingar sterkari á útivelli
Annað einvígið í röð komust Víkingar áfram með góðum útisigri því þeir unnu Egnatia frá Albaníu, 2:0, á útivelli í síðustu umferð eftir tap á heimavelli, 1:0. Það er gríðarlega sterkt að fara á tvo útivelli í röð í Evrópukeppni og sækja sigur, eftir vonbrigðaúrslit á heimavelli.
Með sigrinum tryggði Víkingur sér sæti í umspili um að komast í riðlakeppnina, þar sem andstæðingurinn verður UE Santa Coloma frá Andorra. Andorrska liðið féll úr leik í Evrópudeildinni með samanlögðu 9:0-tapi fyrir RFS frá Lettlandi og ættu möguleikar Víkings að vera góðir.
UE Santa Coloma hefur leikið ellefu einvígi í Evrópukeppnum og aðeins einu sinni komist áfram, en það var gegn Ballkani frá Kósóvó í 1. umferð Meistaradeildarinnar í ár.
Vilja feta í fótspor Blika
Ef Víkingar nálgast verkefnið gegn andorrska liðinu af fagmennsku og eru nálægt sínu besta ættu þeir að fara áfram í riðlakeppnina. Það fylgir því pressa að eiga að vera sterkari aðilinn, en Víkingar hafa ráðið vel við þá pressu undanfarin ár.
Víkingur freistar þess að verða annað karlaliðið á tveimur árum til að fara í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar en Breiðabliki tókst það fyrstu íslenskra liða á síðustu leiktíð.
Eina sem hefur vantað í glæsilegri stjóratíð Arnars Gunnlaugssonar hjá Víkingum er góður árangur í Evrópukeppni. Nú er liðið í sannkölluðu dauðafæri til að komast alla leið í riðlakeppni, sem yrði gott fyrir íslenskan fótbolta, sem og ferilskrá Arnars.