Kristjana Karlsdóttir fæddist í Hvammi á Barðaströnd 9. október 1943. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 30. júlí 2024.
Foreldrar hennar voru hjónin Hákonía Jóhanna Gísladóttir, f. 14. nóvember 1915, d. 18. október 2009, og Karl Sveinsson, f. 29. ágúst 1899, d. 15. janúar 1997. Kristjana var þriðja í röð fjögurra barna þeirra hjóna. Systkinin eru Þuríður Matthildur, f. 17. september 1936, d. 15. október 1990, Gísli Salómon, f. 19. júlí 1940, og Sveinn, f. 4. október 1946.
Hún ólst upp í Hvammi og flutti síðan til Reykjavíkur árið 1971. Hún giftist Birni M. Pálssyni, f. 8. apríl 1939, þann 20. nóvember 1971. Þau hófu búskap í Leirubakka 10 og bjuggu þar til ársins 1987. Þá fluttu þau í Funafold 51 í Grafarvogi í einbýlishús sem þau byggðu sér í sameiningu. Árið 2005 fluttu þau búferlum í Grænlandsleið 51 og bjuggu þar síðan.
Börn Kristjönu eru: 1) Karl Hákon Karlsson, f. 19. desember 1962, faðir Karl Kristjánsson, f. 14. júlí 1939. Maki Hafdís Lilja Gunnarsdóttir, f. 11. apríl 1965, börn Karls og Hafdísar eru a) Sveinn Óskar, f. 15. mars 1991, maki Birna Rut Ragnarsdóttir, f. 21. mars 1991, þeirra sonur er Ólíver Breki, f. 8. október 2019, b) Freyja Dís, f. 23. nóvember 1992, maki Heiðar Ingi Magnússon, f. 10. júní 1990, þeirra dóttir er Dalrós Sunna, f. 1. maí 2021, c) Kjartan Ingi, f. 31. janúar 2002, í sambúð með Maríu Bjarnadóttur, f. 19. júní 2002. 2) Ása Rún Björnsdóttir, f. 8. apríl 1973, maki Einar Hannesson, f. 14. janúar 1976, börn Ásu og Einars eru a) Hannes Björn, f. 5. júlí 2005, b) Kristján Rúnar, f. 28. ágúst 2008, c) Ari Gunnar, f. 31. mars 2011.
Kristjana ólst upp í Hvammi á Barðaströnd við öll almenn sveitastörf, en fljótlega eftir fermingu hóf hún störf við fiskvinnslu á Patreksfirði. Hún vann síðan á Mjólkurbarnum í Reykjavík veturna 1959-1960 en vann svo á sumrin í veitingasölunni í Flókalundi í Vatnsfirði. Eftir að hafa flutt búferlum til Reykjavíkur vann hún hjá Plastprenti á árunum frá 1971 og fram til 1973. Eftir fæðingu Ásu Rúnar var hún heimavinnandi í nokkur ár, en hóf árið 1979 störf á barnaheimili Landspítalans, Sólbakka, og vann þar til starfsloka árið 2008.
Björn og Kristjana voru virkir meðlimir í Breiðfirðingafélaginu og sungu meðal annars í kór félagsins í ríflega 20 ár.
Jarðarför Kristjönu fer fram í Grafarvogskirkju í dag, 16. ágúst 2024, klukkan 13.
Í dag fylgjum við elsku bestu mömmu síðasta spölinn en hún lést í faðmi sinna nánustu á hjartadeild Landspítalans í lok júlí eftir stutt en ákaflega erfið veikindi.
Mamma mín var í einu orði sagt frábær og ég get ekki lýst hversu mikið ég sakna hennar. Hún var dásamlega ljúf og góð en að sama skapi ákveðin og réttsýn. Mamma var alla tíð reynslubankinn minn, hjálparhella, bakhjarl og helsta stuðningsmanneskja. Mamma ól mig upp af hlýju og alúð en líka af ákveðinni festu. Hún var alla tíð algjör nagli sem gekk í öll verk og gaf sjálfri sér sjaldan afslátt. Hún brýndi líka fyrir okkur systkinunum að við ættum alltaf að standa okkur og gera okkar allra besta, og að við mættum alltaf í vinnu og skóla nema við værum hundveik.
Við mamma eyddum fyrstu árunum saman heima í Leirubakka þar sem ég fylgdi mömmu eftir við hvert fótspor. Mamma byrjaði að vinna á leikskólanum Sólbakka árið sem ég byrjaði í Breiðholtsskóla, þá smellti hún lykli um hálsinn á mér og treysti mér til að gera það sem væri ætlast til af mér. Mamma nefnilega treysti okkur systkinunum, veitti okkur frelsi en í því fólst líka að við tækjum ábyrgð og stæðum okkur.
Eftir að ég varð mamma leitaði ég svo óendanlega oft ráða hjá mömmu með nánast hvað sem var sem tengdist móðurhlutverkinu og mamma var alltaf boðin og búin að hjálpa. Það er oft sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn og þá er á hreinu að mamma var risastór hluti af þorpinu mínu. Hún stjanaði endalaust við strákana mína, skutlaði og passaði með bros á vör. Hún passaði að kexskúffan í Grænlandsleiðinni væri alltaf full, frysti kókómjólkur- og djúsísa og gaf þeim alltaf það sem þeim þótti allra best í kvöldmatinn. Hún myndaði sterk tengsl við strákana mína sem þeir munu alltaf búa að.
Ég svo óendanlega sorgmædd yfir því að geta ekki lengur hringt í mömmu og spjallað. Ég er líka svo óendanlega sorgmædd yfir að geta ekki lengur fengið hana í kaffi, heyrt hana spjalla við strákana mína, faðmað hana og kysst.
En að sama skapi er ég þakklát, þakklát fyrir árin sem við áttum saman, þakklát fyrir umhyggjuna, hlýjuna og stuðninginn, þakklát fyrir traustið, sjálfstæðið og agann og ekki síst svo þakklát fyrir hláturinn og húmorinn hennar. Ég er líka þakklát fyrir samveruna og ferðalögin okkar saman, þakklát fyrir alla aðstoðina sem hún veitti, sama hvort það var aðstoð við mig, við okkur hjónin, við drengina eða bara við hundinn.
Mamma skilur eftir sig stórt skarð í hjörtum okkar fjölskyldunnar og ég veit að ég mun hugsa til hennar á hverjum degi um ókomna tíð.
Ása Rún Björnsdóttir.
Elsku mamma, nú skilur leiðir hjá okkur um sinn eins og gerist hjá öllum. Lífið líður áfram á sinn hátt eins og á með sínum bugðum, flúðum og fossum, þótt ferðalagið sé orðið talsvert langt kemur kveðjustundin alltaf jafn mikið á óvart. Þú varst alltaf hraust, hugsaðir vel um heilsuna, þið pabbi fóruð hér um bil daglega í langa göngutúra, passaðir mataræðið og varst alltaf í toppformi. Það kom því á óvart í byrjun sumars þegar erfið veikindi stungu upp kollinum. Ég reiknaði með að við fengjum mörg ár í viðbót en það átti ekki að verða þannig. Ferðalagið hjá okkur var svipað öðrum ferðum, stundum tyrfið en eiginlega alltaf skemmtilegt. Þú varst nýorðin nítján ára þegar þú áttir mig, sem hefur væntanlega ekki verið auðvelt á þeim tíma. Þú tókst á við það með gleði eins og allt annað, studdir við soninn þegar þurfti og ýttir við honum þegar þurfti og þannig hefur það verið fram á þennan dag. Ekkert líf er án dauða og enginn dauði án lífs, því stjórnum við yfirleitt ekki, að þessu sögðu er það mikilvægast að lifa mikið og rækta gleðina þannig að við séum búin að lifa nóg þegar okkar dagur kemur. Þú lifðir vel, elskaðir fólkið þitt, varst stolt af börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum, gladdist með þeim yfir þeirra sigrum og afrekum stórum sem smáum, ferðaðist mikið, áttir góða að og áttir gott líf. Kveðjustundin er í senn stund sorgar og saknaðar en eins stund þakklætis þar sem við þökkum fyrir að hafa átt þig að og eins allar stundirnar sem við áttum saman. Þær hefðu gjarna mátt verða fleiri en því ráðum ekki. Elsku mamma, sakna þín mikið og takk fyrir allt. Elsku pabbi, hugur okkar allra er hjá þér á þessum erfiðu tímum.
Kveðja,
Karl Hákon Karlsson (Kalli).
Elsku Krissa, það voru erfið spor að þurfa að kveðja. Við vorum svo viss um að eiga mörg ár eftir til að deila með þér.
Það er stórt skarð sem þú skilur eftir í hjörtum okkar. Þú varst mikil og góð fyrirmynd fyrir okkur öll. Gerðir allt vel og af mikili samviskusemi. Ég elskaði að deila með þér stórum og smáum afrekum barnabarnanna þinna og langömmubarna. Afleggjararnir okkar voru sameiginlegt stolt okkar og ómetanlegt ríkidæmi.
Húmor þinn og geta til að geta hlegið að þér sjálfri var annað sem við áttum svo sannarlega sameiginlegt enda gátum við hlegið mjög innilega saman. Ég mun hafa þín orð til fyrirmyndar þegar ég spurði þig hvort ég væri með of mikið kossaflens og knús og þú svaraðir „aldrei of mikið“.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Takk elsku fallega tengdamamma, ég er full þakklætis að hafa átt þig að og notið hlýju þinnar.
Þín
Hafdís Lilja.
Elsku Krissa amma okkar er fallin frá og við sitjum eftir með söknuðinn og allar fallegu minningarnar. Það er sárt að hugsa til þess að þú fáir ekki að fylgja okkur barnabörnunum og barnabarnabörnunum eftir lengur þar sem þú studdir okkur ávallt í einu og öllu. Jólabingó og ball í Breiðfirðingabúð og skatan á Þorláksmessu (við reyndar fengum alltaf heimsins besta steikta fisk meðan fullorðna fólkið borðaði skötuna) eru sérstaklega minnisstæðar minningar úr æsku okkar. Stundirnar sem við áttum með þér eru okkur minnisstæðar og við munum segja barnabarnabörnunum frá Krissu ömmu sem stóð við bakið á okkur og stappaði í okkur stálinu.
Þú varst stórkostleg amma og langamma í alla staði og við verðum ævinlega þakklát fyrir þig og þau áhrif sem þú hafðir á okkur.
Þú varst okkur amma svo undur góð
og eftirlést okkur dýran sjóð,
með bænum og blessun þinni.
Í barnsins hjarta var sæði sáð,
er síðan blómgast af Drottins náð,
sá ávöxtur geymist inni.
Við allt viljum þakka amma mín,
indælu og blíðu faðmlög þín,
þú vafðir oss vina armi.
Hjá vanga þínum var frið að fá
þá féllu tárin af votri brá,
við brostum hjá þínum barmi.
Við kveðjum þig elsku amma mín,
í upphæðum blessuð sólin skín,
þar englar þér vaka yfir.
Með kærleika ert þú kvödd í dag,
því komið er undir sólarlag,
en minninga ljós þitt lifir.
Leiddu svo ömmu góði guð
í gleðinnar sælu lífsfögnuð,
við minningu munum geyma.
Sofðu svo amma sætt og rótt,
við segjum af hjarta góða nótt.
Það harma þig allir heima.
(Halldór Jónsson frá Gili)
Minning þín lifir í öllu fólkinu þínu og við vitum að þú fylgist með okkur og langömmubörnunum sem þú elskaðir svo.
Þín barnabörn,
Sveinn Óskar, Freyja Dís og Kjartan Ingi.
Elsku besta Krissa amma.
Þú varst bæði ljúf og góð og við fundum alltaf hvað þér þótti vænt um okkur. Þú tókst alltaf svo vel á móti okkur þegar við komum í heimsókn eða gistum hjá ykkur afa. Þú varst alltaf til í að keyra okkur þangað sem við þurftum að fara og tókst oft með smá dekurnesti í þessa bíltúra. Þú gerðir besta steikta fisk í heimi og það var alltaf gott að koma í heimsókn til ykkar afa. Þú varst líka ótrúlega dugleg að passa Leó þegar mamma og pabbi voru ekki heima og fórst með hann í langa göngutúra.
Takk fyrir allt elsku amma, við söknum þín óskaplega mikið.
Hannes Björn, Kristján Rúnar og Ari Gunnar.