Nokkur hækkun varð á gengi margra félaga í Kauphöllinni í gær og fyrradag. Eins og fram kemur hér til hliðar hækkaði gengi Alvotech um 6,3% í gær, en það var mesta hækkunin í gær. Þá hækkaði gengi bréfa í Síldarvinnslunni um 5,7% í um 180 milljóna…

Nokkur hækkun varð á gengi margra félaga í Kauphöllinni í gær og fyrradag. Eins og fram kemur hér til hliðar hækkaði gengi Alvotech um 6,3% í gær, en það var mesta hækkunin í gær. Þá hækkaði gengi bréfa í Síldarvinnslunni um 5,7% í um 180 milljóna króna viðskiptum – sem færir næstum því til baka lækkun félagsins á árinu.

Þá hækkaði gengi bréfa í Skel um 4,6%, en félagið birti uppgjör eftir lokun markaða í gær þar sem fram kom að félagið tapaði 314 m.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 2,1 ma.kr. hagnað á sama tímabili í fyrra.

Gengi bréfa í Amaroq hækkaði um 3,9% og hefur þá hækkað um 6,5% í vikunni, en þó lækkað um rúm 11% frá áramótum. Loks hækkaði gengi bréfa í Hampiðjunni um 3,3%. Aðeins fjögur félög lækkuðu í gær, en mest lækkaði gengi bréfa í Play eða um 2,1%.