Baksvið
Guðm. Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lýsti því yfir í vikunni að útbreiðsla MPX-veirusýkingar, sem áður var nefnd apabóla, sé bráð ógn við lýðheilsu þjóða heims. Þetta er í annað skipti sem WHO gefur út slíka yfirlýsingu vegna MPX-veiru en það gerðist áður árið 2022. Áður hafði sóttvarnastofnun Afríku lýst yfir neyðarástandi í álfunni vegna útbreiðslu sjúkdómsins en nýtt afbrigði veirunnar virðist vera meira smitandi en önnur afbrigði.
Tvær undirtegundir eru af veirunni, flokkur 1 og flokkur 2. Fyrrnefndi flokkurinn getur verið banvænn og hefur verið landlægur í Kongó áratugum saman. Hinn flokkurinn, sem veldur ekki eins alvarlegum veikindum, hefur áður valdið faröldrum í hluta Vestur-Afríku. Faraldurinn nú er af völdum veiruflokks 1, einkum stökkbreytts afbrigðis, sem nefnt er 1b og greindist fyrst í september á síðasta ári í afskekktum námubæ í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.
Ekki er vitað til að veiran hangi í loftinu og smitist þannig með úðasmiti og þetta veiruafbrigði virðist einkum smitast við kynmök eða annað náið samneyti en þó eru dæmi eru um að veiran hafi borist milli manna með öðrum hætti, þar á meðal barna sem léku sér saman á skólalóð.
Svíar tilkynntu í gær að smit hefði greinst þar í landi af völdum flokks 1b, það fyrsta utan Afríku. Um er að ræða sjúkling sem kom á sjúkrahús í Stokkhólmi eftir að hafa nýlega verið á því svæði í Afríku þar sem veiran hefur breiðst út. Sænska landlæknisembættið tók fram í tilkynningu, að þótt smit hafi greinst þar í landi þýði það ekki að almenningur sé í hættu og sóttvarnastofnun Evrópu telji á þessari stundu að slík hætta sé mjög lítil.
Greindist fyrst 1970
MPX-veirusýking greindist fyrst í mönnum í Kongó árið 1970. Lengi vel hófust faraldrar af völdum MPX-veiru eftir að fólk smitaðist af dýrum, svo sem nagdýrum. Sjúkdómseinkennin eru hiti, vöðvaverkir og útbrot. Í maí 2022 braust út faraldur af völdum veiruflokks 2b og í júlí það ár til maí á síðasta ári lýsti WHO yfir viðbúnaðarástandi en sá faraldur er að mestu liðinn hjá. Um 90 þúsund sjúkdómstilfelli greindust á þessum tíma í 116 löndum, þar á meðal hér á landi, og 114 dauðsföll voru rakin til hans. Sjúkdómurinn smitaðist þá einkum milli samkynhneigðra og tvíkynhneigðra karlmanna.
Sýking af völdum flokks 1- og 1b-veirunnar veldur alvarlegri veikindum en þeim sem orsakast af flokki 2. Samuel-Roger Kamba, heilbrigðisráðherra Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó, sagði í tilkynningu í gær að 15.664 tilfelli og 548 dauðsföll hefðu verið skráð það sem af er árinu í öllum héröðum landsins. Alls eru 26 héröð í landinu og íbúar eru alls um 100 milljónir talsins.
Fólk hefur einnig veikst í Búrúndí, Kenía, Rúanda og Úganda á síðustu vikum. Engin dauðsföll hafa enn verið skráð í þessum löndum, að sögn WHO.
Til eru bóluefni gegn MPX-veirunni, sem dreift var til vesturlanda árið 2022 og leiddu til þess að fljótlega tókst að ná tökum á faraldrinum þá. En slík bóluefni hafa verið torfengnari í Afríkuríkjum þar sem þeirra er þó mest þörf.
Danska lyfjafyrirtækið Bavarian Nordic sagði í gær að það gæri framleitt allt að 10 milljónir skammta af bóluefni á næsta ári. Gengi bréfa fyrirtækisins hækkaði um 8% á markaði í gær.
MPX veirufaraldur
Ekki von á mikilli útbreiðslu
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir að fólk eigi almennt ekki á hættu að smitast af MPX-veiru og hún eigi ekki von á útbreiddum faraldri þótt ástæða sé til að skerpa á árvekni. Ákveðnar aðstæður þurfi að vera til staðar og fólk sem stundi tiltekna hegðun og sé í ákveðnum áhættuhópum þurfi að gæta sín og breyta hegðun sinni. Árið 2022 hefði fólk í áhættuhópum breytt sinni hegðun og það hafi átt þátt í því að draga úr smitum auk bólusetningar. Guðrún segir að ekki sé áformaðar fjöldabólusetningar gegn MPX-veirusýkingu hér á landi en bóluefni sé til. Hvetur hún fólk, sem telji sig eiga á hættu að smitast, að fá bólusetningu.