Vinna er nú í fullum gangi við nýbyggingu Vestfjarðavegar á Dynjandisheiði eins og sjá má á myndinni sem fréttaritari blaðsins tók.
Framkvæmdin nær frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og liggur um hæstu hluta Dynjandisheiðar og norður fyrir sýslumörk samkvæmt Vegagerðinni. Um er að ræða 12,6 kílómetra kafla en Suðurverk er með verkið.
Verkið er hluti af stærri framkvæmd. Í fyrsta áfanga voru tvö verkefni, annars vegar nýr kafli um Dynjandisvog sem var opnaður í október 2021 og hins vegar nýr kafli um Pennusneiðing, Bíldudalsgatnamót og að Norðdalsá sem kláraður var sumarið 2022. ÍAV voru með þann áfanga verksins á sinni könnu.
Vegurinn er að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði. Inni í verkinu er einnig gerð námuvegar að námu í Trölladal og gerð tveggja áningarstaða, segir einnig á vef Vegagerðarinnar.