Sveinn Valfells
sveinnv@mbl.is
Bæði Greining Íslandsbanka og Hagsjá Landsbankans spá því að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% þegar ákvörðun peningastefnunefndar bankans verður tilkynnt á miðvikudag í næstu viku.
Hvor bankinn um sig sendi í gær frá sér bæði verðbólguspá sem og spá um óbreytta stýrivexti. Sem kunnugt er jókst verðbóga lítillega í júlí og mældist um 6,3%, en hún var um 6,7% í upphafi árs. Landsbankinn spáir því að verðbólga hjaðni lítillega nú í ágúst en Íslandsbanki telur að hún muni standa í stað.
Hagkerfið í kólnunarfasa
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir í samtali við Morgunblaðið að ólíklegt sé að gripið verði til vaxtalækkana nú í ljósi nýjustu mælinga og þar að auki sé ólíklegt að peningastefnunefnd víki frá áherslum sínum síðan í vor.
„Miðað við það sem peningastefnunefnd sagði í maí má segja að nefndin hafi skorðað sig af með það að geta farið í vaxtalækkunarferli fyrr en verðbólga og verðbólguvæntingarnar breytast til batnaðar. Helstu rök nefndarinnar þá voru að spenna virtist vera umfram það sem áður var talið auk þess sem útlit var fyrir að verðbólga myndi hjaðna hægar en búist var við. Út frá þeim rökum er erfitt að sjá það að nefndin snúi við blaðinu og lækki vexti núna,“ segir Jón Bjarki spurður nánar um þetta.
Hann bætir við að verðbólguálag á mörkuðum hafi sveiflast nokkuð mikið, skánað á einhverja mælikvarða en versnað á aðra.
„Það er auðvitað áhyggjuefni að álagið skuli vera jafnhátt og raun ber vitni en erfitt að para það við langtímavæntingar um hóflega verðbólgu,“ segir Jón Bjarki en verðbólguálag á skuldabréfamarkaði er nú ríflega 4% hvort sem horft er til fimm eða tíu ára.
„Þó eru óneitanlega sterk rök fyrir því að grípa eigi fljótlega til vaxtalækkana. Má þar helst nefna að víða eru vísbendingar um hagkerfið sé nú í kólnunarfasa, en leiðandi hagvísar og væntingakannanir benda til minni eftirspurnarvaxtar. Einnig eru blikur á lofti meðal fjölda ráðninga hjá fyrirtækjum en auk fleiri þátta bendir margt til þess að hagkerfið geti haldið áfram að kólna fram að áramótum,“ bætir Jón Bjarki við.
Minni verðbólga í haust?
Fari svo að stýrivextir haldist óbreyttir í næstu viku hafa þeir verið óbreyttir í eitt ár, eða frá því í ágúst í fyrra. Verðbólga hefur hjaðnað frá áramótum og undirliggjandi verðbólga minnkað, en bæði Íslandsbanki og Landsbanki spá því að þrátt fyrir spár þeirra um nær enga lækkun á tólf mánaða verðbólgu nú í ágúst muni hún hjaðna mjög með haustinu og verði komin í um 5,5% í nóvember nk.
Verðbólguvæntingar hafa þó nokkuð um þetta að segja, en þær eru sem fyrr segir háar. Þannig gerir skuldabréfamarkaðurinn ráð fyrir hárri verðbólgu áfram, sem hefur það í för með sér að bæði atvinnurekendur og launþegar gera ráð fyrir hækkandi verðlagi, svo tekið sé dæmi. Það kann að torvelda ákvörðun peningastefnunefndar um að lækka vexti, sé það yfirhöfuð á dagskrá hjá nefndinni.