Birta var einungis nítján ára gömul þegar hún hélt vestur um haf en hún er uppalin í Mosfellsbænum og gekk í Varmárskóla sem nú heitir Kvíslarskóli.
Eftir grunnskólann fór Birta í Versló en samhliða náminu æfði hún sund af kappi. „Ég var á náttúrufræðibraut í Versló og elskaði það. Ég er búin að æfa sund frá því ég var sjö ára gömul og var alltaf með Aftureldingu en æfi nú með Breiðabliki. Ég hef mikinn áhuga á öllum útiíþróttum en sundið hefur alltaf verið mitt aðaláhugamál.“ Hún segist mest æfa bringusund og skriðsund en einnig hefur hún æft fjórsund sem er flugsund, baksund, bringusund og skriðsund. „Frá fimmta bekk var ég á morgunæfingum þrisvar í viku og kvöldæfingum alla daga og þegar ég var ekki á morgunsundæfingu var ég látin lyfta, svo ég æfði tvisvar á dag í mörg ár. Þetta var mjög krefjandi og margir sem hættu í kringum unglingsárin.“ Hún segist ekki vera alveg viss um hvað það var sem heillaði í sundinu nema að hún varð strax góð. „Ég er mjög mikil keppnismanneskja og þarna var ég fremst meðal jafningja, ég var eiginlega alltaf í úrslitum á Íslandsmeistaramótunum.“ Bætir hún við að þetta sé rosalega gaman.
Ákvað á fyrsta árinu í Versló að hún ætlaði í nám til Bandaríkjanna
Núna segist hún fyrst og fremst vera í sundinu til að geta stundað námið í Bandaríkjunum. „Ég ákvað að mig langaði að fara í nám til Bandaríkjanna á fyrsta árinu mínu í Versló því mig langaði að halda áfram að synda og ekki á Íslandi. Þessi skóli sem ég er í er í svokallaðri deild tvö sem þýðir að hann er íþróttamiðaður en það var erfitt að komast inn í hann. Ég sótti um nokkra skóla og það var töluverð vinna, sem foreldrar mínir hjálpuðu mér með. Allir skólarnir vildu ýtarlegar upplýsingar um mig og gerðu miklar kröfur bæði íþrótta- og námslega. Ég þurfti að fara í tvö stöðluð próf, SAT og TOEFL, það fyrrnefnda metur ensku, lesskilning og stærðfræði og hitt er enskupróf.“ Hún segist hafa tekið prófin í Versló og bætir við að þau hafi verið löng og nokkuð erfið.
Sigtaði út skóla sem voru ekki með kristilegar áherslur
„Ég vissi um nokkra aðila sem höfðu farið í nám í Bandaríkjunum og fengið styrki út á sundið. Þeir hjálpuðu mér að gera svokallaðan „profile“. Við sendum svo upplýsingarnar á hina og þessa þjálfara og ég fór á netfundi í nokkrum skólum. Ég fékk nokkur tilboð, meðal annars frá skóla í Kaliforníu og Suður-Karólínu-ríki en sá sem ég fór í er í Pennsylvaníu. Ég valdi hann af því að þeir buðu mér góðan styrk og líka af því að það er einfalt að fljúga þangað frá Íslandi. Ég flýg bara til New York og keyri svo í eina klukkustund.“ Birta segir að margir skólar í Bandaríkjunum séu með kristilegar áherslur sem hún vildi forðast.
Skólamaturinn í mötuneytinu kom skemmtilega á óvart
Háskólinn heitir Kutztown University og hann er í samnefndum bæ sem að Birtu sögn hverfist í kringum háskólann en þar búa um fjögur þúsund manns, í háskólanum sjálfum eru tæplega átta þúsund nemendur svo íbúatalan hækkar töluvert á veturna. „Námið tekur fjögur ár og fyrsta árið var ofboðslega skemmtilegt og lærdómsríkt, skólasamfélagið þarna er mjög öflugt og það eru töluverð þýsk áhrif í háskólanum eins og nafnið gefur til kynna. Ég bjó í herbergi á stúdentagörðunum síðasta vetur og var í mat í mötuneytinu en það var miklu betra en ég var búin að gera mér í hugarlund enda þarf góðan mat því allir æfa svo mikið. Næsta ár mun ég svo búa í íbúð með nokkrum öðrum stelpum og þá verð ég með eldunaraðstöðu. Mér finnst æðislegt að vera svona nálægt New York, við vinkonurnar skreppum oft þangað í dagsferðir.“ Birta segir að skólinn sé töluvert erfiður námslega en hann sé líka virtur.
Er að spá í að skipta yfir í efnaverkfræði
En hvers vegna valdi Birta að fara í lífefnafræði?
„Ég hef alltaf verið sterk í raungreinum svo ég var alveg viss um að ég vildi fara í eitthvað slíkt. Þegar ég var að skoða námsframboðið í skólanum ákvað ég að prófa þetta af því að ég vissi að ég hefði möguleika á að skipta um fag eftir fyrsta árið þar sem námið er öðruvísi byggt upp en hér heima. College, eða háskólar í Bandaríkjunum, eru fjögur ár og fyrsta árið er í raun undirbúningur fyrir hin þrjú sem koma á eftir. Ég vildi sjá hvernig þetta gengi og nú er ég að spá í að skipta yfir í efnaverkfræði þar sem mér finnst efnafræði skemmtilegri en líffræðin,“ útskýrir hún og bætir við að það sé virkilega vel haldið utan um hana í skólanum og auðvelt sé að fá viðtöl við námsráðgjafa. „Skólasamfélagið er mjög gott þarna og ég get alltaf leitað bæði til námsráðgjafa og einnig hef ég greiðan aðgang að aukatímum og sérkennslu.“
Var með hausverk fyrstu dagana
Það kemur skemmtilegt bros á andlitið á Birtu þegar hún er spurð hvernig sé að búa ein og vera í námi í Bandaríkjunum einungis 19 ára?
„Skólinn er bara stórt samfélag sem heldur vel utan um mann. Dagskráin er þétt þar sem ég æfi bæði sundið og stunda bóklega námið. Dagurinn hefst á morgunmatnum í mötuneytinu með vinkonunum. Ég fer á sundæfingar þrjá morgna í viku og svo eru bóklegir tímar fram að hádegi og stundum eru verklegir tilraunatímar eftir hádegi og svo aftur sundæfingar. Mér fannst svolítið erfitt í byrjun að vera að læra svona flókna hluti á ensku, ég hafði aldrei verið eitthvað mjög sterk í ensku. Þannig að ég var að læra alls konar nýja hluti og þurfti svo líka að þýða allt um leið. Ég var alveg með töluverðan hausverk fyrstu dagana í skólanum.“
Auðveldara að fá hjálp í amerískum skólum en íslenskum
Birta segir að það sé ákveðinn munur á íslenskum skólum og amerískum.
„Ég hef aldrei verið í íslenskum háskóla en ef ég ber saman Versló og Kutztown-háskóla þá finn ég mest fyrir því að það er mjög vel passað strax upp á að maður dragist ekki aftur úr. Kennararnir láta sig námið manns virkilega varða. Ef þeir sjá að það er eitthvað sem maður skilur ekki eða lendir í vandræðum með þá bregðast þeir strax við og bjóða manni aukatíma sem boðið er upp í skólanum. Í raun er það sem ég er að reyna að segja að það er svo létt að fá hjálpina í Kutztown-háskóla, í Versló var meiri keyrsla á efninu, svolítið kapphlaup að komast yfir mikið efni.“
Hún bætir við að skólinn sé með sérstakan stuðning við nemendur sem eru ekki með ensku sem móðurmál.
„Skólinn gerir sömu kröfur til alþjóðlegu nemana en við fáum góðan stuðning og getum fengið hjálp við enskuna, það eru til dæmis sérstakir ritunartímar þar sem ég lærði að skrifa ritgerðir og svo hef ég alltaf aðgang að ritveri þar sem hægt er að láta lesa yfir textana sína.“
Nánast allt innifalið en foreldrarnir hjálpa líka
Þegar Birta er spurð um kostnaðarhliðina á náminu glottir hún og segir að foreldrar hennar styrki hana en það sé ódýrara að þeirra sögn að hafa hana úti. „Ég er á tvöföldum styrk, náms- og íþróttastyrk sem dekkar um 60% af námskostnaðinum og í styrknum er í raun mjög mikið. Allir tímarnir, æfingarnar, bækurnar og bæði húsnæði og fæði. Ég er ekki á námslánum en foreldrar mínir styrkja mig, ég held að árið hafi verið um ein milljón svo þau hafa sagt að það sé í raun ódýrara að hafa mig úti en að gefa mér að borða hér heima.“
Target eftir skóla og amerískur fótbolti um helgar
Hún segir eitt það skemmtilegasta við námið í Bandaríkjunum vera hversu mikið sé hægt að gera eftir skóla.
„Sundæfingarnar hér eru miklu fyrr að deginum heldur en heima, ég er á æfingum yfirleitt frá þrjú til fimm en heima var þetta oft frá fimm til sjö. Þannig að maður nær að gera svo margt skemmtilegt eftir að skóladagskránni lýkur. Ég bý náttúrulega með vinkonum mínum og við borðum saman, förum svo kannski í Target eða löbbum bara um bæinn eða niður að vatninu hérna enda veðrið mjög gott alveg fram í lok október. Um helgar förum við á ameríska fótboltaleiki þar sem eru klappstýrur og allt tilheyrandi og erum þá fulltrúar skólans. Það er svo mikil heild hérna og samfélagið svo gott.“
Bandarískir skólafélagar vissu ekki hvar Ísland var á kortinu
Birta segist hafa tekið eftir svolitlum mun á hugsunarhætti bandarískra ungmenna og íslenskra. „Það kom mér svolítið á óvart hvað krakkarnir hérna vita lítið um heiminn fyrir utan Bandaríkin. Ég bað þau til dæmis að benda á Ísland á korti en þau gátu það ekki. Sum þeirra eru líka svolítið viss um að þau vita allt best svo maður bara heldur sig til hlés stundum. Á þakkargjörðarhátíðinni bauð bandarísk vinkona mín mér að vera með fjölskyldu sinni og það kom mér á óvart hversu lítið þau vissu um umheiminn og Ísland, margir sem ég hef kynnst eru í raun svolítið í sinni eigin „bubblu“. Skóladagatalið er líka svolítið öðruvísi, námið hefst í enda ágúst svo er vikuvetrarfrí í kringum þakkargjörðarhátíðina og síðan er einn og hálfur mánuður í jólafrí og skólinn er búinn í byrjun maí.“
Þú verður að standa þig
Sund er flokkað sem vetraríþrótt svo Birta þarf að mæta fyrr í skólann eftir jólin til að stunda sundið. „Þessi skóli er miðaður út frá íþróttunum svo ég verð að mæta fyrr en margir aðrir eftir jólafríið til að æfa sundið þótt bóklega námið sé ekki byrjað. Sundþjálfarinn minn fylgist mjög vel með mér og hann skoðar líka hvernig mér gengur í bóklega náminu. Hann kemur til mín og spyr ef mér hefur ekki gengið vel á einhverju prófi, það er engin miskunn, þú verður að standa þig.“ Hún segir uppbyggingu námsins vera mjög jákvæða, heimavinnan sé hugsuð fyrir aukaverkefni sem geti hækkað einkunnirnar og hún segir að sundliðið vinni oft saman í
svokölluðum „study groups“. „Ef ég stend mig vel í náminu hef ég möguleika á að hækka námsstyrkinn minn svo það er til mikils að vinna.“
Setur markmiðið hátt og stefnir á að komast inn á D2-mótið
Birta hlakkar mjög til að fara út aftur í lok mánaðar. „Fyrst stefndi ég á að vera í Flórída-fylki og sá bara fyrir mér að prófa þetta í eitt ár en svo kynntist ég svo æðislegu fólki og mér finnst Pennsylvanía frábær. Það er svo mikið líf þarna, hvert íþróttalið er með sitt hús og liðin skiptast á að vera með viðburði eða partí,“ bætir hún við með glampa í augunum og augljóst að henni líður vel í þessu umhverfi. „Ég stefni á vera þarna næstu þrjú ár og verða betri í sundinu, ég komst inn á ríkismótið sem er alveg afrek og kannski kemst ég inn á D2-mótið sem er öll Bandaríkin. Það er mjög erfitt að komast inn á það en kannski hef ég það sem markmið og læt svo gott heita með sundið eftir þessi þrjú ár.“ Birta var heima í sumar að vinna fyrir Iceland Travel sem hún segir hafa verið skemmtilegt og lærdómsríkt en hún getur ekki beðið eftir að snúa aftur til Bandaríkjanna.