Ólafur Þór Thorlacius fæddist í Reykjavík 21. október 1936. Hann lést á Landspítalanum 27. júlí 2024. Foreldrar hans voru Guðni Thorlacius f. 25.10. 1908, d. 22.5. 1975, skipstjóri, og Margrét Ó. Thorlacius, f. 8.4. 1909, d. 15.9. 2005, húsmóðir. Systur Ólafs: Guðfinna Thorlacius, f. 10.3. 1938, d. 22.11. 2020, og Margrét G. Thorlacius, f. 28.5. 1940.
Ólafur giftist Jóhönnu J. Thorlacius, hjúkrunarfræðingi, f. 4.5. 1940, d. 9.2. 2021, 20.5 1961. Foreldrar hennar voru hjónin Jóhannes Zoëga Magnússon prentsmiður f. 7.4. 1907, d. 13.1. 1957, og Sigríður Elín Þorkelsdóttir símavörður, f. 27.6. 1909, d. 8.6. 1993. Dætur Ólafs: 1) Margrét Ó. Thorlacius, f. 10.11. 1961, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, búsett í Garðabæ, maki Heimir S. Kristinsson, f. 1960 iðnaðar- og smábátasjómaður. Börn þeirra eru a) Heiða Lind Heimisdóttir, maki Andri Arnarson, börn þeirra eru Heimir Örn Andrason, Lilja Björk Andradóttir og Harpa Lind Andradóttir b) Kristinn Bjarni Heimisson. 2) Sigríður Elín Thorlacius, f. 8.8.1963, flugfreyja, búsett í Garðabæ, maki Viðar Magnússon, f. 1960, húsasmiður. Börn þeirra eru a) Ólafur Th. Viðarsson, maki Sunna Lind Jónsdóttir, börn þeirra eru Birkir Jaki Th. Ólafsson og Bríet Lára Th. Ólafsdóttir. b) Björk Th. Viðarsdóttir, unnusti Þórir Guðjónsson. 3) Þórdís Thorlacius, f. 8.9. 1964, klæðskeri og bókari, búsett í Garðabæ, maki Haukur Hafsteinsson, f. 1964, rafmagnstæknifræðingur. Börn þeirra eru: a) Íris Th. Hauksdóttir, maki Emil Sölvi Ágústsson, sonur þeirra er Haukur Th. Emilsson. b) Davíð Hauksson, unnusta Zenyta Dwidjosiswojo, sonur hans Maríus Blær Irpu Davíðsson, barnsmóðir Irpa Fönn Hlynsdóttir. 4) Theodóra Thorlacius, f. 24.5. 1974, líffræðingur, búsett í Sviss, maki Valgeir Ó. Pétursson, f. 1967, kennari, synir þeirra eru a) Ingimar Askur Valgeirsson b) Pétur Elís Th. Valgeirsson c) Snorri Th. Valgeirsson.
Ólafur og Jóhanna bjuggu fyrstu búskaparárin á Háteigsvegi, Háaleitisbraut og Skansinum við Kleppsspítala. Árið 1969 fluttu þau í Garðabæinn og bjuggu þar lengst af á Markarflöt. Ólafur ólst upp á Ránargötunni, sótti miðbæjarskólann og Gaggó Vest gamla Stýrimannaskólanum. Hann æfði handbolta með FH og körfubolta, fyrst með Gosa síðar KFR sem svo gekk í körfuknattleiksdeild Vals. Ólafur lék þar fjölda meistaraflokks leikja og þjálfaði deildina. Hann lék með landsliði Íslands fyrsta landsleik í körfuknattleik gegn Danmörku 1959, fór fjölda keppnisferða og var þjálfari körfuboltalandsliðsins um skeið. Ólafur fór fyrst til sjós um 15 ára og var viðloðandi sjómennsku eftir það. Hann hóf störf á sjómælinga bátnum Tý 1953 og þá um haustið fór hann á námssamning í sjókortagerð hjá Landhelgisgæslunni. Hann lauk náminu 1958 hjá Det Kongelige Søkort Arkiv í Kaupmannahöfn. Að námi loknu starfaði Ólafur við sjómælingar og sjókortagerð á vegum Landhelgisgæslunnar alla sína starfsævi. Hann vann við sjómælingar og athuganir á varðskipum og sjómælingabátum á sumrin og vann úr gögnum á veturna. Hann starfaði einnig um tíma við kortagerð og skýringar við fréttastofu RÚV. Ólafur lærði einnig myndlist og kenndi um skeið myndmennt við Hlíðaskóla í Reykjavík.
Útförin fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 16. ágúst 2024, klukkan 13.
Minn elsku besti pabbi.
Guð gaf mér engil sem ég hef hér
á jörð,
hann stendur mér hjá og heldur um mig vörð.
Hann stýrir mér í gegnum lífið með ljósi sínu,
ég er svo þakklát að hafa hann í
lífi mínu.
Ég vona að hann viti að hann er mér kær,
allar mínar bestu hugsanir hann fær.
Hans gleði og viska við alla kemur,
við flestalla honum vel semur.
Hann stendur mér hjá þegar illa liggur við,
hann víkur ekki frá minni hlið.
Nema sé þess viss að allt sé í lagi,
fer þá að vesenast í málarastússi
af ýmsu tagi.
Hann er vandvirkur og iðinn,
hann sinnir alltaf sínu vel.
Hann segir það aðalatriðin,
sem er rétt, það ég tel.
Hann hefur kennt mér að vera þolinmóð og sterk,
hvetur mig áfram að stunda mín dagsverk.
„Þú skalt alltaf standa á þínu,“ hann ávallt hefur sagt,
mikla áherslu á það lagt.
Þó svo hann segi ekki við mann
oft mikið,
þá meinar hann alltaf margt.
Hann getur aldrei neinn svikið,
það getur hann ekki á neinn lagt.
Hann er bara þannig maður,
hann er bara þannig sál.
Hann er aldrei með neitt þvaður,
hann meinar allt sitt mál.
Hann sýnir mér svo mikla ást,
hann vill aldrei sjá neinn þjást.
Hann er minn klettur og hann er mín trú,
hann er minn besti pabbi,
staðreyndin er sú!
(Katrín Ruth Þ.)
Þínar dætur,
Margrét (Magga), Sigríður (Sigga), Þórdís (Tollý) og Theodóra (Tinna).
Hann afi var oft mjög þögull maður, sem mögulega mætti útskýra með að hann hafi eytt stórum hluta ævinnar búandi með fjórum ungum konum og henni ömmu. En alltaf þegar hann afi greip orðið þá var magnað að heyra hann segja sögurnar sínar. Öll sú lífsreynsla sem hann hefur farið í gegnum. Frá því að vera boðið í þátt Eds Sullivans ásamt körfuboltaliði sínu þegar þeim, fyrsta körfuboltalandsliði Íslands, hafði verið boðið að ferðast um Bandaríkin að keppa við hin ýmsu háskólalið og yfir í að vinna á skipi í kringum Vestmanneyjagosið árið 1973 í marga mánuði til að mæla síbreytilegt sjávaryfirborðið. Og alltaf var hann stoltur yfir því að í gamla daga þurfti hann að teikna öll sjávarkort með eigin hendi.
Afi var mikill listamaður og hjá honum og ömmu voru margar myndir eftir hann á veggjum. Í anddyrinu á Markarflötinni var ein sem var merkt Rufaló. Oft horfðum við á myndina og veltum því fyrir okkur hver þessi Rufaló væri en aldrei var það gefið upp. Þegar við loksins áttuðum okkur á hver þessi Rufaló væri þá fannst okkur það mjög merkilegt og enn skemmtilegra að það væri hann afi sem málaði myndina.
Þessi listræna hæfni fylgdi afa í gegn um lífið og eru verkin eftir hann svo mörg að við eigum flest eitt til fjögur málverk hangandi uppi á vegg eftir hann afa okkar.
Honum þótti best að geyma orðið og hafði alltaf gaman af að heyra dætur sínar og barnabörn segja sínar sögur og hafa notalegt meðan hann hlustaði á okkar upplifanir af heiminum sem hann hafði sjálfur skoðað svo vel. Hann afi var mikill húmoristi og átti líka til að sjá það skondna við sögurnar okkar eða gjörðir og hlæja sínum dásamlega hlátri við öll tækifæri.
Það eru eflaust ekki margir sem hafa átt jafn kúl afa og við. Þegar elstu barnabörnin voru að vaxa úr grasi þá bjó hann til leynihandaband með þeim. Í hvert sinn sem við kvöddum hann eftir heimsókn þá framkvæmdum við leynihandabandið, öðruvísi var ekki hægt að fara. Eftir því sem barnabörnin urðu fleiri og svo þegar barnabarnabörnin bættust við þá fengu þau líka að læra leynihandabandið. Afi passaði upp á að kveðja okkur alltaf með þessu handabandi til lokadags. Nú þegar við kveðjum þig í síðasta skipti þá er ekki annað hægt en að gera leynihandabandið.
Þín barnabörn,
Heiða Lind Heimisdóttir, Ólafur Thorlacius Viðarsson, Kristinn Bjarni Heimisson, Björk Thorlacius Viðarsdóttir, Íris Thorlacius Hauksdóttir, Davíð Hauksson, Ingimar Askur Valgeirsson, Pétur Elís Thorlacius Valgeirsson, Snorri Thorlacius Valgeirsson.
Í dag er til moldar borinn móðurbróðir minn, Ólafur Þór Thorlacius. Á kveðjustund rifjast upp minningar um Óla frænda, hæglátan mann og jafnvel dulan. Hann lék þó á als oddi þegar svo bar undir, launfyndinn og ljúfur í lund. Drátthagur var hann sömuleiðis, lærði myndlist frá unga aldri, hélt nokkrum sinnum sýningar og kenndi teikningu í barnaskóla um skeið. Kennslan fór fram í kjallara, einhverri kompu jafnvel. Eitt sinn var Óli víst spurður hvort ekki væri erfitt að sinna starfinu á þetta dimmum stað. Svaraði hann þá með hægð að þetta gengi alveg, þau létu bara duga að teikna með kolsvörtu á skjannahvítan pappír.
Ólafur var kominn af sjómannsfólki, ólst upp á Ránargötu í Vesturbæ Reykjavíkur með ástkærum foreldrum og tveimur systrum. Hann fór ungur til sjós, fyrst á vitaskipinu Hermóði með föður sínum, Guðna Thorlacius skipstjóra. Um tvítugt hélt hann til Kaupmannahafnar og nam þar kortagerð við stofnun á vegum danska sjóhersins. Öllum sínum starfsferli varði hann svo við sjómælingar og sjókortagerð á vegum hins opinbera, síðast hjá Landhelgisgæslu Íslands. Á þeim vettvangi kom hagleikur hans að góðum notum.
Alla tíð voru íþróttir líf og yndi Óla, einkum handbolti og körfubolti. Í fyrri íþróttinni varð hann sjö sinnum Íslandsmeistari með FH og í körfunni var hann í hópi frumherja, lék með fyrsta landsliði Íslands og fór í fræga ferð til Bandaríkjanna þar sem Íslendingarnir komu fram í vinsælum sjónvarpsþætti Eds Sullivans. Einnig lék Óli með liðinu Gosa sem síðar varð að körfuboltadeild Vals, þekki ég söguna rétt. Loks var hann landsliðsþjálfari í nokkur ár. Þegar annar bræðra minna fór að gera það gott í handboltanum var Óli fastagestur á leikjum og alltaf vildi hann spjalla um hvers kyns sport, nýjustu úrslit, leikkerfi eða kosti og galla hinna og þessara íþróttamanna.
Á æskuárum mínum bjó Óli með Jóhönnu konu sinni og dætrum þeirra fjórum við Markarflöt í Garðabæ. Við fjölskyldan fórum gjarnan þangað. Ætíð var kært milli móður minnar og Óla sem var fjórum árum eldri og þeir faðir minn heitinn gátu talað vel og lengi um alls kyns íþróttir. Minningar um þessar heimsóknir festust í barnsminninu og nú kalla ég þær fram um leið og ég minnist með hlýju góðs manns sem genginn er, saddur lífdaga eftir skammvinn veikindi. Blessuð sé minning Ólafs Þórs Thorlacius.
Guðni Th.
Jóhannesson.