Egg
Harðsoðið egg er fullt hús matar. Það tekur enga stund að taka skurnina af og skella í sig egginu á milli mála. Eina sem þarf að gera er að sjóða eggið kvöldið áður eða fyrr um daginn.
Grænmeti
Það er hægt að taka með fleira en bara banana í nesti. Í matvörubúðum eru til litlar bragðgóðar gulrætur sem ekki þarf að skræla og jafnvel litlar íslenskar agúrkur sem henta fullkomlega í skólatöskuna. Fyrir lúxusupésana er hægt að taka með hummus og dýfa grænmetinu í.
Kaldur grautur
Kaldur grautur með höfrum, fræjum, hnetum og jafnvel ávöxtum er fullkominn í skólann. Grauturinn er búinn til kvöldið áður og látinn standa inn í ísskáp, eldavélin verður algjör óþarfi.
Afgangar
Eldaðu aðeins meira og taktu með þér afganga í hádegismat. Það getur verið fráhrindandi að burðast með mismunandi nestisbox fyrir aðalréttinn og annað fyrir meðlætið en þá er gott að eiga nestisbox með nokkrum hólfum.
Tepokar og vatnsflöskur
Það er hægt að spara mikið á því að ganga með nokkra tepoka á sér og vatnsbrúsa. Uppáhellingin og sódavatnið er kannski ekki dýrt en það safnast saman.