90 ára Margrét fæddist á Bólstað í Austur-Landeyjum og gekk í barnaskólann í Austur-Landeyjum. Hún flutti síðar til Reykjavíkur og gekk í Kvennaskólann í Reykjavík. Margrét flutti á Hvolsvöll árið 1955 og bjó þar í 45 ár áður en hún flutti aftur til Reykjavíkur um aldamótin eftir lát eiginmanns síns og hefur búið þar allar götur síðan.
Margrét starfaði við verslunar- og skrifstofustörf hjá Kaupfélagi Rangæinga og síðar hjá KÁ á Hvolsvelli í rúm 40 ár. Síðasta starfsárið sitt tók hún þátt í uppbyggingu Kaupfélagssafnsins á Hvolsvelli.
Hún söng í kór Stórólfshvolskirkju um árabil, einnig í Samkór Rangæinga frá 1974 til 1981 og Kvennakórnum Ljósbrá, frá 1991 til ársins 2000. Þá var hún virkur meðlimur í Söngfélagi Félags eldri borgara eftir að hún flutti til Reykjavíkur og í dag syngur hún með Söngfuglum og stefnir á að syngja áfram með kórnum á meðan röddin leyfir. Margrét var félagi í ITC Stjörnu í Rangárþingi frá 1986 til 2000, þar af forseti deildarinnar í tvö ár. Hún var formaður ritnefndar Goðasteins, héraðsrits Rangæinga, frá 1994 til 1998. Þá var hún virk í starfsmannafélagi Kaupfélags Rangæinga og sat í stjórn þess.
Árið 1994 gaf Margrét út bókina Lifir eik þótt laufið fjúki ásamt tveimur frænkum sínum en bókin var ævisaga Árnýjar Filippusdóttur, skólastjóra Kvennaskólans á Hverabökkum. Árný var föðursystir Margrétar. Einnig hefur Margrét skrifað greinar í blöð og tímarit.
Spurð út í lykilinn að langlífinu var Margrét fljót til svars: „Ég syng og syndi á hverjum degi,“ segir Margrét kampakát.
Fjölskylda Eiginmaður Margrétar var Bjarni Helgason, f. 1930, d. 2000. Barn þeirra er Helgi, viðskiptafræðingur. Margrét á tvö barnabörn, Bjarna og Ragnheiði, og fjögur langömmubörn: Birni, Aþenu Björk, Alexöndru Birnu og Ingibjörgu Elínu. Foreldrar Margrétar voru Björgvin Filippusson, f. 1896, d. 1987, og Jarþrúður Pétursdóttir, f. 1897, d. 1971. Margrét var næstyngst tíu systkina og eru hún og Ingibjörg systir hennar, sem er fædd í september árið 1924, þær einu úr systkinahópnum sem eru enn á lífi í dag.