Birgir Smári Árælsson fæddist í Reykjavík 27. júlí 1985. Hann lést 29. júlí 2024.
Foreldrar hans eru Kristín Breiðfjörð Kristinsdóttir, f. 1955, foreldrar hennar eru Sigurlaug Sigurfinnsdóttir, f. 1929, og Kristinn Breiðfjörð Eiríksson, f. 1928, d. 2017, og Ársæll Már Gunnarsson, f. 1952, foreldrar hans eru Auður Þorláksdóttir, f. 1930, d. 1993, og Gunnar Már Torfason, f. 1924. Bræður Birgis eru Kristinn Már, f. 1979, kvæntur Sólveigu Öldu Halldórsdóttur, f. 1976, þau eiga þrjú börn og Gunnlaugur Helgi, f. 1992, kvæntur Eydísi Ólafsdóttur, f. 1993, þau eiga tvö börn.
Birgir kvæntist Sesselíu Dögg Kristleifsdóttur, f. 1991, 29. febrúar 2016. Börn þeirra eru Gunnlaugur Leó, f. 2014, og Svava Kristín Baldvins, f. 2018. Foreldrar Sesselíu eru Vilma Kristín Svövudóttir, f. 1971, og Kristleifur Leósson, f. 1970, d. 2016.
Birgir ólst upp í Selási í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og BA í kvikmyndafræði og leikskólakennaranámi frá HÍ. Í gegnum árin vann hann m.a. hjá BT, Umhverfisstofnun, Stöð 2 og Rofaborg. Hann fann sig í að vinna með börnum og starfaði síðustu árin sem leikskólakennari og síðar deildarstjóri á Ártúnsskóla, leikskóla.
Hann hafði ávallt mikinn áhuga á kvikmyndum, tölvuleikjum og legói, sem var sameiginlegt áhugamál allrar fjölskyldunnar. Hann var mikill fjölskyldumaður og börnin hans áttu hug hans og hjarta.
Útför Birgis fer fram í Fossvogskirkju í dag, 16. ágúst 2024, klukkan 10.
Kær og dýrmætur vinur er nú fallinn frá eftir erfiða baráttu við lævísan og lífshættulegan sjúkdóm. Ég varð harmi slegin þegar ég fékk þessi sorgartíðindi, aðeins tveimur dögum eftir 39 ára afmælisdag Birgis Smára. Það er óskiljanlegt hvers vegna svo ung og lífsglöð manneskja er hrifsuð frá börnum, ástvinum og fjölskyldu sem eftir sitja í sorg og sársauka.
Ég var heppin að kynnast Birgi Smára þegar ég byrjaði að vinna í BT í Skeifunni haustið 2007. Ég man eftir kátum, fróðum og umfram allt skemmtilegum strák sem var kærleiksríkur og vinalegur við nýju stelpuna af Suðurnesjum. Við urðum perluvinir um leið, og fljótlega upp úr aðventu var eitthvað meira en vinátta komið í spilin. Við áttum mörg sameiginleg áhugamál, þá helst kvikmyndir, tónlist, klæðnað og handverk af ýmsu tagi sem varð góður grunnur að okkar sambandi. Ég hafði eignast dýrmæta tengdafjölskyldu sem tók mér með opnum faðmi og hlýju hjarta. Ég verð þeim ætíð þakklát fyrir þennan tíma í mínu lífi.
Margar dýrmætar minningar á ég úr sveit fjölskyldunnar fyrir norðan, sveitinni sem var Birgi Smára svo kær. Þar má helst telja ættarmót, réttir með allri tengdafjölskyldunni, rólegheit um verslunarmannahelgi, gönguferðir í fallegri náttúru og ótal sundferðir og bíltúra um sveitina með tilheyrandi geisladiskatónlist og söng í bílnum.
Birgir Smári var ætíð mikill áhugamaður um fallegt handverk og var mikill listamaður. Hann var ávallt að skrifa ljóð eða texta, teikna eða mála myndir, föndra, eða skrifa falleg bréf og kort handa ástvinum sínum. Honum þótti alltaf svo gaman að gleðja.
Eftir að okkar sambandi lauk, snemma árs 2013, héldum við áfram góðum samskiptum sem urðu að innilegri vináttu alla tíð síðan. Hann átti alltaf til nóga hlýju og gleði handa öllum sem honum kynntust og á ég honum svo margt að þakka. Hann opnaði augu mín fyrir svo mörgu, sérstaklega alls kyns kvikmyndum, þáttum og fjölbreyttri tónlist sem ég hélt að ég myndi aldrei kunna að meta, en í dag finnst mér ómissandi.
Ég átti mitt síðasta samtal við Birgi Smára í skilaboðum, nokkrum dögum fyrir þessa harmafregn um andlát hans. Ég sendi honum mynd af uppáhaldsplötunni okkar, sem ég var fyrir tilviljun að hlusta á, sem hann gaf mér í stúdentsgjöf. Hann handskrifaði alla texta plötunnar og orti ljóð handa mér, vinkonu sinni, sem hann skrifaði á sama umslag. Ég birti hér með ljóðið eftir hann, sem lýsir honum svo vel og er ein fallegasta gjöf sem ég hef fengið. Hann var svo kærleiksríkur og umhyggjusamur. Sannur vinur.
Dúllan með kollinn hvíta
Til hamingju mín kæra
með a' vera dugleg að læra
stoltur ég er
eins og vera ber
áfram þú skalt
að sigra allt
upp á himininn þjóta
niðrá jörðina fljóta
og alla heimsins hamingju hljóta
Elsku ástvinir Birgis Smára, megi allar góðar vættir umvefja ykkur í þessum þungu skrefum sem þið þurfið að stíga á næstu dögum, vikum, mánuðum og árum. Fráfall hans skilur eftir stórt skarð. Ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur og kveð kæran vin með þakklæti og sorg í hjarta.
Guðríður Hafst.
Aldrei hef ég skrifað jafn fá orð á eins löngum tíma og þessi. Sorgin er alltaf þungbær, en óbærileg þegar bróðir manns og vinur fellur frá. Yngri bróðir á besta aldri sem skilur eftir sig eiginkonu og tvö börn. Maður sem var metnaðarfullur, baráttuglaður og elskaði lífið. Hann átti mikið inni. Við áttum mikið eftir.
Birgir var, eins og margir, svolítið lengi að finna sína fjöl. Hann menntaði sig og starfaði við eitt uppáhaldsáhugamálið, kvikmyndir. Það fannst honum gaman en naut sín samt mun meira sem leikskólakennari. Hann brann fyrir vinnunni sem og starfi leikskólanna almennt. Hvernig hann nálgaðist öll börn af virðingu og þolinmæði var til fyrirmyndar. Við áttum mörg samtöl um hvernig hann sá fyrir sér umbætur á skólakerfinu næstu áratugi og hann var virkur í starfi Félags leikskólakennara.
Það tók Birgi líka dálítinn tíma að finna sjálfan sig. Sessý og börnin skiluðu honum svo endanlega á réttan stað. Það var honum léttir þegar hann greindist nýlega með einhverfu. Öll afkáralegu samskiptin og smáatriðin sem þurfti að leiðrétta voru loksins skiljanleg. Þá var hann reyndar löngu búinn að ná tökum á þessu öllu. Kannski ennþá svolítið þver öðru hvoru en aðallega, þar með talið eftir að hann greindist með krabbamein, var hann eitt bros. Það var aðdáunarvert og umtalað hversu upplitsdjarfur hann var í baráttunni gegn meininu.
Eins og svo mörgum í okkar fjölskyldu leið honum einna best á Hurðarbaki í Húnabyggð. Þrátt fyrir að hafa aldrei búið þar leið honum alltaf eins og þar væri hann heima. Daginn sem hann lést ætluðu þau fjölskyldan norður, en hann var kallaður í aðra ferð. Birgir trúði ekki á neitt yfirnáttúrulegt, en ef það leynast einhverjir töfrar handan þessa heims kæmi mér ekki á óvart að hann dveldi oft í sveitinni.
Mér er minnisstæð nóttin hvar við skulfum af kulda í tjaldi á Austurvelli í vonlítilli baráttu fyrir jafnara samfélagi. Tókum íslensku leiðina á þetta; allt ákveðið á síðustu stundu og illa skipulagt. Birgir var virkur í ýmiss konar baráttu í gegnum árin. Boðinn og búinn að ræða við þá sem vildu heyra (og ekki heyra) um eitraða og jákvæða karlmennsku, lýðræði, og umbætur á leikskólakerfinu.
Við Birgir deildum mörgum áhugamálum og lékum okkur saman frá því við vorum börn allt fram til þess síðasta. Í gegnum árin var óheyrilegum tíma (en samt alltof stuttum) varið í að bjarga alheiminum frá trúarofstækisgeimverum og vítisvitvélum. Mér er það dýrmætt að hafa fengið að spila nokkur borð í Halo með þér tveimur dögum áður en þú kvaddir. Tilhugsunin um að fá ekki að spila aftur með þér tölvuleiki, borðspil, fótbolta, kubb og svo framvegis og framvegis er ekkert spes.
Ég veit að þú óskaðir þess að allir myndu taka því af æðruleysi ef þú skyldir falla frá. Svona sé þetta bara. Helst gleðjast og brosa. Þú verður að afsaka að það verður einhver bið eftir því. Ég lofa samt að byrja að brosa og gleðja fólkið í kringum mig sem allra fyrst.
Hvíldu í friði elsku besti Birgir Smári.
Kristinn Már Ársælsson.
Líkt og krakkar í Astrid Lindgren-bók vorum við Biggi alltaf saman. Birgir hafði búið í götunni síðan hann fæddist en við undirrituð fluttum sama árið í Mýrarásinn, árið 1994. Ásamt fleiri krökkum í götunni lékum við okkur fram á kvöld við alls kyns leiki og svo þegar dimmdi og hinir krakkarnir tíndust heim urðum við þrjú æ oftar eftir og spjölluðum þar til komið var langt fram yfir háttatíma. Biggi var alltaf til í skemmtileg ævintýri, nema reyndar þegar Murder she Wrote var í sjónvarpinu. Þá skipti nánast engu máli hver spurði eftir honum, hann var upptekinn með Jessicu Fletcher. Svona eftir á að hyggja grunar okkur nú að hann hafi verið að passa upp á að eyða góðum stundum heima með fjölskyldunni. Eftir því sem vinaböndin styrktust og árin liðu varð samgangur okkar slíkur að við vorum alltaf velkomin inni á heimilum hvert annars og foreldrar Bigga, Kristín og Ársæll, tóku manni alltaf opnum örmum og hlýjum. Veiðiferðirnar og ferðalögin með þeim eru óteljandi og verðum við þeim ævinlega þakklát fyrir.
Þegar útileikjunum fækkaði og unglingsárin gengu í garð færðust áhugamálin inn, öll höfðum við óbilandi áhuga á kvikmyndum og þar fór Biggi fremstur í flokki í þekkingu og hann átti líka langmesta úrvalið af kvikmyndum. Öll fórum við í Menntaskólann í Reykjavík og Birgir útskrifaðist þaðan af eðlisfræðibraut. Hann var mikill grúskari, klár, athugull og með gríðarlega gott minni. Keppnir í spurningaspilum urðu stundum ansi heitar en alltaf skemmtilegar með honum.
Eftir menntaskólann fann Biggi kvikmyndafræði í Háskólanum og ruddi þar með brautina fyrir okkur að fylgja honum eftir í kvikmyndatengdu námi, sem við gerðum bæði og störfum við fagið í dag. Í kvikmyndafræðinni var hann einn af forsvarsmönnum Kínofíls sem stóð fyrir kvikmyndasýningum um nokkurra ára skeið í Stúdentakjallaranum. Birgir var mikill og ötull samfélagsrýnir og í gegnum Lýðræðisfélagið Öldu virkjaði hann sína samfélagslegu sýn og lét oft til sín taka í réttlætismálum.
Þrátt fyrir annríkið hugsaði Biggi alltaf til okkar og gætti að því að heimsækja okkur reglulega þar sem við vorum við nám í útlöndum, aðstoða við það sem hann gat og vera til staðar ef eitthvað bjátaði á. Það var þó þegar hann fór að vinna á leikskóla sem hann fann sína köllun. Þá skráði hann sig í nám og útskrifaðist með MA-gráðu í faginu og hélt áfram að sinna börnum af sinni einstöku gleði, innsæi og umhyggju. Þegar Sesselía kom inn í líf hans, og okkar, var augljóst að Birgir var búinn að finna sína fjöl í lífinu. Þau eignuðust tvö yndisleg börn og gleðin, hlýjan og léttleikinn sem einkenndi Bigga varð alltumlykjandi þessa fallegu fjölskyldu.
Við gerðum ekki ráð fyrir því að skarð yrði höggvið í hópinn okkar svona snemma og það er okkur óbærilega sárt að kveðja kæran vin. En hugur okkar er þó hjá fólkinu hans sem er okkur svo kært. Foreldrum hans, bræðrum, ömmu Laugu og umfram allt hjá Sessý og börnunum. Við sendum okkar hlýjustu strauma til ykkar og munum halda minningu vinar okkar uppi um ókomna tíð.
Birgitta og Gunnar Tómas.
Það voru þungbærar fréttir sem bárust okkur starfsfólki Ártúnsskóla mánudaginn 29. júlí síðastliðinn þegar við fréttum að kær samstarfsmaður okkar, Birgir Smári, væri látinn. Aðeins tveimur dögum áður höfðum við mörg hver óskað honum heilla á 39 ára afmælisdeginum og trúðum og treystum að baráttan við krabbameinið væri að snúast við honum í hag og að það væru bjartari dagar fram undan.
Birgir Smári hóf störf við Ártúnsskóla leikskóladeild fyrir fjórum árum. Birgir hafði afar notalega og góða nærveru, hann var einkar glaðlyndur og jákvæður og kom ávallt fallega fram við samstarfsfólk og börnin í Ártúnsskóla. Hann var bóngóður og alltaf tilbúinn að rétta fram hjálparhönd og skipti þá ekki máli hver átti í hlut. Birgir var skarpgreindur, réttsýnn og það var auðvelt að gleyma sér í góðu spjalli með honum hvort sem það var um börnin sem starf okkar snýst um, skiptingu gæðanna eða það sem efst var á baugi hverju sinni. Birgir var ekki upptekinn af lífsgæðakapphlaupi af neinu tagi en dæmdi engan og einbeitti sér frekar að sínu og þar var fjölskylda hans í algjörum forgangi. Hann var mikill fjölskyldumaður og talaði ávallt fallega um Sessý sína og börnin þeirra Gunnlaug Leó og Svövu Kristínu.
Birgir og fjölskylda mættu veikindunum með því að njóta tímans sem þeim var gefinn og í einu af okkar síðasta spjalli talaði hann um að sumarið myndi snúast um að njóta samveru með fjölskyldunni og er nú sárt að hugsa til þess að hann hafi ekki náð meiri tíma með þeim. Birgir leyfði okkur að fylgjast með vegferðinni frá byrjun, greindi frá þegar jákvæðar fréttir bárust en fór vel með þegar syrti í álinn og endaði ætíð á að finna eitthvað jákvætt í stöðunni. Það var aðdáunarvert að finna kraftinn sem hann bjó yfir í þessari baráttu, æðruleysið og jákvæðnina sem hann kaus að nýta sér í þessu verkefni sem nú hefur haft vinninginn. Við trúum því að vel hafi verið tekið á móti þessari einstöku sál í draumalandinu.
Kæra Sessý, Gunnlaugur Leó og Svava Kristín, missir ykkar er óendanlega sár og mikill sem engin orð geta lýst.
Starfsfólk Ártúnsskóla sendir ykkur hugheilar samúðarkveðjur á þessum þungbæra tíma um leið og við kveðjum kæran vin og samstarfsfélaga, Birgi Smára.
Ellen Gísladóttir, skólastjóri Ártúnsskóla.