Þórunn Melsteð fæddist í Reykjavík 7. febrúar 1934. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 24. júlí 2024.

Foreldrar Þórunnar voru Soffía Bjarnadóttir Melsteð, f. í Framnesi á Skeiðum 15.9. 1905, d. 19.3. 1993, og Haraldur Alfreð Hólm Eyþórsson, f. 13.3. 1910, d. 29.7. 1980. Systir Þórunnar var Ragnheiður Haraldsdóttir, f. 7.5. 1931, d. 27.7. 2020. Maki hennar var Haraldur Bjarnason. Þau eignuðust sjö börn.

Hinn 5.6. 1954 giftist Þórunn Ólafi Herði Sigtryggssyni, f. 17.3. 1934, d. 24.10. 2017. Þau skildu árið 1962. Þórunn og Ólafur Hörður eignuðust tvær dætur, þær eru: 1) Erla Melsteð, f. 1.7. 1958, d. 20.2. 2017, eiginmaður hennar var Árni Árnason, f. 30.8. 1957. Börn Erlu: Soffía Melsteð Eyjólfsdóttir og Brynjar Söebeck Melsteð Aðalsteinsson. 2) Soffía Melsteð, f. 27.3. 1960, eiginmaður hennar er Jóngeir Hjörvar Hlinason hagfræðingur, f. 30.8. 1955. Synir þeirra eru Hlini Melsteð, Þór Melsteð og Freyr Melsteð. Einnig átti Þórunn 3) Sif Melsteð, f. 9.11. 1965, d. 10.5. 2021. Faðir hennar er Sigurður Stefánsson, f. 20.7. 1939. Sonur hennar er Daníel Melsteð Sigurjónsson, f. 2.11. 2005, faðir hans er fyrrverandi sambýlismaður Sifjar, Sigurjón Hreinsson, f. 23.10. 1970. Soffía Melsteð Eyjólfsdóttir, dóttir Erlu, ólst upp hjá ömmu sinni.

Þórunn ólst upp hjá móður sinni í Reykjavík eftir að foreldrar hennar skildu. Hún stundaði nám við Miðbæjarskólann og síðar var hún við nám við Kvennaskólann í Reykjavík þar sem hún eignaðist góðar vinkonur fyrir lífstíð.

Þórunn vann sem sætavísa í nýopnuðu Þjóðleikhúsinu rétt eftir 1950. Þórunn fór í umfangsmikla hjartaaðgerð til Kaupmannahafnar árið 1956. Þórunn var í ýmsum félagasamtökum og sinnti sjálfboðaliðastarfi á vegum Rauða kross Íslands.

Þórunn tók þátt í kór eldri borgara um árabil. Hún tók þátt í gönguhóp og stundaði líkamsæfingar þar til á þessu ári.

Útför Þórunnar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 16. ágúst 2024, klukkan 13.

Útförinni verður streymt á

https://streyma.is/streymi/

Tengdamóðir mín Þórunn Melsteð fæddist á kreppuárunum fyrir seinni heimsstyrjöldina og lifði óhætt að segja tímana tvenna.

Fyrstu minningarnar sem hún talaði um voru frá því þegar hún var sex ára 10. maí 1940 en þá voru hún og Ragna systir hennar í eldhúsglugganum á annarri hæð á Kirkjutorgi 6 þar sem þær bjuggu og fylgdust með breskum hermönnum þramma fram hjá Dómkirkjunni.

Einnig talaði hún oft um rigninguna og kuldann sem var á Þingvöllum 17. júní 1944, en þar var hún stödd þegar lýðveldið var stofnað.

Hún talaði með hlýju um ár sín í Kvennaskólanum og þær góðu vinkonur sem hún eignaðist þar.

Hún sagði okkur stundum frá ferð sinni til Kaupmannahafnar 1956, þar sem hún fór í mikla hjartaaðgerð. Í ferðinni þangað missti hún meðvitund og flugvélin sem hún var með lenti í Gautaborg. Opna hjartaaðgerðin sem hún fór í að lokum í Kaupmannahöfn heppnaðist þó það vel að þegar hún lést var hún sá hjartasjúklingur á Íslandi sem lengst hafði lifað eftir svona aðgerð. Þessi hjartasjúkdómur háði henni þó alla ævi.

Þórunn var mikill listunnandi og sótti leikhús og tónleika eftir megni.

Grunnurinn að því var líklega lagður þegar hún vann á unglingsárum sínum við að vísa til sætis í hinu nýstofnaða Þjóðleikhúsi, hún sýndi mér hróðug gamlar leikskrár sem hún hafði fengið áritaðar af stórleikurum á þessum tíma.

Soffía Melsteð Eyjólfsdóttir, fædd 1.5. 1976, dóttir Erlu, ólst upp hjá ömmu sinni.

Þórunn var í ýmsum félagasamtökum svo sem félagi hjartasjúklinga og sinnti sjálfboðaliðastarfi í verslun á vegum Rauða kross Íslands í anddyri gamla Landspítalans. Hún talaði um hve hún naut þessa tímabils.

Hin tónelska Þórunn naut þess jafnframt að hlusta sem og syngja, enda tók hún þátt í kór eldri borgara um árabil og var áskrifandi að árlegum tónleikum Fóstbræðra.

Heilbrigður lífsstíll skipti hana sköpum og tók hún þátt í gönguhóp og stundaði líkamsæfingar þar til á þessu ári.

En að missa dætur sínar tvær fyrir aldur fram var henni erfitt, þótt hún talaði ekki mikið um það, né erfiðleikana í lífinu við að einstæð ala upp þrjár dætur sínar ásamt barnabarni. Hún var ætíð boðin og búin að hjálpa fjölskyldu sinni ef aðstoðar var þörf, nutum við góðs af því.

Á seinni árum sinnti ég mikilvægum störfum fyrir hana sem innkaupastjóri og bankagjaldkeri.

Henni þótti nauðsynlegt að alltaf væri til hollur matur í ísskápnum og allir reikningar væru greiddir um mánaðamót. Þegar vörunum var skilað var drukkinn kaffibolli með konfekti og rætt um dægurmálin en hún fylgdist vel með þeim.

Einn sið hafði hún, það var að hringja á kvöldin í Soffíu dóttur sína og bjóða góða nótt, en nú hringir hún ekki meira.

Guð gefi og geymi nú sálina þína

sem göngunni lokið hefur.

Að eilífu minning þín mun nú skína

sem langa svefninum sefur.

(Erla Melsteð)

Blessuð sé minning Þórunnar Melsteð.

Jóngeir Hjörvar Hlinason.