Annað líf Úkraínsk börn horfa til sólar í heimildarmyndinni Temporary Shelter, á íslensku Tímabundið skjól.
Annað líf Úkraínsk börn horfa til sólar í heimildarmyndinni Temporary Shelter, á íslensku Tímabundið skjól.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrsta heimildarmynd hinnar úkraínsku Anastasiu Bortuali, Temporary Shelter eða Tímabundið skjól, verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto, TIFF, sem stendur yfir frá 5. til 15

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Fyrsta heimildarmynd hinnar úkraínsku Anastasiu Bortuali, Temporary Shelter eða Tímabundið skjól, verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto, TIFF, sem stendur yfir frá 5. til 15. september. Bortuali fékk hæli á Íslandi eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu og fjallar myndin um landa hennar sem eru flóttamenn hér á landi. Helgi Felixson framleiðir myndina sem er unnin í samstarfi Iris Film á Íslandi og Felix Film í Svíþjóð. Kvikmyndasjóður studdi verkefnið og verður myndin sýnd í Bíó Paradís í haust.

Í Temporary Shelter er ljósi varpað á líf flóttamanna frá Úkraínu hér á landi, fólks sem er í sömu stöðu og Bortuali, brothætta tilveru þess og styrk. Segir í lýsingu á myndinni á vef TIFF að í bakgrunni séu eldsumbrot og norðurljós Íslands og að Bortuali hafi verið knúin áfram af persónulegri reynslu sinni. Hún sé ein sex milljóna Úkraínumanna sem hafi flúið þegar Rússar réðust inn í land þeirra og á Íslandi hafi hún skrásett líf Úkraínumanna og tilraunir þeirra til að aðlagast nýjum heimkynnum.

Þótt myndin sé byggð á upplifun Úkraínumanna kemur eitt og annað sammannlegt við sögu og má þar m.a. nefna að þurfa að læra nýtt og ókunnugt tungumál, finna atvinnu og finna gleði í öllu mótlætinu. Segir einnig að Bortuali nái stórfenglegum myndum af norðurljósum og eldgosum, inn á milli tilfinningaþrunginna nærmynda af fólki sem sé að vinna úr áföllum og veiti hvert öðru stuðning.

Flóttinn endaði á Íslandi

Helgi segir í samtali við blaðamann að Bortuali hafi verið í skóla í St. Pétursborg þegar stríðið skall á og því hafi hún þurft að yfirgefa Rússland. „Hún fór til síns heimalands, Úkraínu, og lagði á flótta með mömmu sinni og systur og endaði á Íslandi. Hún er búsett núna á Íslandi, á Ásbrú, og þannig gerist þetta allt saman, í takt við þetta stríð sem skall á. Þannig varð þessi mynd til líka, í raun og veru, rótin var í raun hennar flótti til Íslands og hennar vera á Ásbrú,“ segir Helgi frá.

En hvernig kynntust þau Bortuali? „Það var eiginlega bara tilviljun, það var einhver Úkraínukynning í háskólanum þar sem okkur var stefnt saman, við kynnt hvort fyrir öðru og hún fór að segja frá því sem hún var að kljást við,“ svarar Helgi. „Við fórum að rannsaka það mál nánar, fórum dýpra í það þangað til niðurstaðan varð sú að það væri sennilega hægt að gera mynd. Það var náttúrlega mikið kaos í þessu efni en sýnin hjá henni var kristaltær, fannst mér, hvernig hún sá þetta fyrir sér,“ heldur Helgi áfram. Þótt Bortuali sé ung að árum sé hún afar þroskuð, enda búin að ganga í gegnum ýmislegt, og hæfileikarík.

Áföll og seigla

Helgi segir myndina sýna vel bæði þau áföll sem fólkið í henni hafi gengið í gegnum og þá seiglu sem það búi yfir. „Lífsviljinn er svo sterkur og það er kraftur í þessu efni,“ segir Helgi um myndina. Hún sé auk þess skemmtileg sýn á Ísland og Íslendinga, þó svo þeir Íslendingar sem komi við sögu séu komnir undir græna torfu. „Það er kirkjugarður í þessari mynd, eins og flestum öðrum íslenskum myndum, en samt sem áður er nálgunin á Ísland og Íslendinga svolítið öðruvísi en við höfum kannski séð áður og þar kemur hið frumlega inn í myndina.“

Helgi er beðinn að nefna dæmi um slíka nálgun. „Hún endurspeglast mest í viðhorfum þeirra [Úkraínumanna, innsk. blm.] til Íslendinga, hvernig þeir tala um þá, hvernig þeir sjá þá, hvernig þeir koma fyrir sjónir. Þeir líta á Íslendinga sem vandamálalausa þjóð en svo kemur náttúrlega eldgosið og þá sjá þeir að vandamálin eru líka hér eins og víða annars staðar. Það sem var svo sérstakt líka er að þeir búa á þessu svæði þar sem er fyrrverandi herstöð Nató og um 100 lendingar á dag sem vekur ákveðnar tilfinningar hjá þeim sem koma frá þessum árásum og enda á þessum stað. Síðan er það gosið, að vera umkringdur því ekki bara einu sinni heldur aftur og aftur.“

Titti Johnson, eiginkona Helga af sænskum ættum, hefur unnið að fjölda heimildarmynda með honum og sá hún um að klippa Temporary Shelter með Dmitrii Nova. „Það þarf mikinn kraft og mikla hæfileika til að klippa þetta efni. Það er búið að vinna í því í heilt ár og við vorum með rússneskan klippara líka sem er flóttamaður og býr í Georgíu. Hann hefur unnið algjört kraftaverk líka,“ segir Helgi um samstarfsfólk sitt.

Myndin verður frumsýnd á TIFF, kvikmyndahátíðinni í Toronto, sem er ein sú virtasta í heimi og haldin árlega. Að ná mynd inn á slíka hátíð er frábær árangur og þá ekki síst þegar litið er til þess að Bortuali hefur ekki lokið kvikmyndanámi, er í raun aðeins hálfnuð. Blaðamaður nefnir þetta við Helga og spyr hvort þetta sé ekki mikið afrek. „Jú, jú, og það finnst mér alveg stórkostlegt. Ég fæ gæsahúð þegar ég hugsa um það, hvernig hið ómögulega verður mögulegt,“ svarar Helgi. Sagan sé enda góð og myndin tekin upp með einföldum búnaði við fátæklegar kringumstæður. „Það þarf mikið til að allt gangi upp en það er bara sjarmi í því líka,“ segir Helgi.

Aðstæður ekki fegraðar

Sjá má af stiklu myndarinnar að ekki er verið að fegra aðstæður eða atburði og segir Helgi að myndin sé heiðarleg, persónuleg og unnin af hreinskilni. „Þetta er eins satt og það getur verið þegar maður gerir myndir,“ segir hann um útkomuna. Allt eigi að komast vel til skila. Engin viðtöl eru í myndinni heldur fylgst með atburðum og segir Helgi áhorfandann finna fyrir nærveru leikstjórans en þó án þess að það sé truflandi. „Hún er ekkert að stilla sér upp sem sögumaður í myndinni,“ útskýrir Helgi.

Myndin á greinilegt erindi við heimsbyggðina þar sem hún beinir sjónum áhorfenda að stríðinu í Úkraínu, líkt og nokkrar aðrar heimildarmyndir hafa gert og þá einna helst 20 dagar í Mariupol sem hlaut Óskarsverðlaun sem besta heimildarmyndin í ár, auk fjölda annarra verðlauna. Helgi segir nokkuð margar myndir hafa fjallað um stríðið en þessi fjalli um ástandið hér og nú á Ásbrú. „Það eru sögur alls staðar í kringum okkur,“ bendir Helgi á.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson