Kári Freyr Kristinsson
karifreyr@mbl.is
„Við sýndum þolinmæði í síðustu samningum, það var verið að semja til árs yfir allan vinnumarkaðinn þannig að okkar félagsmenn höfðu skilning á því að það væri kannski ekki rétti tíminn, en við getum ekki beðið lengur og sætt okkur við annan samning sem er ekki meira í takt við það sem fólk er að gera sér vonir um.“
Þetta segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is en lítið hefur miðað í kjaradeilu lækna við ríkið. Er deilan meðal þeirra sjö mála sem hefur verið vísað til ríkissáttasemjara og eru í vinnslu í Karphúsinu.
Ekki búið að boða fund
Steinunn segir viðræðurnar hafa verið hjá ríkissáttasemjara frá því í byrjun apríl. Hún segir samtalið hafa verið virkt og mikið fundað. Ekki sé búið að boða til funda eftir sumarfrí hjá embætti sáttasemjara.
„Við erum bara að bíða eftir því að viðræður hefjist aftur og höldum í vonina um að við náum góðum skriði og komumst hjá því að þurfa að beita aðgerðum,“ segir Steinunn en telur að ganga þurfi frá ýmsum atriðum áður en læknar verði tilbúnir að samþykkja nýjan kjarasamning.
„Við erum að horfa til þess að þetta gæti orðið samningur til fjögurra ára eins og er búið að gera á almenna markaðnum en við getum ekki sætt okkur við að ná ekki fram okkar grunnmarkmiðum ef við ætlum að semja til svona langs tíma,“ segir Steinunn enn fremur.
Í starfsumhverfiskönnun sem Læknafélagið framkvæmdi sl. vor lýsti 81% svarenda því að læknar væru of fáir eða alltof fáir á þeirra starfsstöð.