Einn af hverjum fjórum Íslendingum var með skaðlegt neyslumynstur áfengis árið 2022, samkvæmt svörum frá Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um áfengisneyslu og áfengisfíkn í landinu

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Einn af hverjum fjórum Íslendingum var með skaðlegt neyslumynstur áfengis árið 2022, samkvæmt svörum frá Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um áfengisneyslu og áfengisfíkn í landinu.

Karlmenn eru líklegri en konur til að stunda áhættudrykkju. Þannig stunduðu 27% karlmanna áhættudrykkju á sama tíma og 21% kvenna gerði það.

Þá kemur fram í svari ráðherra að nýgengi skorpulifrar hafi áttfaldast á síðustu árum ef tölur frá árunum 1984 til 2000 eru bornar saman við tölur frá 2016 til 2020.

„Þetta er raunveruleikinn hjá okkur. Við erum að þjónusta þennan hóp sem glímir við þennan vanda og hann er mikill. Eftirspurn eftir okkar þjónustu er mikil,“ segir Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður SÁÁ í samtali við Morgunblaðið.

Anna segir að neysla áfengis sé meiri á virkum dögum en áður og nokkrir þættir valdi því að neyslumynstur Íslendinga sé að breytast. Nefnir hún til dæmis aukið aðgengi að áfengi og hvernig talað er um áfengi í samfélaginu.

„Það er ofboðslegt umburðarlyndi gagnvart áfengisneyslu og þetta þykir sjálfsagt mál,“ segir Anna en tekur fram að hún sé ekki á móti áfengisneyslu sem slíkri, heldur komi það henni á óvart hve hversdagsleg umræða um neysluna sé orðin.