Það skiptir máli að fólki líði vel á vinnustaðnum og þá þurfa ólíkir þættir að spila saman.
Það skiptir máli að fólki líði vel á vinnustaðnum og þá þurfa ólíkir þættir að spila saman.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað er það sem heillar þig við mannauðsstjórnun? „Mannauðsmál snúast fyrst og fremst um fólk og mér hefur alltaf fundist fólk áhugavert. Hvað lætur fólki líða vel og illa, hvað hvetur fólk áfram og hvernig er hægt að hámarka árangur, lífsgæði og hamingju

Hvað er það sem heillar þig við mannauðsstjórnun?

„Mannauðsmál snúast fyrst og fremst um fólk og mér hefur alltaf fundist fólk áhugavert. Hvað lætur fólki líða vel og illa, hvað hvetur fólk áfram og hvernig er hægt að hámarka árangur, lífsgæði og hamingju. Við eyðum flest svo miklum tíma á hverjum degi í vinnunni og vinna og vinnuumhverfið hefur mikil áhrif á líf okkar. Þekking. hæfni og færni í mannauðsmálum á vinnustöðum er því afar dýrmæt og mikilvæg.“

„Mér fannst vanta nokkurs konar framhaldsnámskeið“

Hvað varð til þess að þú byrjaðir með námskeiðið?

„Ég kenndi til nokkurra ára námskeið í meistaranámi hjá Háskólanum á Bifröst sem heitir Vinnusálfræði. Þar er stikað á stóru í ýmsum mannauðstengdum málum, með umfjöllun um streitu, viðhorf og tilfinningar á vinnustöðum, breytileika milli einstaklinga, sanngirni, fjölbreytileika o.fl.

Þetta námskeið er hins vegar svolítið yfirlitsnámskeið og það þarf að fara hratt yfir. Mér fannst vanta nokkurs konar framhaldsnámskeið sem færi dýpra í þætti eins og streitu, kulnun, andlega heilsu, samskipti á vinnustöðum, ágreining, tilfinningar, sveigjanleika í vinnu og fleira í þeim dúr – sem nær yfir nýjustu pælingarnar í þessum málum. Þannig varð til annað námskeið í meistaranáminu sem hlaut nafnið Vellíðan í vinnu. Námskeiðið hjá Endurmenntun byggir svo á því, er í raun og stutt og praktísk útgáfa af því.“

Fyrir hverja er námskeiðið?

„Námskeiðið er fyrir alla sem hafa áhuga á því að fræðast um hvað það er sem hefur áhrif á líðan okkar á vinnustað. Við berum öll ábyrgð á eigin líðan og með því að fræðast um hvað er mögulega að hafa áhrif á hvernig okkur líður getum við reynt að hafa áhrif til hins betra.

Auðvitað hafa stjórnendur gott af að læra það sem fram kemur á námskeiðinu en almenn meðvitund um þessa þætti er líka mikilvæg. Ef manni líður illa, hvers vegna er það og hvað get ég gert í því? Vantar mig stuðning? Finnst mér verkefnin mín erfið? Er álagið of mikið? Vantar mig úrræði? Er ég ekki að ná að tengjast fólki? Eða er heimilislífið að íþyngja mér í vinnunni líka? Það er svo margt og misjafnt sem hefur áhrif á hvern og einn og með því að læra um hvað hefur áhrif á vellíðan er hægt að rýna í hvar maður stendur sjálfur og skoða hvað þyrfti að breytast.“

„Ef fólki líður ekki vel er líka mun líklegra að það hreinlega hætti“

Er mikilvægt að taka á vanlíðan starfsfólks?

„Það er vaxandi meðvitund í samfélaginu á mikilvægi þess að huga að líðan starfsfólks og að það skipti máli hvernig fólki líður ekki bara hvort það sé ánægt í starfi eða ekki. Fólkið sem við missum út af vinnumarkaði í veikindaleyfi, sérstaklega tengd kulnun, er oftar en ekki fólk sem leið ekki vel í vinnunni.

Ef fólki líður ekki vel er líka mun líklegra að það hreinlega hætti og snúi sér að öðrum störfum. Enn aðrir halda áfram störfum þrátt fyrir vanlíðan, reyna að hundsa vandann og harka áfram. Það kann sjaldnast góðri lukku að stýra og hefur oft áhrif á aðra á vinnnustaðnum. Það er mikill ávinningur fyrir vinnuveitendur að huga að líðan fólks og byggja upp þekkingu og innsýn á vinnustaðnum.“

Hvað skiptir sköpum þegar kemur að vellíðan starfsfólks?

„Vinna er mjög stór partur af lífi flestra og það hvernig okkur líður í vinnunni hefur mikil áhrif á líðan okkar í lífinu almennt. Þegar okkur líður vel þá hlakkar okkur til að koma í vinnuna, við njótum hennar og við sinnum verkefnum okkar betur. Það eru fjölmargir þættir sem hafa áhrif á hvernig okkur líður. Sem dæmi hefur starfið sjálft mikil áhrif eins og það hvort verkefnin eru spennandi, hlutverk okkar skýrt og hvort við upplifum tilgang og merkingu í því sem við erum að gera.

Álag hefur áhrif, langvarandi álag er engum hollt og það þurfa að vera næg úrræði fyrir starfsfólk til að takast á við það. Sömuleiðis hafa sambönd og samskipti okkar við annað fólk, það sem er stundum kallað félagslegi þátturinn, stór áhrif á hvernig okkur líður. Góðir vinnufélagar og styðjandi stjórnendur eru gulls ígildi.“

Hvað er mikilvægt fyrir stjórnendur að hafa í huga á vinnustað?

„Það er mikilvægt að vera sífellt vakandi fyrir líðan fólksins okkar. Ekki gefa sér að allt sé í góðu alltaf. Ég þreytist ekki á að tala um hversu mikilvægt hlutverk millistjórnenda er í þessu sambandi. Þeir eru næstir fólkinu og þeir verða að hafa tíma, svigrúm, þekkingu og hæfni til að styðja við fólkið sitt, byggja það upp, veita endurgjöf og halda utan um hópinn sinn. Það er til mikils að vinna að byggja millistjórnendur upp til að sinna þessu mikilvæga mannauðshlutverki sem þeir hafa.“

Hvaða áhrif getur eitrað vinnuumhverfi haft?

„Eitrað vinnuumhverfi verður oft til vegna þess að einhverjum líður ekki vel, upplifir kannski óöryggi, skort á trausti, streitu eða ótta, og vanlíðan viðkomandi dreifist út til annarra á vinnustaðnum. Athuga að þetta geta bæði verið stjórnendur og starfsfólk, og ef um stjórnendur er að ræða eru áhrifin enn meiri. Þannig stigmagnast vanlíðanin inn á vinnustaðnum og þá er stundum farið að tala um eitrað vinnuumhverfi.

Áhrif þess að eitrað vinnuumhverfi fái að þrífast er t.d. aukin starfsmannavelta, minni afköst, vaxandi óánægja og fjarvistir og meiri vanlíðan innan starfsmannahópsins. Til að koma í veg fyrir slíkt þarf að vera sífellt á vaktinni, taka púlsinn á fólki, vera vakandi fyrir stemmingunni í starfsmannahópnum, styðja við hvort annað og vinna með þann margvíslega vanda sem getur komið upp á vinnustöðum hvort sem hann tengist samskiptum, verkefnum, hlutverkum, ábyrgð eða hverju sem er öðru. Það þarf að byggja upp umhverfi þar sem það má gera mistök, það má hafa mismunandi skoðanir, fólk er tilbúið að líta í eigin barm og horfast í augu við eigin veikleika, styðja við hvert annað og byggja hvert annað upp.“

Höf.: Erna Ýr Guðjónsdóttir |