Gyða Bergþórsdóttir, fyrrverandi skólastjóri og sérkennari, fæddist í Fljótstungu í Hvítársíðu í Borgarfirði 6. apríl 1929. Hún lést 4. ágúst 2024.
Foreldrar hennar voru Bergþór Jónsson, f. 1887, d. 1955, og Kristín Pálsdóttir, f. 1885, d. 1965, bændur í Fljótstungu. Systkini: Guðrún Pálína, f. 1920, d. 2015, Þorbjörg, f. 1921, d. 1981, Páll, f. 1923, d. 2024, Jón, f. 1924, d. 2018, Sigrún, f. 1927, d. 2016, og Ingibjörg, f. 1930, d. 2014.
Eiginmaður Gyðu var Guðmundur Þorsteinsson, f. 19. mars 1928 í Efri-Hrepp í Skorradal í Borgarfirði, d. 20. apríl 2019. Foreldrar hans voru Þorsteinn Jónsson, f. 1886, d. 1967, og Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, f. 1896, d. 1967, bændur í Efri-Hrepp. Börn Gyðu og Guðmundar eru: 1) Guðrún Jóhanna augnlæknir, f. 22. apríl 1953. Maki Jóhannes Guðjónsson, f. 22. nóvember 1950. Börn þeirra: a) Gauti, f. 1979. Maki Therese Ahlepil, f. 1976. Börn þeirra: Elsa María, Eyja Rún og Ari Freyr. b) Bjarki, f. 1981. Maki Daniela Cornacchia, f. 1982. Börn þeirra: Katrín Freyja, Júlía Dís og Alexandra Líf. c) Helga Sjöfn, f. 1985. Maki Jónmundur Valur Ingólfsson, f. 1981. Börn þeirra: Guðjón Valur, Una Guðrún og Jóhannes. 2) Bergþór viðskiptafræðingur, f. 25. júlí 1959. Maki Bryndís Rósa Jónsdóttir, f. 10. júlí 1957. Börn þeirra: a) Guðmundur Páll, f. 1987. Maki Lorraine Largo, f. 1986. Barn þeirra er Adrían Freyr. b) Jón Birkir, f. 1990. Maki Hildur Sif Sigurjónsdóttir, f. 1987. Börn þeirra: Bergþór Leó og Alexandra Ýr. c) Gyða Björk, f. 1991. Maki Viðar Engilbertsson, f. 1988. Börn þeirra: Stefanía Líf, Ingunn Dís og Andrea Sif.
Gyða ólst upp í Fljótstungu en þau Guðmundur hófu búskap í Efri-Hrepp árið 1953. Gyða starfaði ung sem farkennari í uppsveitum Borgarfjarðar og síðar sem barnaskólakennari á Hvanneyri. Hún lauk kennaraprófi á miðjum aldri og var eftir það skólastjóri Andakílsskóla á Hvanneyri í 15 ár. Síðan fór hún í sérkennslunám og starfaði sem sérkennari í Borgarnesi í tíu ár. Hún var organisti við Hvanneyrarkirkju í nokkur ár og við Fitjakirkju í tugi ára. Hún söng í kirkjukórum Hvanneyrarkirkju og Reykholtskirkju og seinni árin í kór eldri borgara á Akranesi. Gyða tók virkan þátt í félagsstarfi, var heiðursfélagi í Skógræktarfélagi Borgarfjarðar og Kvenfélaginu 19. júní en hún var félagi í því í nærri 70 ár og sat í stjórn í nokkur ár. Hún var formaður Sambands borgfirskra kvenna 1982-1988 og félagi í Delta-Kappa-Gamma, félagi kvenna í fræðslustörfum. Þau Guðmundur unnu bæði utan heimilis auk hefðbundins búskapar en eftir miðjan aldur fóru þau að starfa við skógrækt og landgræðslu á landi sínu, menntuðu sig sem leiðsögumenn og sinntu ýmsum verkefnum tengdum ferðamennsku. Árið 2000 byggðu þau sér hús á Akranesi og bjuggu á Akranesi upp frá því.
Útför hennar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 16. ágúst 2024, klukkan 11.
Streymt verður frá útförinni á vef Akraneskirkju.
Elsku mamma gaf mér lífið og þurfti víst að hafa heilmikið fyrir því að koma mér í heiminn, það verð ég alltaf þakklátur fyrir.
Mamma átti merkilega ævi, hún var óhrædd við að takast á við breytingar sem horfðu til framfara í hennar lífi og annarra. Á síðustu árum töluðum við mamma heilmikið saman þegar við gengum saman úti henni til heilsubótar, gjarnan var það þá gamli tíminn og uppvöxturinn í Fljótstungu sem hún sagði frá. Hún var næstyngst sjö systkina og það voru ellefu manns til heimilis á æskuheimilinu, afinn og amman, pabbinn og mamman og systkinin sjö sem fæddust á tíu ára tímabili á árunum 1920 til 1930.
Á Fljótstunguheimilinu var lagður metnaður í að börnin fengju menntun við hæfi og það gekk eftir hjá öllum þótt ekki væri það sjálfsagt á barnmörgu sveitaheimili. Áhugi mömmu á menntun var henni því í blóð borinn og hún gerði barnakennslu og skólastjórnun að aðalævistarfi sínu. Þau pabbi hvöttu okkur systkinin til að mennta okkur í því sem við höfðum áhuga fyrir og sama gilti um börnin okkar, barnabörn þeirra. Þau mamma og pabbi voru alla tíð sérlega samrýmd í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur, áhugi þeirra á að miðla til afkomenda sinna var hvetjandi fyrir okkur öll. Þegar við Bryndís komum með börnin okkar í Efri-Hrepp til ömmu og afa voru það í raun dulbúnar kennslustundir fyrir börnin um dýrin, plönturnar, fjöllin, landslagið, veðrið og allt mögulegt annað. Allt þetta var sett fram í eins konar ævintýraformi þannig að áhuginn og athyglin var óskipt hjá börnunum og allir höfðu gaman af.
Ég held að allir sem kynntust foreldrum mínum hafi notið á einhvern hátt góðs af þessari þörf þeirra fyrir að miðla og láta gott af sér leiða. Hjá mömmu birtist það í skólastarfi, kórastarfi og söng, kirkjustarfi og ýmsu öðru félagsstarfi. Hjá pabba birtist það í skógrækt, landgræðslu, smíðum, áhuga á jarðfræði og annarri náttúrufræði, ýmiss konar fræðimennsku og félagsstarfi. Þessi áhugamál samtvinnuðust síðan hjá mömmu og pabba vegna þess hve mjög þau voru samrýmd og samtaka hjón. Við vinirnir sex sem kynntumst á Bifröst og höldum enn hópinn vorum duglegir að koma í Efri-Hrepp flestar helgar þegar við vorum ungir menn. Þá var stússað með hesta, farið í útreiðartúra, í sund í Hreppslaug og tekið þátt í störfum sem til féllu, til að mynda að gróðursetja tré í Stallaskógi. Þá komu þessir eiginleikar mömmu og pabba sem áður var lýst berlega í ljós og við ungu mennirnir fræddumst um lífið og tilveruna í heimspekilegum umræðum við þau um allt milli himins og jarðar.
Takk fyrir allt, mamma mín, sem þú miðlaðir til okkar afkomenda þinna. Áhrifunum af því er ekki lokið, við tökum núna við keflinu af þér.
Bergþór Guðmundsson.
Móðir mín fór ekki alltaf troðnar slóðir og var stundum á undan sinni samtíð. Hún var sjálflærð á orgel og gegndi stundum hlutverki organista við kirkjuathafnir fyrir fermingu. Starfaði ung sem farkennari í uppsveitum Borgarfjarðar og síðar sem barnaskólakennari án réttinda en skráði sig svo í kennaraskólann á miðjum aldri og útskrifuðumst við sama vorið, hún sem kennari en ég sem stúdent frá MH. Ég hafði verið í MA í tvö ár og var ekki par ánægð með að þurfa að yfirgefa skemmtilegu heimavistina á Akureyri til að búa í Reykjavík með mömmu en það var gert til þess að þurfa ekki að dreifa fjölskyldunni á þrjá staði. Þetta fyrirgafst þó síðar þegar ég komst að því að það var líka hægt að finna skemmtilegan félagsskap fyrir sunnan. Starfaði hún eftir þetta sem skólastjóri Andakílsskóla í 15 ár en fór síðan aftur í nám, hátt á sextugsaldri, nú til að afla sér réttinda sem sérkennari og starfaði sem slíkur í Borgarnesi í 10 ár.
Foreldrar mínir voru afskaplega samrýndir og tóku þátt í flestu saman en hinn mikli áhugi á tónlist og kórastarfi var samt alfarið hennar. Honum þótti best að mæta í messur þar sem ekki þurfti alltaf að vera að standa upp, þá gat hann dottað lengur. Hann fylgdi þó alltaf með og eftir að þau fluttu á Akranes keyrðu þau saman á allar kóræfingar upp í Reykholt, allt fram að áttræðu, hún söng en hann svaf í bílnum á meðan.
Þau voru frumkvöðlar á ýmsum sviðum, tóku snemma upp nýja búskaparhætti, skógrækt og landgræðslu að ógleymdri ferðaþjónustu sem þá var nánast óþekkt hugtak í sveitum landsins. Þau fóru í samstarf við systur hennar og mág á Húsafelli um uppbyggingu ferðaþjónustu þar sem hlutverk föður míns var að byggja fyrstu sumarhúsin. Þar unnu þau bæði löngum stundum og ég man að ég grobbaði mig af því við jafnaldra að hafa verið á Húsafelli allar verslunarmannahelgar frá 11 ára aldri. Seinna á sjöunda áratugnum var Efri-Hreppur einn af fyrstu fimm bæjunum á landinu sem buðu upp á bændagistingu, ásamt Fljótstungu. Þá var unglingurinn ég settur í að annast erlenda ferðamenn og þegar ég fékk bílpróf var ég send með þá í skoðunarferðir um nærsveitir. Ein slík ferð er sérlega minnisstæð, þá fór ég með tvær þýskar konur í hellinn Víðgelmi. Var þá inngangurinn nær lokaður af ís, ég vildi ekki gefast upp og renndi mér á hliðinni eftir ís sem þakinn var vatni eftir löngum göngum þar til inn í sjálfan hellinn kom. Önnur konan fylgdi á eftir en hin var aðeins þéttvaxnari og komst ekki í gegn. Vorum við líklega síðustu gestir í Víðgelmi áður en inngangurinn lokaðist alveg af ís í rúm 20 ár. Löngu síðar tóku þau bæði rútupróf, fóru í leiðsögunám og rúntuðu um landið með erlenda ferðamenn, hann oftast bílstjóri en hún leiðsögumaður.
Móðir mín var mörgum kostum gædd. Skarpgreind, hafði óþrjótandi áhuga á tónlist, kórastarfi og alls kyns félagsstarfi. Hún var mikil áhugamanneskja um rétt málfar og málfræði og átti auðvelt með að miðla þeirri þekkingu sinni til annarra.
Afkomendur sakna hennar sárt en góðar minningar munu lifa með okkur áfram.
Guðrún J.
Guðmundsdóttir.
Hálftíræð hefur amma okkar Gyða kvatt þennan heim eftir langa og viðburðaríka ævi. Hún var hvíldinni fegin þar sem heilsunni hafði hrakað undir lokin og hún hætt að geta farið í göngutúrana sína sem henni þótti mjög vænt um og voru fastur liður í daglegu lífi á Dvalarheimilinu Höfða þar sem hún bjó síðustu árin. Þegar kostur var á vorum við systkinin ásamt fjölskyldum samferða henni í þessum stuttu en ánægjulegu ferðum sem oftar en ekki enduðu úti á Sólmundarhöfða þar sem útsýnið er ægifagurt til allra átta.
Margar af okkar bestu æskuminningum eru úr ótal heimsóknum okkar til afa og ömmu í sveitina í Efri-Hrepp í Skorradal. Þar tókum við virkan þátt í þeirri vinnu sem fyrir lá, hvort sem um áburðardreifingu, plöntun eða girðingarvinnu var að ræða. Fyrir utan að stunda útreiðar snerist mikið af störfunum í sveitinni um skógrækt, sem var ömmu og afa afar hugleikin. Þótt hjálpin sem við krakkarnir veittum hafi ekki skipt sköpum þegar afköstin voru gerð upp kenndi vinnan okkur margt og festi Efri-Hrepp í hjörtum okkar svo kirfilega að fáir staðir aðrir jafnast á við þessa paradís í huga okkar. Minnisstæðar eru vígalegar ferðir á „rússanum“ upp á heiði og ógrynni sundlaugarferða í Hreppslaug, sem á þeim tíma var opin allan ársins hring þar sem skemmtilegast var að fara að vetri til og láta ímyndunaraflið leika lausum hala í gróðri vaxinni lauginni í myrkri vetrarkvöldsins.
Fastur liður þegar í sveitina var komið voru kræsingarnar sem amma reiddi fram. Uppáhaldið voru vöfflur með rabarbarasultu en nýbakaðar pönnukökur, rabarbaragrautur og gómsæt kjötsúpa voru líka oft á boðstólum. Þegar amma og afi fluttu á Leynisbrautina á Skaganum var sama upp á teningnum, þessar uppáhaldskræsingar voru reiddar fram þegar yngri kynslóðirnar komu í heimsókn. Nýjung sem amma og afi brydduðu upp á á Leynisbrautinni var ljúffengt rúgbrauð sem bakað var í stampi yfir nótt.
Amma var mikil íslenskumanneskja og miðlaði ósjaldan úr viskubrunni sínum hvað málfræði varðar, jafnt til okkar systkinanna sem og tengdabarna og barnabarna. Henni þótti vænt um afkomendur sína og þrátt fyrir háan aldur fylgdist hún vel með hvað hver var að brasa hvar sem í heimi var.
Þótt söknuðurinn sé mikill þykir okkur systkinunum mikils virði að við skyldum fá að eiga kveðjustund með ömmu Gyðu áður en hún lést. Blessuð sé minning hennar.
Gauti, Bjarki og Helga Sjöfn.
Elsku amma Gyða hefur kvatt okkur. Hún var alltaf kölluð amma Gyða í fjölskyldunni okkar þótt hún væri í rauninni langamma okkar krakkanna.
Við eigum margar góðar minningar frá því þegar við heimsóttum hana og afa Munda á Leynisbrautinni á Akranesi. Í hvert einasta skipti sem við komum til Íslands í heimsókn frá Svíþjóð, hvort sem það var jólafrí, sumarfrí eða haustfrí, var það fastur liður að koma við í Leynó á leið í sveitina okkar. Þar var amma Gyða alltaf tilbúin með gómsæta kjötsúpu og pönnukökur. Það eina sem skyggði á var að þeir fullorðnu voru alltaf að tala um að við yrðum að smakka rófurnar. Þær voru alls ekki eins vinsælar og súpan sjálf en við létum okkur samt hafa það.
Það var líka gaman að heimsækja hana eftir að hún var flutt á Höfða. Hún átti alltaf súkkulaðirúsínur eða eitthvað annað gott í skál fyrir okkur barnabarnabörnin. Hún var mjög ánægð á Höfða. Við fórum oft með henni út að ganga í kringum dvalarheimilið og það var svo gaman að sjá hvernig hún fylgdist með breytingum á gróðrinum eftir árstíðum. Hún fylgdist alltaf mjög vel með fréttum og vissi hvað var að gerast í heiminum, hún vissi líka alltaf hvað allir í fjölskyldunni voru að gera og spurði alltaf hvernig okkur hefði gengið í öllum íþróttakeppnum sem við tókum þátt í. Hún sagði okkur oft frá lífinu í gamla daga og okkur fannst mjög gaman að hlusta á það.
Við munum öll sakna hennar mikið en það er gott að eiga góðar minningar.
Elsa María, Eyja Rún og Ari Freyr Gautabörn.
Í dag kveðjum við elsku ömmu Gyðu í hinsta sinn og minnumst allra góðu stundanna sem við systkinin áttum með henni og afa Munda.
Barnæska okkar einkenndist af tíðum ferðum í heimsókn til ömmu og afa í Efri-Hrepp, þar sem þau tóku alltaf vel á móti okkur með bros á vör, amma passaði vel upp á að allir fengju nóg að borða og þau afi sýndu okkur svo hestana, fóru með okkur í Stallaskóg, á hestbak eða bara að leika í garðinum. Í seinni tíð fluttust amma og afi á Akranes og voru þá enn nær okkur, heimsóknir á Leynisbrautina voru alltaf ánægjulegar. Amma var alltaf mjög áhugasöm um allt sem við tókum okkur fyrir hendur, hvort sem það var í námi, vinnu eða tómstundum. Fram á síðasta dag var hún alltaf áhugasöm um okkur barnabörnin og langömmubörnin og hvernig gengi í þeirra daglega lífi, í skóla og íþróttum.
Amma hugsaði alltaf vel um fólkið sitt og passaði alltaf upp á að allir fengju nægan mat og alls kyns bakkelsi þegar komið var í heimsókn, frasar eins og „viltu ekki fá þér aðeins meira?“ voru bornir upp í hvert skipti sem við komum í mat til hennar og afa. Þegar heim var komið frá útlöndum vildi hún létta undir með mannskapnum og bjóða öllum í íslenska kjötsúpu, og svo verður að minnast á vöfflurnar og sólarpönnukökurnar sem skapa sess í minningum okkar.
Amma var alla tíð mjög dugleg og á efri árum nutu langömmubörnin þess að fara með henni og afa Bergþóri í göngutúra hingað og þangað, ömmu fannst alltaf ótrúlega gaman að vera í kringum langömmubörnin á þessum stundum.
Við erum ótrúlega lánsöm að hafa haft ömmu Gyðu í lífi okkar svona lengi og að börnin okkar eiga dýrmætar minningar um elsku ömmu Gyðu.
Hvíldu í friði elsku amma.
Þín barnabörn,
Guðmundur Páll, Jón Birkir og Gyða Björk.
Að prófa, að gera, að vilja og ætla eru orðin sem samskipti velta á, tengja tónum, laða í ljóðum, una stundum hvort sem rignir eða skín og gefandi var að koma til þeirra Gyðu og Guðmundar, hjónanna í Efri-Hrepp. Fyrstu kynnin við þau Gyðu voru á Húnabraut 26, hjá Jónasi og Þorbjörgu/Doddu systur Gyðu, þar bundust tryggðabönd og halda enn. Hjónin þau norður í Björk á Blönduósi tengdu Borgarfjörð og Blöndudal með sínum kyrrláta, sterka og ljóðræna hætti. Þar kynnumst við norðanfólk Gyðu og Munda í Hrepp, listfengu félags- og ræktunarfólki í sveit.
Og kynnin jukust, ég flutti suður fyrir Kjöl, þá varð Hreppsheimilið stundum áfangi á norðurleiðinni um Dragann og þau Hreppshjón voru svo dugleg að sækja söngkvöld með Flóamönnum þegar að þeim kom og Ingibjörg systir hennar slóst í för. Alúð og elskusemi í fyrirrúmi. Og Hvítsíðingarnir frá Fljótstungu voru komnir suður yfir tvær Hvítár.
Minnisstæð er koma þeirra hjónanna í Efri-Hrepp til Jónasarljóða og laga, samkomu í Húnaveri sumarið 2013 þar sem Bergþór Pálsson söng og ýmsir heimamenn lögðu fram nokkurn skerf. Enn varð vinamót á Blönduósi er Jónasar mágs Gyðu var minnst 2016 og næsta kynslóð þeirra Fljótstungufólks mætti – auk þeirra hjónanna í Hrepp – óku norður með strætó 57 til samkomu og söngs í kirkju og kaffiveislu í félagsheimilinu.
Í síðustu Borgarfjarðarferðinni með Jónasi Tryggvasyni sumarið 1983 komum við í Efra-Hrepp, pabbi fylgdi bróður sínum suður á sjúkrahúsið, við áttum þar yndislega stund með þessum vinum okkar, en nú, 41 ári síðar, kveð ég samherja, organista og listakonu með ljóðmælum Skáldsins í Síðunni, hans Guðmundar á Kirkjubóli:
Ár líða hratt yfir himin
og heim með blæléttum þyt
það slær á þau gullinni slikju
það slær á þau silfurlit.
Ár líða hratt. Ég hefi
heyrt þeirra vængjaslög
út yfir eyðisanda
inn yfir heiðadrög.
Vorgestur minn og vinur
við verðum saman þann dag.
- Hvað varða mig vængjaslög tímans?
Hvað varðar mig sólarlag?
(GB)
Ingi Heiðmar Jónsson.
Við kveðjum nú Gyðu Bergþórsdóttur, elskulega vinkonu okkar, eftir áratuga samleið í félagi fræðslukvenna í Delta Kappa Gamma á Vesturlandi.
Gyða hefur verið dyggur liðsmaður í félagsskap okkar allt frá því við stofnuðum Deltadeildina vorið 1987. Þótt hún hafi ekki getað mætt á fundi síðustu árin hefur hún þó fylgst með okkur lengst af.
Það var skemmtilegur hópur á mismunandi aldri sem kom saman í húsakynnum Húsmæðraskólans á Varmalandi þar sem deildin okkar var stofnuð í glæsilegu umhverfi á fallegu maíkvöldi 1987. Félagskonur sem þá stýrðu landssambandi samtakanna sáu um stofnfundinn og fjölmenntu. Fundurinn var hátíðlegur og um leið fræðandi. Við Vesturlandskonur sáum því að þetta voru samtök sem hentuðu okkur til að efla okkur í fræðslustörfum og samskiptum okkar á milli. Við sáum líka að í félagsskapnum var glens og gaman inn á milli og við vorum fljótar að kynnast. Þarna var sungið, dansað og sagðar sögur og þar kynntumst við Gyðu sem var tilbúin að taka þátt í því öllu.
Félagsdeildin okkar óx og dafnaði, nýjar félagskonur bættust við en aðrir hurfu á braut. Alla tíð frá stofnfundinum stóð Gyða vaktina og gerði sig gildandi í deildinni. Hún tók fljótlega að sér að vera gjaldkeri og var það áfram í áratugi, við fundum strax að þar vorum við í góðum höndum.
En Gyða hafði líka margt annað til brunns að bera til heilla fyrir okkur í félaginu. Hún var tónlistarkona sem hafði verið organisti í kirkjum, við fengum því oft að njóta undirspils hennar þegar við þurftum þess á fundum okkar við hátíðleg tækifæri. Gyða var líka alltaf til í að útvega okkur bílstjóra þegar þess þurfti og við söfnuðumst þá saman í rútu sem maður hennar var fús að aka með okkur á áfangastað og heim aftur.
Gyða var alla tíð glæsileg kona sem bar sig vel og var tilbúin til að sinna þeim verkefnum sem hún tók að sér af kostgæfni. En nú er komið að leiðarlokum eftir langt og farsælt starf á ýmsum vettvangi. Við Deltasystur kveðjum nú Gyðu okkar og þökkum henni fyrir kærleiksríka samfylgd í öll þau ár sem við áttum samleið.
Fyrir hönd okkar Deltasystra,
Sigrún Jóhannesdóttir.
Segja má að nú sé skarð fyrir skildi er á fáum mánuðum hafa fallið frá þrír elstu félagar okkar úr hópi gömlu skólastjóranna í sveitaskólum á Vesturlandi. Fyrstur lést Sigurður R. Guðmundsson skólastjóri Leirárskóla (Heiðarskóla) fyrr á árinu, þá Hjörtur Þórarinsson skólastjóri Kleppjárnsreykjaskóla á miðju sumri og nú Gyða Bergþórsdóttir skólastjóri Andakílsskóla rúmri viku síðar. Sigurður og Hjörtur voru sannarlega frumherjar, en Gyðja styrkur samherji. Hún kom síðar en þeir til starfa, en var frá fyrstu tíð virk í sameiginlegum fundum skólastjóranna og sameiginlegum fræðslufundum og skemmtunum kennara þessa samheldna skólasamfélags. Fylgdi eftir hugmyndafræði og sérstöðu þessa einstaka menntaakurs, þar sem grunnur var lagður að frekari menntunarmöguleikum barna og ungmenna í sveitunum. Elja hennar var einstök, sérstaklega í ljósi þess að nemendur hennar tóku ekki þátt í nemendasamskiptunum í byrjun vegna þess að samskiptin miðuðust við 5. til 10. bekk, en á Hvanneyri var aðeins yngsta stigi kennt fram undir hennar síðustu ár sem skólastjóra.
Lengi vel var Gyða eina konan er sinnti skólastjórn í áðurnefndum sveitaskólum, enda oftast haft að orðtaki að hún væri „ein af okkur drengjunum“. Hún hélt því á lofti þar til konum fjölgaði í hópnum er leið á. Viðhorf hennar voru oft önnur en okkar drengjanna, og þá þörf sjónarmið og mildandi en um fram allt skynsamleg og bætandi í skólastarfi. Þar vógu þyngst áhugi hennar fyrir velferð sveita, gildi menntunar og jákvæð afstaða til fegurðar lífs og jarðar.
Rætur Gyðu Bergþórsdóttur stóðu undir efstu brekkum Borgarfjarðarhéraðs en hún var ein margra Fljótstungusystkina er þekktu auðn lands og gróðurbala af eigin raun og báru alla tíð svip þeirra aðstæðna er náttúran skóp þeim, leiðir þeirra lágu enda um ólíka skóla á manndómsárunum. Fegurð og samspils orða og tóna voru Gyðu ætíð hugleikin. Ingibjörg systir hennar samdi undurfagurt lag við yndislegt ljóð Guðmundar skálds á Kirkjubóli, en í því má finna djúpan tón við lífshlaup Gyðu er fæddist í Fljótstungu og lauk vegferðinni úti á Akranesi, eftir góð ár í Efri-Hrepp í Skorradal. Ljóðið Með vinarkveðju minnir um margt á það:
Ó, ég skyldi að þér hvísla orðum þeim á ný,
sem þér ortu' í æsku þinni ágústkvöldin hlý,
eins og golan þrálát þylja þér við eyra og kinn
vísu þá er söng þér sjálfur sumarmorguninn,
og ég skyldi um þig vefja
ástúðlega og hljótt
töfrabláma straums og strandar stjörnubjarta nótt,
angan blóms á eyðiheiði,
auðlegð fjörusands,
- ef ég gæti til þín talað tungu
hafs og lands.
Við kveðjum okkar góðu vinkonu Gyðu Bergþórsdóttur með söknuði og þökk fyrir gott samstarf, jákvæða lífssýn og glaðværð í góðra vina hópi.
Fyrir hönd skólastjórahópsins,
Guðlaugur
Óskarsson.