Tom Perriello, erindreki Bandaríkjastjórnar í Súdan, sagði í gær að hann vonaðist eftir „áþreifanlegum niðurstöðum“ úr friðarviðræðum, sem nú eru haldnar í Sviss um ástandið í Súdan.
Borgarastríð braust þar út í apríl á síðasta ári á milli stjórnarhersins, sem stýrt er af Abdel Fattah al-Burhan, og hinna svonefndu „hraðsveita“, RSF, sem Mohamed Hamdan Daglo stýrir. Viðræðurnar hófust í fyrradag, en einungis fulltrúar RSF-sveitanna hafa mætt til þeirra, þar sem yfirmenn stjórnarhersins eru óánægðir með tilhögun viðræðnanna.
Perriello lét það ekki á sig fá í gær, en sagði á samfélagsmiðlum sínum að Bandaríkin myndu áfram vinna með bandamönnum sínum að því að bjarga mannslífum í Súdan og reyna að ná áþreifanlegum árangri í viðræðunum. Bandaríkjastjórn hvatti stjórnarherinn í fyrrakvöld til þess að taka þátt í viðræðunum, en stefnt er að því að þær standi yfir í allt að tíu daga.
Fjármálaráðherra landsins, Gibril Ibrahim, hafnaði hins vegar boði Bandaríkjamanna í gær, og sagði á samfélagsmiðlum sínum að það væri í „eðli hinnar súdönsku þjóðar að hafna hótunum og ógnunum“.
Sagði Ibrahim að ríkisstjórn Súdans myndi aldrei sætta sig við viðræður, sem hún hefði verið neydd í með valdi, og að stjórnvöld myndu sömuleiðis aldrei hefja viðræður sem myndu gefa aðgerðum „ólöglegra vígasveita“ lögmæti og sess í framtíð landsins.
Sviss og Sádi-Arabía standa saman að friðarviðræðunum, og hafa Afríkusambandið, Egyptaland, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Sameinuðu þjóðirnar einnig verið skipuð í stýrihóp viðræðnanna. Stjórnarherinn hefur hins vegar sakað Sameinuðu arabísku furstadæmin um að styðja við bakið á hraðsveitum Daglos.
Markmið viðræðnanna er að koma á vopnahléi og tryggja að neyðaraðstoð geti borist til stríðshrjáðra svæða í Súdan, en borgarastríðið í landinu hefur valdið einni verstu mannúðarkrísu í manna minnum, þar sem áætlað er að rúmlega helmingur landsmanna geti soltið.
Þá hefur um fimmtungur þjóðarinnar, um tíu milljón manns, farið á vergang vegna átakanna. Áætlað er að minnst 15.000 hafi fallið í átökunum, en sagt er að sú tala gæti verið allt að tífalt hærri.