Sævar Þorbjörn Jóhannesson, fyrrverandi lögreglufulltrúi við embætti Ríkislögreglustjóra, fæddist 8. maí 1938 í Vestmannaeyjum. Hann lést á hjartadeild Landspítalans 3. ágúst 2024.

Foreldrar Sævars voru hjónin Jóhannnes J. Albertsson, lögreglumaður í Vestmannaeyjum, f. 19. nóvember 1899 á Syðri-Kárastöðum, Kirkjuhvammsheppi, V-Húnavatnssýslu, d. 4. febrúar 1975, og Marta Pétursdóttir, f. 6. apríl 1914 á Voðmúlastöðum, A-Landeyjahreppi, Rangárvallasýslu, d. 27. ágúst 1989. Systkini samfeðra voru Jóhannes Albert, f. 21.7. 1925, d. 5.2. 2001, Grettir, f. 11.2. 1927, d. 12.4. 2002, Gréta, f. 8.1. 1929, d. 12.3. 2002, Elínborg, f. 27.4. 1930, d. 21.10. 2023, Jóhanna Maggý, f. 29.5. 1931, d. 14.4. 2020, Ragnar Sigurjón, f. 30.6. 1932, d. 10.12. 2020, og alsystir Sævars var Soffía Lillý, f. 20.6. 1940, d. 9.7. 2016.

Hinn 16. október 1960 kvæntist Sævar Emmu R. Hansen Jóhannesson, f. 4. nóvember 1937 á Nesi í Austurey í Færeyjum, sjúkraliða. Foreldrar Emmu voru Tummas Johan Hansen sjómaður, f. 5. júlí 1900 í Gerðinu, Nesi í Austurey, d. 6. mars 1993, og k.h. Elsebeth Soffia Hansen, f. 20. október 1903 í Saltnesi á Austurey, d. 5. ágúst 1994.

Börn Sævars og Emmu: 1) Elsebeth, f. 23. júní 1961 í Reykjavík, stuðningsfulltrúi í Færeyjum, d. 19. október 2019, maki Oleif Gerðisá vélvirki. Þeirra börn eru: Johnleif, f. 1981, Emma María, f. 1982, Sævar Petreus, f. 1986, Andri, f. 1992, Sandra Josefina, f. 1995, og Íris, f. 2000. 2) Jóhannes Albert, f. 8. október 1962 í Reykjavík, lögmaður í Reykjavík, maki Hildur Friðriksdóttir listakona. Þeirra börn eru Hrund, f. 1992, Friðrik Húni, f. 2001, og Kári Hrafn, f. 2003. 3) Marta, f. 28. júlí 1965 í Reykjavík, grunnskólakennari í Kaupmannahöfn, hennar börn og Hjálmars Georgs Theodórssonar eru Sóley Mist, f. 1993, og Sæþór Máni, f. 2001. Barnabarnabörnin eru orðin tíu.

Sævar var gagnfræðingur frá Skógaskóla 1955, lauk námi við Lögregluskóla Reykjavíkur 1961. Lauk bréfaskólanámi í tæknilegum lögreglufræðum frá Institute of Applied Science, Chicago, Ill, Bandaríkjunum 1963. Lauk námi í fingrafarafræðum við Metropolitan Police Detective Training School og New Scotland Yard í London 1969. Lauk bréfaskólanámi við Modern Gun Repair School, Scottsdale, Arizona, Bandaríkjunum 1976. Lauk námi í tæknilegum sakamálarannsóknum við New York City Police Academy, Bandaríkjunum 1977. Sótti námskeið í samanburðarsmásjártækni hjá Leitz í Wetzlar í Þýskalandi og rannsóknarlögreglu Glasgowborgar í Skotlandi 1979. Sótti einnig námskeið fyrir yfirmenn lögreglu við Lögregluskóla ríkisins 1986, námskeið fyrir stjórnendur hjá Stjórnunarfélagi Íslands 1989 og símenntun í framhaldsdeild Lögregluskóla ríkisins 1994.

Sævar byrjaði starfsferil sinn í lögreglunni í Reykjavík 1. júní 1960 og starfaði þar til 1. ágúst 1963. Hóf þá störf hjá tæknideild rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík og vann þar uns Rannsóknarlögregla ríkisins var stofnuð 1. júlí 1977, að hann fór til starfa við tæknideild RLR þar til RLR var lögð niður, 1. júlí 1997, að hann fluttist í tæknirannsóknarstofu við embætti Ríkislögreglustjóra 1. júlí 1997. Lauk hann sínum starfsferli við tæknirannsóknir hjá embætti Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2010.

Hann verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju í dag, 16. ágúst 2024, klukkan 13.

Ég kveð elsku pabba minn í dag, Vestmannaeyinginn, rannsóknarlögreglumanninn, lestrarhestinn, fingrafarasérfræðinginn, sögunördinn og safnarann.

Já, pabbi bar ýmsa hatta eins og fyrrnefnt titlasafn ber með sér. En ef ég stikla á stóru þá man ég: Er við fórum hálfan hringinn í kringum Ísland á bjöllunni (var ekki hægt að keyra allan þá) og tjölduðum í Ásbyrgi, er við fórum á sunnudögum í bíltúr og fengum okkur ís og enduðum á höfninni að stúdera skip, er við fórum í pikknikk og berjamó upp í Heiðmörk eða við Kleifarvatn, er ég fékk að fara með þér í vinnuna og fylgjast með, já margt spennandi þar, er ég sigldi til Færeyja og þú stóðst á bryggjunni og tókst á móti mér á Toftum, er ég fór til Kaliforníu með þér og mömmu, ég 12 ára og við fórum í alla stóru skemmtigarðana, er ég var unglingur og þú sagðist, sposkur á svip, hafa séð mig á Hallærisplaninu seint um kvöld, er þú sást mig útskrifast sem stúdent, hvað þú varðst stoltur, er börnin mín fæddust og þú varðst þeim báðum samstundis góður afi, er þú komst að heimsækja okkur til Danmerkur, er við heimsóttum Bornholm, Odense, Horsens, Århus, Malmö og Ystad, er þú varðst 80 ára og við fórum saman fjölskyldan til Berlínar og þú fékkst að upplifa þá borg í fyrsta skipti, er við fórum á Þingvelli síðasta sumar og gengum niður Almannagjá verandi einu Íslendingarnir, að okkur fannst.

Það er margs að minnast og af nógu að taka, enda gott að halda í góðar minningar. Bless pabbi minn, hvíl í friði.

Þín

Marta.

Pabbi var Vestmannaeyingur, þjóðhátíðarbarn fæddur í maí 1938, og lauk sinni ævi 3. ágúst þegar Þjóðhátíð stóð yfir. Heimaey var hans heima og þangað leitaði hugurinn alla tíð, í æskuna og uppvöxt eftirstríðsáranna. Eyjamenn búsettir uppi á landi héldu hópinn, hittust fast í morgunkaffi þar sem sagðar voru gamlar sögur úr Eyjum og hlegið jafn mikið.

Pabbi var vandvirkur maður sem gagnaðist honum vel í starfi fingrafarasérfræðings rannsóknarlögreglunnar, þrjóskur nákvæmnismaður sem gafst ekki auðveldlega upp við lausn flókinna og erfiðra mála. Í hverfinu var talað um leynilögguna; hann fór til vinnu í jakkafötum með bindi og á ómerktri volkswagen-bjöllu, en við krakkarnir sáum hann aldrei klæddan lögreglubúningi nema á ljósmyndum.

Áhugamál pabba kröfðust einnig þolinmæði og útsjónarsemi. Hann keypti bækur og las mikið. Hannaði sitt eigið Ex Libris sem þykir einstaklega vel heppnað og kemur það upp í leitarvélum yfir íslensk bókamerki. Flestir sunnudagsbíltúrar fjölskyldunnar enduðu fyrir utan gluggann á Bókaverslun Snæbjarnar í Hafnarstræti þar sem áhugaverðum bókum á ensku var stillt upp til sýnis, en þar naut hann þess að virða fyrir sér það nýjasta og helsta í bókaútgáfu. Þá eru minnisstæðar ófáar ferðir í fornbókaverslanir í leit að einhverju fágæti. Pabbi hafði gert samkomulag við bóksalana um að taka til hliðar blöð, tímarit og bækur um stríðsárin á Íslandi sem var hans stóra áhugasvið. Til voru stæður af slíku efni á heimilinu. Pabbi varð hægt og bítandi einna manna fróðastur um allt sem viðkom hernáminu á Íslandi. Vitneskja hans lifir áfram í ýmsum bókum sem komið hafa út um hernámsárin. Höfundar þeirra áttu hauk í horni þar sem pabbi var.

Pabbi var safnari, sá gildi í hlutum sem aðrir vildu helst kasta. Þegar rannsóknarlögreglan flutti ítrekað á milli staða fór fram tiltekt og fleygja átti hlutum. Margt af þessu brottkasti rataði heim til okkar. Þekktasti einstaki gripurinn er sjálfsagt „Leirfinnur“ sem pabbi varðveitti í um 40 ár, en mun nú vera kominn í vörslur Þjóðminjasafnsins. Þetta spurðist út og ófáir höfðu samband þegar eitt og annað kom í ljós við tæmingar og tiltektir í geymslum. Okkar heimili fylltist smám saman af þessu gulli þótt ekki væri plássið mikið fyrir. Við bjuggum því ávallt þröngt í nábýli við þessar gersemar, ekki alltaf sátt en létum okkur hafa það; vísasta leiðin til að bólusetja börn fyrir söfnunarbakteríu. Löngu síðar fórum við að kunna betur að meta ástríðu pabba fyrir munum frá þessum horfna heimi úr sögu þjóðar. Á fjölsóttri sögusýningu árið 2003 í tilefni af 200 ára afmæli löggæslu á Íslandi þekktum við aftur gömlu munina sem umlukt höfðu okkur í æsku. Að henni lokinni var öllu pakkað í kassa aftur og komið fyrir í geymslum. Draumur pabba var alltaf sá að sjá minjasafnið komast í öruggt skjól, að Lögregluminjasafnið fengi varanlegan samastað.

Hann var byrjaður að gera ráðstafanir með sumt, færa sitt persónulega safn yfir til Lögregluminjasafnsins. Nú er minjavörðurinn allur og það verður annarra að gera það sem á vantaði til að draumurinn gæti orðið að veruleika.

Hér verður engu lofað, en við sjáum til pabbi. Þú skalt fara áhyggjulaus í þína hinstu siglingu, við hin komum síðar og færum fréttir af því hvernig allt fór að lokum.

Jóhannes Albert.

Elsku afi Sævar kvaddi okkur fjölskylduna aðfaranótt 3. ágúst. Það var mér bæði ljúft og skylt að vera við hlið hans síðustu stundirnar, því hann hefur alla tíð verið mér einstaklega kær.

Mér hlotnaðist í vöggugjöf sú gæfa að eiga margar ömmur og afa, sem öll tóku þátt í að móta mig og elska, hvert á sinn hátt. Afi Sævar var kærleiksríkur og fyndinn, sögumaður sem gaf sér tíma til þess að fræða mig um heima og geima og bíókall sem hafði áhuga á kvikmyndum og þáttum eins og ég. Í minningunni leið ekki sú vika í minni æsku að ég hitti ekki ömmu og afa, annað hvort á heimili þeirra, þar sem við skoðuðum blöðin og horfðum á fréttirnar, eða í bíltúrum, sem enduðu gjarnan í Kolaportinu, á söfnum eða í heimsóknum hjá ættmennum. Litla ég var stolt af því að vera tekin alvarlega, þau hlustuðu á mig og fannst það sem ég hafði að segja merkilegt. Ég er ekki frá því að þessi ást þeirra sé með því besta sem lifir áfram í mér: stoltið og gleðin yfir því að hafa tengst hvert öðru.

Við afi áttum gott og innilegt samband, þrátt fyrir að vera ólík og stundum ósammála. Þá gerðum við gjarnan góðlátlega grín hvort að öðru, körpuðum með bros á vör, og enduðum oft á að hlæja að vitleysunni í okkur. Þegar ég átti erfiðan tíma í grunnskóla var það eins og að koma í örugga höfn að koma til ömmu og afa, sem tóku mér alltaf fagnandi og höfðu áhuga á mínum skoðunum. Við afi áttum þá stundum til að fara bara tvö saman á Kaffivagninn, þar sem við deildum risasneið af súkkulaðiköku og hann sagði mér frá bátunum í höfninni, stríðsárunum, lögreglunni, Vestmannaeyjum og Færeyjum. Ég sagði honum þá frá hinu og þessu sem ég hafði lært í skólanum, bókum og myndum sem mér þóttu skemmtilegar, og þannig gátum við talað tímunum saman. Þessar minningar eru mér sem gull.

Eftir að við fjölskyldan fluttum til Danmerkur hefði sambandið geta breyst, en sú varð ekki raunin. Ég heimsótti ömmu og afa mikið, gisti hjá þeim í fríum og bjó hjá þeim í hálft ár milli háskólagráða erlendis. Þau voru einnig dugleg að koma að heimsækja okkur, fögnuðu með okkur bróður mínum þegar hinir ýmsu lífsáfangar náðust, og voru alltaf jafn stolt og glöð með okkur. Mér er einstaklega minnisstæð ferðin sem við fórum í saman til Berlínar í tilefni þess að afi varð áttræður, en það var ákveðin pílagrímsför fyrir mann með mikinn áhuga á sögunni. Þar náðum við enn einu sinni að skoða, ræða og hlæja, og ég veit að þessi ferð var afa mjög dýrmæt. Þá eru ótaldar ferðir okkar til Færeyja, Vestmannaeyja og um Danmörku og Svíþjóð, en við höfðum gaman af því að ferðast saman.

Nú tekur við mikil breyting, en eftir að ég flutti heim til Íslands aftur hef ég viljað verja sem mestum tíma með ömmu og afa. Að geta átt náið samband við forfeður sína er mikil gjöf og mun ég áfram vera ömmu sem næst, þar sem við getum stutt hvor aðra í sorginni sem fram undan er. Þá munum við eflaust rifja upp margt sem var brallað, með kærleika og þakklæti efst í huga.

Takk, elsku afi, fyrir ástina, hláturinn, þrasið og bíltúrana. Ég mun alltaf sakna þín.

Sóley Mist Hjálmarsdóttir.