Elstu menningarminjar mannsins eru grafreitir steinaldarmanna, sem létu sér annt um hvernig búið væri um lík ástvina. Um það eru margvíslegar siðvenjur, sem margar hafa fylgt manninum án verulegra breytinga frá örófi alda.
Hér á Íslandi er sömu sögu að segja – kuml og haugfé úr heiðnum sið eru grundvallarheimildir um upphafssögu þjóðarinnar – enda segir umbúnaður um látna mikið um menningu okkar og mennsku. Okkur er umhugað um það og treystum því að svo verði að okkur gengnum.
Viðtal við Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóra Kirkjugarða Reykjavíkur, hefur vakið nokkur viðbrögð. Þar komu fram þau tíðindi að krossinn hefði verið fjarlægður úr merki þeirra, að innan sjálfseignarstofnunarinnar væru uppi vangaveltur um að finna annað orð en „kirkjugarða“ og brydda upp á ýmsum nýjungum öðrum.
Allt vekur þetta spurningar. Erindi kirkjugarðanna hefur legið nokkuð ljóst fyrir, en ekki hægt að segja að í þjóðfélaginu hafi verið uppi háværar raddir um breytingar á því.
Sjálfsagt hefur flestum orðið starsýnt á þá ákvörðun að láta krossinn víkja og setja stílfært laufblað í staðinn, sem hefur enga sérstaka skírskotun. Að sögn framkvæmdastjórans endurspeglaði „gamla merkið“ (krossinn) ekki ný gildi og því mátti það fjúka. Kirkjugarðarnir þyrftu að þróast í takt við breytta tíma.
Rétt er það, að krossinn endurspeglar ekki ný gildi. En það er einmitt lóðið, hann er tákn eilífra gilda.
Laufið á víst að tákna samþættingu náttúru og minninga, en innblásturinn sögð gildin virðing, fagmennska, umhyggja og liðsheild. Skírskotunin er mjög óljós, þessi ákaflega almennu og útjöskuðu „gildi“ gætu allt eins átt við um snyrtistofu eða malbikunarstöð.
Ekki er ljóst af hverju kirkjugarðarnir ættu að þróast í takt við breytta tíma. Þeir eru einmitt tenging við eilífiðina, hið liðna og framliðna; þangað leitar fólk á sínum viðkvæmustu og sammannlegustu stundum, eins nú og fyrir þúsund árum.
Það hljómaði því einkennilega að „áður fyrr“ hafi hávaði og læti verið illa séð í kirkjugörðum, en nú væru þeir sem hver annar almenningsgarður, tilvaldir til viðburða. Samrýmist það almennum hugmyndum um kirkjugarða og grafarró? Það er a.m.k. ekki í góðu samræmi við lögin.
Síst fer það þó saman við friðhelgi þeirra, sem þar hvíla fyrir, þeirra sem þar vildu vera lagðir í vígða mold undir krossins merki, hvort sem einhver minnist þeirra enn eða ekki.
Sagt var að heiti kirkjugarðanna yrði óbreytt „að sinni“ en framkvæmdastjórinn ítrekaði að Kirkjugarðar Reykjavíkur væru sjálfseignarstofnun, ótengd trúarfélögum.
En í stjórninni sitja fulltrúar hverrar sóknar í Reykjavík, ekki aðeins þjóðkirkjunnar, auk Ásatrúarsafnaðarins og jafnvel Siðmenntar, sem kippa sér ekki upp við að sinna „kirkjugörðum“. Á þeirra vegum eru líka sérstakir skikar fyrir fólk af trúarbrögðum svo sem búddatrúar og íslamstrúar, auk óvígðrar moldar fyrir þá sem standa utan trúfélaga.
Óljóst er því hvaðan hugmyndir um nafnbreytingu eru sprottnar. Kirkjugarðarnir verða að skýra frá því hvaðan ákallið um það er komið; ákall sem enginn hefur áður heyrt.
Frómt frá sagt virðist ekki vera mikil hugsun þar að baki. Eða áþján að eiga ekki annað orð en kirkjugarð um vora hinstu hvílustaði, en samt spurði framkvæmdastjórinn: „Á þetta að heita kirkjugarður? Á þetta að heita minningarreitur? Grafreitur?“
Spurningin er áhyggjuefni. Kirkjugarðarnir starfa samkvæmt lögum um kirkjugarða, svo þar kemur skýrt fram hvað þeir eiga að heita. Það væri í verkahring Alþingis að breyta því, ekki stefnumótunarhóps Kirkjugarðanna.
Tillögurnar gegna furðu, því „minningarreitir“ eða „grafreitir“ hafa aðra og ákveðna merkingu í fyrrgreindum lögum. Getur verið að Kirkjugörðum Reykjavíkur sé ókunnugt um efni þeirra?!
Kristin trú hefur verið samofin sögu þjóðarinnar í meira en árþúsund. Svo er enn þótt landsmenn séu ekki allir kristnir og ekki allir miklir trúmenn. En það er engin ástæða til þess að hrófla við því að fólk sé áfram grafið í kirkjugörðum eða stofnanir um rekstur þeirra heiti svo. Hvað þá að krossinn sé afmáður úr merkinu af tillitssemi við ímyndaða viðkvæmni annarra.
Mætti ekki eins finna að öllum þessum krossum í kirkjugörðum landsins? Eða á sáluhliðum þeirra? Væri þá ekki vissara að spretta krossinum upp úr þjóðfánanum líka? Nei, þjóðin og tungan á sér sögu og sið, sem ber að virða og rækta fyrir lifendur og dauða.