Geir Áslaugarson
geir@mbl.is
Fjórðungur landsmanna féll árið 2022 undir þá skilgreiningu að vera með skaðlegt neyslumynstur áfengis. Fjöldi lítra á íbúa hækkaði um 0,9 millílítra á tíu ára tímabili frá árinu 2013 til ársins 2022 og rúmlega helmingur karlmanna á landinu varð ölvaður að minnsta kosti einu sinni í mánuði árið 2022. Þetta kemur m.a. fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um áfengisneyslu og áfengisfíkn í landinu.
Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður SÁÁ segir tölfræðina ekki koma sér á óvart: „Þetta er raunveruleikinn hjá okkur. Við erum að þjónusta þennan hóp sem glímir við þennan vanda og hann er mikill. Eftirspurn eftir okkar þjónustu er mikil.“
Árið 2022 voru 27% karla sögð stunda svokallaða áhættudrykkju og 21% kvenna. Anna bendir á að þeim sem leita til SÁÁ fjölgi ekki endilega, heldur hafi neyslumynstur Íslendinga tekið breytingum og leitt til þess að þeir sem leita til SÁÁ koma til þeirra í verra ásigkomulagi en áður: „Það er orðinn meiri félagslegur og heilsufarslegur vandi og fólk er veikara þegar það kemur inn til okkar.“
Samkvæmt svari ráðherra hefur nýgengi skorpulifrar áttfaldast á síðustu árum ef tölur frá árunum 1984 til 2000 eru bornar saman við tölur frá árunum 2016 til 2020. Nýgengi skorpulifrar var 0,77 á 100.000 íbúa á árunum 1984 til 2000. Á árunum 2016 til 2020 var nýgengi 6,1 á 100.000 íbúa. Anna segir Íslendinga drekka meira á virkum dögum og að dagleg neysla áfengis færist í vöxt. Á árum áður hafi drykkjan frekar afmarkast við helgar.
Að mati Önnu útskýra samfélagsbreytingar breytt neyslumynstur. Margir samhangandi þættir spila þar inn í, meðal annars hvernig talað sé um áfengi í samfélaginu og aukið aðgengi að því. Á árunum 2013 til 2023 fengu 6.940 manns greiningu fyrir geð- og atferlisraskanir af völdum áfengis. Frá 2013 til 2022 fengu 5.983 einstaklingar greiningu fyrir geð- og atferlisraskanir af völdum áfengis, þannig fengu tæplega þúsund manns greiningu á milli ára frá 2022 til 2023.
Þarf alltaf að vera vín?
„Það er ofboðslegt umburðarlyndi gagnvart áfengisneyslu og þetta þykir sjálfsagt mál,“ segir Anna en tekur fram að hún sé ekki á móti áfengisneyslu sem slíkri, heldur komi spánskt fyrir sjónir hve hversdagsleg umræða um neysluna sé orðin.
„Það er eins og þetta sé orðin eins og hver önnur neysluvara, en það er ekki svo. Þegar þú drekkur áfengi þá fara hömlurnar þínar og þú missir stjórn á þér. Það ráða ekkert allir við það.“
Anna segir það vitað að aukið aðgengi kallar á aukna neyslu: „Mér finnst við þurfa að hugsa djúpt um í hvaða átt við erum að fara og hvort alls staðar þurfi að vera vín.“