Hörður Jón Fossberg, upphaflega Hörður Pétursson, fæddist 7. mars 1931. Hann lést 10. ágúst 2024 á Landspítalanum eftir einnar viku veikindi.
Hörður fæddist á Ránargötu 10 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Sveinbjörg Sigfúsdóttir, f. árið 1900, uppalin í Reykjavík, og að því er allir héldu Pétur Hoffmann Salómonsson frá Drápuhlíð í Helgafellssveit, f. 1897. Systkini Harðar sem komust á legg voru Margrét, Gunnar, Pétur, Elín, Nanna, Margot og Svava. Þau eru öll látin.
Eftirlifandi eiginkona Harðar er Helga Sigurðardóttir, f. 1933. Fyrri eiginkona Harðar var Birna Björnsdóttir, f. 1927, d. 2005, og barnsmóðir á undan henni var Sigríður Brynjólfsdóttir, f. 1929, d. 2000. Hörður eignaðist fjögur börn. Elstur er Hörður Fossberg, f. 1953. Hann er kvæntur Maríu Guðnýju Guðnadóttur. Þá kemur Sigurður Pétur, f. 1955. Kona hans er Kristjana Sigrún Pálsdóttir. Sá þriðji er Bjarki, f. 1960, kvæntur Þórdísi Einarsdóttur, og loks Dögg, f. 1965, gift Fjalari Frey Einarssyni. Sonur Helgu er Árni Elísson, f. 1954, hans kona er Sólrún Friðbergsdóttur. Afkomendahópurinn er fjölmennur.
Hörður ólst upp í Austurbænum í Reykjavík, gekk í Austurbæjarskólann og var í sveit á sumrin. Lífsbaráttan var hörð á þessum árum og lærði Hörður ungur að vinna.
Árið 1951 lánaðist honum að komast í nám í húsgagnabólstrun hjá Kristjóni Tromberg húsgagnabólstrarameistara. Eftir hálfs árs nám veiktist meistarinn og rak Hörður þá bólsturverkstæðið í hálft ár einsamall. Ekki þótti sveinafélaginu stætt á að nemi á fyrsta ári gæti staðið fyrir fagvinnu og framleiðslu þannig að Hörður varð að finna sér annan stað í náminu. Árið 1953 fékk hann samning hjá Bólsturgerð Ingimars Jónssonar. Fagmeistari þar var Kristján Sigurjónsson, umtalaður fagmaður, en þar voru framleidd þá einhver glæsilegustu húsgögnin á markaðnum. Hörður vann þar út námstímann og lauk námi 1955. Þessi menntun varð honum til mikillar gæfu. Hann stofnaði Bólstrun Harðar Péturssonar og hóf síðar innflutning á húsgögnum. Upphaflega verslunin var á Laugavegi 58a en fluttist síðar á Grensásveg 12 þar sem nafni fyrirtækisins var breytt í H.P. húsgögn. Frá Grensásvegi var verslunin flutt í Ármúla 44 þar sem Hörður starfaði til ársins 2003 er hann lét af störfum og seldi fyrirtækið.
Hörður var vandvirkur handverksmaður, víðlesinn, sögufróður og hagmæltur. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Kiwanishreyfinguna, íþróttafélagið Fram, Kaupmannasamtökin og Félag húsgagnabólstrara. Þá var hann félagi í Golfklúbbi Ness og Frímúrarareglunni.
Hann var kominn fast að níræðu þegar hann hóf leit að uppruna sínum. Ýmsir atburðir frá uppvaxtarárum hans gerðu að verkum að hann efaðist um að hann væri rétt feðraður. Hann lét þó dragast að fara í DNA-próf uns öll systkini hans voru látin. Niðurstaðan leiddi í ljós að faðir Harðar var Gunnlaugur Jónsson Fossberg, f. 1891, d. 1949.
Útför Harðar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 16. ágúst 2024, klukkan 13.
Löngu farsælu lífi er lokið. Nú er slitinn naflastrengur. Vænghaf pabba var svo óendanlegt. Hann gafst aldrei upp. Líkaminn var „bara“ búinn. Stundin óumflýjanleg, óneitanlega fylgir mikill sársauki.
Sum verka hans þekkjum við en fleiri þeirra ekki. Orð vina minna um mannlýsingu pabba. Merkur maður, mannþekkjari, farsæll í viðskiptum, þekkti kjarna frá hismi og laðaði að sér gott samferðafólk. Honum þótti vænt um fólk og var alltaf tilbúinn til að greiða götu þess, mátti illa aumt sjá án þess að styðja við. Hann var rausnarlegur í öllum sínum athöfnum og lét aldrei standa upp á sig. Heill og sannur. Það að eiga svona fyrirmynd og vera svona lánsamur með genabúskapinn er eitthvað sem þakka skal fyrir í bænum sínum.
Pabbi var trúaður maður og hélt sín heit. Hann var sístarfandi bæði í Kiwanishreyfingunni og í Frímúrarareglunni. Áhugamál hans voru óþrjótandi. Hann spilaði innanhússknattspyrnu fram undir sextugt, var einstaklega flinkur í knatttækni og einhverju sinni hélt hann bolta á lofti í á fimmta hundrað skipti. Hann var blár í gegn, Knattspyrnufélagið Fram var hans vettvangur í áratugi, fyrsti formaður knattspyrnudeildar, sá um þjálfun, árshátíðir, skoraði fyrsta markið í íslenskri bikarkeppni og það frá miðju. Þar eignaðist hann þéttan vinahóp sem hittist vikulega í áratugi og spilaði bridge. Á efri árum tók golfíþróttin við. Hann gekk í Golfklúbb Ness að undirlagi Gunnars bróður síns. Þar dró hann áfram eldri félaga, sótti þá og þeir löbbuðu á veturna í æfingaskýlinu. Hann fór með Helgu sína í golfferðir erlendis sumar og haust til að lengja tímabilið og njóta lífsins.
Pabbi var mjög farsæll og vinsæll viðskiptamaður. Hann rak fyrirtækið sitt HP húsgögn í 49 ár og útskrifaði marga bólstrara. Ef hann sá fólk utan opnunartíma horfa inn um gluggana þá bauð hann því inn og seldi því jafnvel eitthvað. Hann lánaði oft fólki húsgögnin heim til að máta þau, að kostnaðarlausu. „Ef þú eignast góðan hlut þá mundu hvar þú fékkst hann.“ Pabbi auglýsti öðruvísi en aðrir. „Gangið ekki framhjá þegar þið gangið framhjá,“ og eina sólardaginn sumarið '73 var „lokað vegna veðurs“. Hann átti fyrstu leiknu sjónvarpsauglýsingarnar, var stórtækur í húsgagnainnflutningi, var með mörg umboð m.a. fyrir hótelhúsgögn. Allt í hæsta gæðaflokki, aðgreining var lykilorð. Var húsgagnakaupmaður emeritus að eigin sögn.
Eignaðist marga erlenda vini sem heimsóttu hann, fóru með honum í laxveiði. Laxá í Aðaldal var hans uppáhalds á, þar dró hann margan stórfiskinn. Á 88. aldursári lét hann byggja fyrir sig þrjú raðhús við Árnes. Hann vantaði eitthvað meira til að hugsa um. Þegar Margot systir hans dó fengum við undarlega heimsókn sem endaði með leiðréttingu og faðernismáli. Níræður mættur í héraðsdóm og „ég var barnið“, sagði hann, og er Fossberg. Pabbi var víðlesinn, hagmæltur og kunni ljóðin utanbókar.
Elsku pabbi, ég þakka umhyggjuna, handleiðsluna og kveð með vísunni þinni.
Ein dýpsta gæfa í geði manns,
er glaðlegt bros í fari hans.
Af lítilmagna bera blak
og binda orð við handartak.
Bjarki Harðarson.
Dýpsta sæla og sorgin þunga
svífa hljóðlaust yfir storð.
Þeirra mál ei talar tunga,
tárin eru beggja orð.
(Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum)
Langri ævi er lokið. Eftir stöndum við sem elskuðum, full þakklætis. Lífið meitlar manninn og mannkostir pabba urðu ekki til í tómarúmi. Hann þurfti að hafa fyrir hlutunum og stundum færði lífið honum verkefni sem hann bað ekki um og hann langaði ekki að takast á við, en gerði það samt. Það voru einmitt þrengingarnar sem gerðu hann þrautseigan og þolgóðan. Hann hafði lært að af engu kemur ekkert og þess vegna hvatti hann okkur afkomendur sína aftur og aftur með orðunum: „Ekki gera ekki neitt.“
Pabbi var víðlesinn og sögufróður. Ekki alls fyrir löngu sagðist hann ekki muna hvort hann hefði lifað ein aldamót eða tvenn. Hann hafði lesið svo mikið um aldamótin 1900 að honum fannst hann hafa lifað þá tíma. Eitt sinn spurði hann mig hvort ég vissi hvernig breiddin á Laugaveginum hefði verið ákveðin. Í framhaldi fékk ég fræðslu um hversu mikilvægt hefði verið að tveir fullhlaðnir skreiðarhestar gætu mæst þar.
Pabbi átti styrkleika á mörgum sviðum en vænst þykir mér um kærleika hans og visku. Þegar á móti blés var svo dýrmætt að geta farið til pabba og rætt málin. Hann hafði lifað svo lengi, séð svo margt og einhvern veginn komist í gegnum allt sem varð á vegi hans. Hann gafst aldrei upp, lagði aldrei árar í bát og hélt áfram fram í andlátið. Það er kveðjan hans til okkar í dag. Haltu áfram, sama hvað.
Elsku pabbi, takk fyrir allt. Hittumst á himnum.
Þín elskandi dóttir,
Dögg.
Eftir ríflega þrjá áratugi er komið að leiðarlokum… í bili. Tengdapabbi ólst upp í fátækt. Hann sagði mér frá því að þegar hann var ungur byrjaði hann daginn á að brjóta klakaskán af þvottafatinu til að þvo sér í framan áður en hann rölti niður á höfn í þeirri von að fá vinnu, þann daginn. Hann gerði sér grein fyrir að þetta yrði hlutskipti hans ef hann breytti engu enda viðkvæðið hjá honum: „Aldrei að gera ekki neitt.“ Hann ákvað því að fara í nám því hann vissi að mennt er máttur. Í þá daga var ekki hægt að velja og hafna. Það varð einfaldlega að þiggja það sem gafst. Honum bauðst að læra húsgagnabólstrun sem hann þáði. Það varð honum mikið gæfuskref.
Tengdapabbi var alla tíð harðduglegur og gaf aldrei neitt eftir. Hann lenti í ótal líkamlegum áföllum og þurfti að skipta um flesta liði sem hægt er að skipta um. Þrátt fyrir að vera draghaltur síðustu árin var alltaf haldið áfram. Þegar við fórum nýlega saman að versla í IKEA bauð ég honum hjólastól þar sem ég sá ekki fram á að komast í gegnum alla ranghala verslunarinnar með hann svona hræðilega haltan, dragandi annan fótinn á eftir sér. Hann hélt nú ekki. Greip innkaupakerru og notaði hana sér til stuðnings. Hann lét það aldrei eftir sér að gefast upp, áfram gakk.
Allt sem hann gat gert gerði hann sjálfur og var ekkert að biðja um aðstoð. Það var ekki fyrr en á síðustu árum sem hann þáði aðstoð við það sem hann réð ekki almennilega við svo sem að skipta um sprungnar ljósaperur. Í þau skipti sem ég hjálpaði honum tók hann í höndina á mér og sagði „einn geymdur“. Þannig þakkaði hann fyrir sig en það var ábyggilegt að eftir öll árin skuldaði hann mér ekki neitt.
Mikil fyrirmynd er horfin á braut. Stórt skarð hefur myndast sem ekki verður fyllt. Elsku tengdapabbi. Þökkum og brosum. Einn geymdur.
Þinn
Fjalar.
Elsku afi minn.
Þá rann stundin upp. Stundin sem enginn bjóst við að myndi líta dagsins ljós. Þú horfðir nefnilega alltaf bara í eina átt, þú horfðir áfram. Það var sama hversu flókið verkefni þú fékkst í fangið, þú leystir það alltaf eða eins og við myndum segja í golfinu: þótt þú lentir í bunker þá bjargaðir þú alltaf parinu.
Á svona stundu rifjast upp margar góðar minningar en þær dýrmætustu á ég af Nesvellinum þar sem þér leið hvað best. Þá var ég oftast á sláttuvél og þú að spila golf með „strákunum“. Það klikkaði ekki, sama hvernig viðraði gat ég alltaf treyst á að hitta þig og félagana á golfbílunum. Veðrið var bara eins og golfið, „stundum og stundum ekki“. Þegar við sáum þitt holl á brautinni keyrðum við vinnufélagarnir út í kant og fylgdumst með töktunum. Einn morguninn hittumst við á fyrsta teig, þú í fallega rauðri peysu, svo flottri að samstarfsfélagar mínir höfðu orð á því við mig. Eftir teighöggið þitt hoppaði ég inn í skála en einungis augnabliki síðar, eða þegar þú varst að undirbúa þig undir högg tvö, kalla vinnufélagar mínir á mig: „Hörður, flotta peysan hans afa þíns er ekki lengur rauð, heldur blá!“ Það sem eftir lifði vinnudagsins sat ég fyrir svörum þar sem samstarfsmenn mínir veltu fyrir sér: Hvernig gat afi þinn verið svona snöggur að skipta um peysu? Hvers vegna var hann með aukapeysu meðferðis og síðast en ekki síst, af hverju skipti hann yfirhöfuð um peysu? Eftir þetta snerust vinnudagarnir hjá starfsmönnum golfvallarins um að fylgjast með afa og sjá í hvaða glæsilegu fötum hann kæmi á völlinn og svo hvort litur fatnaðarins tæki að breytast á hringnum. Afi var alltaf með stílinn upp á tíu, hvort sem það var á golfvellinum eða í hversdagsleikanum.
Afi var ótrúlega vel lesinn og hafði þann kost umfram aðra að hafa áhuga á öllu því sem maður var að gera. Hann spurði alltaf frétta af stelpunum mínum, hvernig gengi í vinnunni og í spileríinu um helgar. Ef það var brjálað að gera á öllum vígstöðvum brosti sá gamli – þannig áttu hlutirnir að vera. Það sem ég dáðist alltaf að í fari afa var hlýjan og gleðin, en brosið var aldrei langt undan og húmorinn alltaf á fyrsta farrými (247, aldrei heyrt hann áður).
Afi, þú varst einstakur maður með aðdáunarvert hugarfar og fallega sýn á lífið. Ég held fast í öll góðu samtölin, heimsóknirnar til þín og ömmu Helgu í Hörgshlíðina og Borgartúnið, matarboðin í Tjarnarmýri og Árnesi og síðast en ekki síst minningarnar af golfvellinum. Eftir að hafa unnið alla sigrana, komið þér alltaf upp úr glompunni, þá var púttið á 18. of langt til að vera gefið. Ég sakna þín, takk fyrir allt.
Hörður Bjarkason.
Kærar þakkir frá okkur hjónum fyrir samveruna í þessu lífi, til hins ágæta frænda míns og móðurbróður, Harðar Péturssonar, með þessum eftirfarandi fátæku orðum.
Kveðjum við þig nú kæri Hörður sem ert nú dáinn og farinn yfir móðuna miklu sem enginn veit hvað geymir eða ekki geymir. Sjálfur er ég á leiðinni þangað og þá kannski hittumst við þar í móðunni á einhverri svífandi strætóstöð, og þá veit ég að verða fagnaðarfundir.
Þú, frændi sæll, ert síðastur af sjö systkina hópi til að yfirgefa þetta líf. Mamma var elst í röðinni en þú varst næstyngstur.
Sjálfur var ég baldinn strákpjakkur, held um átta ára þegar fyrsta minningin um þig festist ærlega í mínum huga.
Og vandamálið var ég, og það kom ekki til af góðu að mamma í örvæntingu sinni kallaði á þig til að hjálpa sér við að klæða mig úr fötunum inni á baði og koma mér í baðkerið.
Ég man svo vel eftir stimpingunum, og þú hélst mér í járngreipum meðan mamma klæddi mig úr, en svo þegar í baðkerinu loks var lentur var það bara ósköp þægilegt.
Þú minn kæri lærðir ungur húsgagnabólstrun, stofnaðir snemma á lífsleiðinni fyrirtæki, Bólstrun Harðar, í litlu bakhúsi á Laugavegi 52, bak við gömlu Drangey. Uppi var verkstæðið en niðri var verslunin.
Kom ég þangað strákguttinn oft til að heimsækja þig og þá góðu menn sem fóru fljótt að starfa með þér. En þarna á verkstæðinu má segja að ég hafi fengið mín fyrstu kynni af vinnu.
Þú kenndir mér að tæta hamp, strekkja borða og negla striga og sauma gorma.
Þú varst laginn bólstrari, og varst með gott nef fyrir viðskiptum, og þegar þú byrjaðir að framleiða svefnsófana þá þurftuð þið á verkstæðinu virkilega að spýta í lófana.
Í lífinu sem og í viðskiptum er ólgusjór og brim alltaf annað veifið og ganga þá hlutirnir ekki alltaf á besta vegu, en alltaf komst þú standandi niður og hélst áfram af þinni þrautseigju. Þú varst alltaf harðduglegur og lunkinn forstjóri í þínu starfi. HP húsgögn fæddust síðan í Ármúlanum, og ansi lengi var það ein stærsta og fallegasta húsgagnaverslun í borginni, og þú rakst hana af myndarskap.
Svona að endingu, ágæti frændi, er heilmikill missir að þér og í mínum huga tómarúm sem aðeins tíminn einn lokar smám saman.
Í hvert skipti sem við hjónakornin heimsóttum ykkur hjónin í Borgartúnið tókuð þið alltaf vel á móti okkur, alltaf skemmtilegt spjall yfir kaffi og meðlæti, og það ekki af verri endanum.
Blessuð sé minning þín elsku frændi og megi þín ljúfa eftirlifandi eiginkona Helga finna frið og einnig sálarstyrk á þeim erfiðu stundum sem fram undan eru og sem fylla líf hennar þessa dagana við þennan mikla missi. Besta kveðja frá þínum gamla frænda og rakara.
Jóhann L. Helgason og Kristín Sigurðardóttir.
Við systkinin erum stolt af að hafa eignast Hörð Jón Fossberg Pétursson fyrir móðurbróður. Við fréttum fyrst af tilvist hans fyrir fjórum árum. Mikið hefði nú verið gaman að vita af þessum glæsilega frænda okkar fyrr.
En við erum þakklát fyrir kynnin þótt stutt væru og ómetanlegt fyrir okkur að vera kynnt fyrir nýju fjölskyldunni á samkomu sem Hörður og börn stóðu fyrir á Nauthóli með miklum sóma í ágúst 2022. Hörður var alveg einstaklega sviphreinn og elskulegur maður.
Móðir okkar, Hanna Fossberg, var líka falleg og góð kona. Hún var tíu árum eldri en Hörður en frétti aldrei af hálfbróður sínum. Við vildum óska að þau hefðu þekkst; vinátta þeirra hefði orðið heil og sterk. Hugsið ykkur hvað heimurinn er lítill; þau bjuggu bæði í Hlíðahverfinu um árabil.
Hanna Fossberg féll frá allt of snemma, 1987. Litlu munaði að Hörður kynntist hinni systur sinni, Helgu Fossberg, sem varð háöldruð og féll ekki frá fyrr en nokkrum árum áður en hann hóf sína sannleiksleit. Mikill heiðursmaður, hann Hörður, og yndislegt að koma á heimili hans og Helgu í Borgartúni. Missir hennar er mikill. Guð styrki hana í sorg sinni.
Við vottum Dögg, Bjarka, Sigurði Pétri og Herði Harðarsyni innilega samúð, svo og Árna.
Guð blessi minningu Harðar Jóns Fossberg.
Einar Örn Thorlacius, Jóhanna M. Thorlacius.