Áhyggjur af orkuöflun og orkuskorti, jafnvel orkuskömmtun, komu landsmönnnum í opna skjöldu á liðnu ári. Ekki kom þó minna á óvart þegar Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og fv. forsetaframbjóðandi, var komin í viðtal í fréttatíma Rúv. á mánudag í tilefni fyrsta virkjanaleyfis fyrir vindorkuver í landinu, en Landsvirkjun hyggst reisa 30 vindmyllur í Búrfellslundi sem geta skilað allt að 120 MW.
Síðast þegar til fréttist var Halla Hrund í leyfi og raunar talið ólíklegt að hún sneri aftur til starfa, enda verður Orkustofnun senn lögð niður. Margir spyrja hvað hún hyggist taka sér fyrir hendur, sumir segja hana ætla í framboð fyrir Samfylkinguna, en aðrir benda á að hún sé ekki metnaðarlaus og horfi fremur til vegtyllu erlendis.
Orð hennar í viðtalinu bentu a.m.k. ekki til þess að þar talaði hún úr stóli orkumálastjóra, sem lögum samkvæmt er „ríkisstjórninni til ráðuneytis um orkumál og önnur auðlindamál“.
Halla Hrund virtist miklu frekar vera að efna til framhaldssamtals við þjóð sína um umhverfisáhrif slíkra virkjana og sáttar við áhugamannafélagið Landvernd um það.
Ekkert af þessu er hins vegar í verkahring orkumálastjóra, hvorki umhverfismál, pólitísk álitaefni virkjana né sáttargjörð við Landvernd og því brýnt að henni sé fundið hlutverk við hæfi.