Ólafur F. Magnússon
Ólafur F. Magnússon
Stöndum vörð um krossinn, kirkjuna, móðurmálið og blessun lands og lýðs.

Ólafur F. Magnússon

Gefðu að móðurmálið mitt,

minn Jesú þess ég beiði,

frá allri villu klárt og kvitt,

krossins orð þitt út breiði

um landið hér, til heiðurs þér,

helst mun það blessun valda,

meðan þín náð lætur vort láð

lýði og byggðum halda.

(35. passíusálmur Hallgríms Péturssonar)

Þessi passíusálmur Hallgríms Péturssonar hefur verið mér hugleikinn allt frá árinu 1974 þegar ég heyrði Kristján Eldjárn, þáverandi forseta Íslands, lesa sálminn í Saurbæjarkirkju á 300 ára ártíð sálmaskáldsins á fallegan og skýrmæltan hátt. Áhersla sálmaskáldsins á krossinn, blessun lýðs og lands og móðurmálið hefur ætíð hrifið mig. Ýmsir meðal rétttrúnaðarvinstrisins hrífast þó ekki af boðskap séra Hallgríms og hafa um árabil unnið gegn kristnum gildum, trú og kirkju og vilja líka afskræma móðurmálið. Ég hef því miður persónulega reynslu af þessu sama fólki sem á sínum tíma reyndi að eyða persónu minni og sál.

Það kom samt illa við mig þegar ég sá viðtal í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins hinn 13. ágúst sl. við Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóra kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmanna. Þar boðaði hann að krossinn yrði fjarlægður við inngang kirkjugarða og t.d. laufblað sett í staðinn og að orðið minningarreitur yrði notað í staðinn fyrir kirkjugarð. Kirkjugarðarnir væru ekki bara fyrir kristið fólk og nota ætti þá meira til útivistar og jafnvel samkomuhalds með tölvuaðgengi.

Ég spyr hvað verður þá um kyrrðina og friðinn sem fólk af mínu sauðahúsi sækist eftir við heimsókn í kirkjugarða, ásamt því að hugsa til hinna liðnu og rifja upp lífsbaráttu þeirra, trú og sögu.

Ég spyr hvort framkvæmdastjórinn hafi umboð sóknarnefnda, presta og annars starfsfólks kirkjunnar eða fráfarandi og verðandi biskups til að tjá sig með þessum hætti.

Vinna þarf gegn þessari óheillaþróun. Stöndum vörð um krossinn, kirkjuna, móðurmálið og blessun lands og lýðs.

Höfundur er læknir og fv. borgarstjóri.

Höf.: Ólafur F. Magnússon