Uppgjör Róbert Wessman, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech.
Uppgjör Róbert Wessman, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Rekstrarhagnaður Alvotech nam á fyrri helmingi ársins rúmlega 43 milljónum bandaríkjadala, samanborið við tap upp á 189 milljónir dala á sama tímabili í fyrra. Heildartekjur voru 236 milljónir dala á fyrri helmingi ársins, sem er meira en tíföldun frá sama tímabili í fyrra

Rekstrarhagnaður Alvotech nam á fyrri helmingi ársins rúmlega 43 milljónum bandaríkjadala, samanborið við tap upp á 189 milljónir dala á sama tímabili í fyrra. Heildartekjur voru 236 milljónir dala á fyrri helmingi ársins, sem er meira en tíföldun frá sama tímabili í fyrra.

Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Alvotech sem birt var eftir lokun markaða í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Þar kemur fram að tekjur af vörusölu á fyrri helmingi ársins jukust um 190% frá sama tímabili í fyrra, í 66 milljónir dala, en þar af voru tekjur á öðrum fjórðungi 53 milljónir dala. Áfangagreiðslur og aðrar tekjur á fyrri árshelmingi jukust í 170 milljónir dollara, en þar af voru tekjur á öðrum fjórðungi 145 milljónir dala. Aðlöguð EBITDA-framlegð á fyrri árshelmingi var 64 milljónir dala, en hún var neikvæð um 147 milljónir dala á sama tíma í fyrra. Heildartap á tímabilinu nam þó 153,5 milljónum dala (um 21 ma.kr.) eftir skatta sem má helst rekja til fjármagnskostnaðar. Félagið fór í gegnum umsvifamikla skuldbreytingu í júní sl.

Gengi bréfa í Alvotech hækkaði nokkuð í Kauphöllinni í gær í aðdraganda uppgjörsins, eða um 6,3%, og um tæp 8% í Kauphöllinni í New York þar sem félagið er einnig skráð. Gengi bréfa í félaginu hér á landi hefur þá hækkað 1,3% það sem af er ári, þrátt fyrir nokkra lækkun á liðnum mánuðum.

Alvotech greindi frá því í gærmorgun að Lyfjastofnun Evrópu hefði samþykkt að taka til umsagnar umsókn um markaðsleyfi fyrir ATV06, líftæknihliðstæðu við Eyla, en markaðsleyfi gæti verið veitt síðla næsta árs.