Albert Þór Jónsson
Líftími fjárfestinga í innviðum er langur og hentar vel langtímafjárfestum eins og lífeyrissjóðum og tryggingarfélögum með langar skuldbindingar. Íslenskir lífeyrissjóðir geta aukið verulega við sig í arðsömum innviðafjárfestingum en 1% af eignum íslenska lífeyrissjóðakerfisins er um 80 ma.kr. Hvalfjarðargöngin eru dæmi um velheppnaða innviðafjárfestingu fyrir langtímafjárfesta og eru um 30 ár síðan ráðist var í fjármögnun þeirrar framkvæmdar. Íslenskir lífeyrissjóðir geta aukið verulega við sig í innviðum en 5% af eignum lífeyrissjóðakerfisins eru t.a.m um 400 ma.kr. Með fjárfestingum í innviðum eins og heilbrigðiskerfi, vegum, flugvöllum og samgöngumannvirkjum væri hægt að ná góðri áhættudreifingu og arðsemi til lengri tíma. Talið er að uppsöfnuð þörf og fjárfesting á næstu fimm árum nemi yfir 1.200 ma.kr. Skortur er á arðsömum fjárfestingavalkostum fyrir langtímafjárfesta sem geta skilað ásættanlegri ávöxtun til langs tíma og þess vegna er rétti tíminn til að hefja innviðafjárfestingar á Íslandi á stórum skala þar sem horft er til langrar framtíðar. Verkefnin eru fjöldamörg og arðsemi þeirra margra augljós eins og t.a.m. Sundabraut, hátæknisjúkrahús, brúar- og vegaframkvæmdir og hjúkrunarheimili um allt land.
Á undanförnum misserum hefur verið mikil umræða um að fara í miklar innviðafjárfestingar sem eru arðsamar við núverandi aðstæður en uppsöfnuð viðhaldsþörf er talin nema um 450 ma.kr. Auk þess er talið að hægt sé að kortleggja nú þegar arðsamar innviðafjárfestingar að fjárhæð 750 ma.kr. sem nema um 25% af landsframleiðslu. Ekki er óeðlilegt að ráðstafa um 5% af landsframleiðslu til innviðafjárfestingar árlega á næstu árum.
Lífeyrissjóðir, tryggingarfélög og aðrir stofnanafjárfestar með langtímaskuldbindingar eru örugglega áfjáðir í að kaupa traust skuldabréf með hagstæðri raunávöxtun. Ekki er ólíklegt að erlendir fjárfestar, m.a. seðlabankar og fjárfestar, myndu sýna áhuga. Með slíkri útgáfu væri hægt að fjármagna innviðafjárfestingar um allt land í höfnum, innanlandsflugvöllum, vegaframkvæmdum, brúarframkvæmdum, gangagerð, hátæknisjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, íþróttamannvirkjum og menntastofnunum.
Með því að sækja fram gætu íslenskir lífeyrissjóðir valdið straumhvörfum í uppbyggingu arðsamra innviðafjárfestinga á Íslandi og fengið ásættanlega ávöxtun með tilliti til áhættu og gætt þannig hagsmuna sjóðfélaga sinna, sem fá auk þess betri inniviði á Íslandi, til hagsbóta fyrir alla Íslendinga.
Höfundur er viðskiptafræðingur (cand. oecon.).