Ragnhildur Þórðardóttir fæddist á Grund í Svínadal 12. nóvember 1951. Hún lést á líknardeild Landspítalans 30. júlí 2024.
Foreldrar hennar voru Guðrún Jakobsdóttir, f. 1921, d. 2006, og Þórður Þorsteinsson, f. 1913, d. 2000, bændur á Grund, þar sem þau bjuggu allan sinn búskap, í rúm 50 ár. Systkini Ragnhildar voru Lárus, f. 3. júlí 1942, d. 31. mars 2022, Valdís, f. 5. september 1943, og Þorsteinn Trausti, f. 11. maí 1959.
Ragnhildur giftist hinn 14. desember 1975 eftirlifandi eiginmanni sínum, Sigurði H. Péturssyni héraðsdýralækni, f. 16. mars 1946. Foreldrar hans voru Sigríður Ólafsdóttir, f. 31. júlí 1912, og Pétur M. Sigurðsson, f. 15. júní 1907, mjólkurbússtjóri í Reykjavík og síðar bóndi í Austurkoti í Flóa. Ragnhildur og Sigurður eignuðust tvö börn. Þau eru: 1) Guðrún Valdís, f. 24. mars 1976, hjúkrunarfræðingur, gift Davíð Ólafssyni, f. 19. janúar 1978, fasteignasala. Börn þeirra eru Saga María, f. 6. mars 2009, Alex Bjarki, f. 3. október 2011, og tvíburarnir Telma Bríet og Aníta Marín, f. 13. mars 2016. 2) Pétur Magnús, f. 9. mars 1979, lífefnafræðingur.
Ragnhildur ólst upp á Grund og vann þar í uppvextinum við ýmis sveitastörf. Hún var í farskóla í sinni sveit eins og tíðkaðist víða á þessum árum. Veturinn 1969-70 var hún í Húsmæðraskólanum á Blönduósi, 1971 vann hún sem gangastúlka á Landspítalanum en árið eftir vann hún í mötuneyti Húnavallaskóla.
Ragnhildur og Sigurður hófu búskap á Blönduósi þar sem Sigurður gegndi embætti héraðsdýralæknis í Austur-Húnavatnssýslu. Þar sat Ragnhildur ekki auðum höndum og tók að sér bæði lyfjaafgreiðslu og símavörslu. Þau byggðu sér íbúðarhús í Grundarlandi og nefndu það Merkjalæk. Þangað fluttu þau sumarið 1978 og bjuggu þar uns þau fluttu til Reykjavíkur 2006. Reyndar fluttu þau ekki alfarin úr sveitinni því til ársins 2023 dvöldu þau á Merkjalæk yfir sumarmánuðina og á Merkjalæk var lögheimili þeirra uns Ragnhildur veiktist alvarlega í apríl sl.
Ragnhildur stundaði margs konar listir á lífsleiðinni. Hún prjónaði lopapeysur fyrir Handprjónasamband Íslands auk þess sem hún prjónaði föt á fjölskylduna. Þá saumaði hún púða og myndir af ýmsu tagi og prjónaði dúka af mikilli list. Tréskurð stundaði hún af miklum áhuga í mörg ár og skar út klukkur, barómet, myndir og fleira. Hún var mikil blómaáhugakona og naut þess að sinna blómunum í garðinum og í garðstofunni. Þá stundaði hún söfnun af ýmsu tagi. Safnaði hún tímaritum sem hún lét binda inn og líklega átti hún stærsta jólakortasafn í einkaeigu á Íslandi, um 25.000 kort.
Útför hennar hefur farið fram.
Nú er Ragnhildur frænka mín fallin frá langt fyrir aldur fram. Hún fékk gott langlundargeð í vöggugjöf sem kom sér vel því hún þurfti að glíma við fötlun flest sín fullorðinsár. Hún var u.þ.b. einu ári eldri en ég og við lékum okkur oft saman enda stutt á milli heimila okkar. En tímarnir breytast og nú er gatan milli bæjanna svo gróin að hún sést ekki lengur. Eitt og annað var mér sagt um okkar samskipti frá þeim tíma sem er fyrir mitt minni, en ég man að Ragnhildur upplýsti mig um það hvar börnin yrðu til þannig að það var aldrei neinn storkur í minni heimsmynd. Móðir mín sagði mér eitt sinn frá því að þegar ég var eins árs að aldri og búinn að ganga með um nokkurn tíma þá kom Þórður faðir Ragnhildar í heimsókn með litlu frænkuna með sér. Þegar ég sá hana standa í dyrunum þá sleppti ég takinu og gekk óstuddur í áttina til hennar. Ég sagði Ragnhildi þessa sögu þegar ég heimsótti hana í síðasta sinn á líknardeildina og þá fékk ég síðasta brosið frá henni.
Takk fyrir jákvæðni þína og þægilegt viðmót, Aggadí. Sigurði, Guðrúnu Valdísi, Pétri Magnúsi og öðrum aðstandendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Þinn
Þorsteinn (Dinni) á Syðri-Grund.
Fljótlega var ég orðin heimagangur á Merkjalæk þegar ég flutti á Norðurlandið, enda bara 700 metrar á milli bæjanna. Þar var mér alltaf tekið með hlýju og brosi. Ragnhildur var oft ein á bæ þegar Sigurður og krakkarnir voru að sinna sínum verkefnum. Ekki skorti okkur umræðuefni og leystum við örugglega úr öllum málum með spjalli okkar og alltaf var eitthvert góðgæti með kaffibollanum. Ekki voru færri umræðuefni þegar Þorsteinn og Sigurður voru líka mættir. Þá var það ósjaldan að Þorsteinn og Ragnhildur voru dottin í gamlar myndir og minningar frá æskuárum sínum. Þar var líka börnum veitt athygli og þess naut sonur minn. Ragnhildur bjó við fötlun lengst af sinni ævi sem hún tókst á við með ró, yfirvegun og stuðningi Sigurðar. Hún átti margvísleg áhugamál sem snerust mörg um ýmiskonar handverk enda var hún mjög handlagin og vandvirk. Lék allt í höndum hennar hvort sem það var útskurður, málun, útsaumur eða prjón svo eitthvað sé nefnt. Hún safnaði ýmsum munum og er mér minnisstæðast jólakortasafnið hennar sem taldi mörg þúsund kort.
Árin liðu og við fluttum báðar suður með okkar fjölskyldur en Ragnhildur og Sigurður dvöldu áfram á sumrin á Merkjalæk. Vináttan breyttist ekki þótt lengra væri á milli okkar og samverustundirnar stopulli. Mundum við alltaf eftir afmælisdögum hvor annarrar enda sömu tölur í nóvember bara í öfugri röð.
Á kveðjustund sem er svo ótímabær og snögg er gott að minnast samverunnar á pallinum á Merkjalæk þegar sólin skein og ylja sér við sól minninganna og vil ég þakka Ragnhildi fyrir vináttu og tryggð, hún hefur verið mér dýrmæt.
Innilegar samúðarkveðjur sendi ég Sigurði og fjölskyldu og öðrum ástvinum Ragnhildar.
Sigrún Jónsdóttir.
Hún Ragnhildur æskuvinkona mín og vinkona alla tíð er látin. Við vorum fæddar á sama árinu og mikill vinskapur á milli foreldra okkar, sem við nutum mjög í uppeldinu. Þegar við vorum rétt að byrja að draga til stafs þá stungu þau foreldrar okkar upp á að við færum að skrifast á. Mörg urðu bréfin sem send voru á milli Ljótshóla og Grundar þegar farið var með mjólkina í veg fyrir mjólkurbílinn. Fréttirnar voru af því markverðasta eins og hversu mörg egg hefðu komið í hænsnakofanum þann daginn, hvort kominn væri heimalningur, hver hefði komið í heimsókn eða hvað annað sem okkur datt í hug, allavega hlakkaði ég alltaf til að fá bréf til baka frá Aggadí, en það var gælunafnið hennar í frumbernsku.
Fermingardaginn okkar rifjuðum við oft upp en við fermdust bara tvær í Auðkúlukirkju það árið. Við vorum að sjálfsögðu voða fínar og þarna komst ég í kynni við hárlakk í fyrsta sinn, en Dísa systir Ragnhildar var orðin voða skvísa og átti hárlakk sem hún úðaði rösklega yfir hárið á okkur svona rétt áður en við fórum í kirkjuna, svona fínerí var ekki til í framdalnum í þá daga. Þarna vorum við svo sannarlega umluktar öllu okkar besta fólki úr dalnum okkar góða, sem sá um sönginn, organleikinn og meðhjálparastörfin. „Ástarfaðir himinhæða, heyr þú barna þinna kvak“ hljómaði um litlu kirkjuna, en það hafði gleymst að loka Kúluhundana inni meðan á messunni stóð og tóku þeir undir með miklu spangóli undir kirkjuveggnum. Þá fórum við, sem ætluðum nú að vera voða prúðar, að hlæja fyrir framan prestinn, en skömmuðumst okkar fyrir það lengi á eftir. Ragnhildur gerði síðar á lífsleiðinni snilldarlega fallegt líkan af kirkjunni, allt í réttum hlutföllum og litum að innan sem utan og engum smáhlutum var gleymt.
Ragnhildur var svo sannarlega listamaður af guðs náð og allt lék í höndunum á henni. Að sauma, prjóna, skera út í tré, allt urðu þetta listaverk og hvergi döfnuðu blómin betur en í garðstofunni hennar á Merkjalæk.
Ragnhildur var einstaklega skapgóð, gjafmild og vel gerð í alla staði og tók öllum sínum áföllum og veikindum með æðruleysi, þolinmæði og stillingu. Oft svaraði hún ef ég spurði um líðan hennar: „Það er allt í lagi með mig“ og svo var bara farið að tala um eitthvað annað. Það er dýrmætt að hafa átt Ragnhildi sem trúnaðarvinkonu alla tíð því við gátum rætt það sem okkur lá á hjarta, fullvissar um að það færi ekki lengra.
Í einkalífinu var Ragnhildur mjög lánsöm. Hún eignaðist sinn góða mann Sigurð, börnin tvö og fjögur barnabörn. Síðari árin dvöldu þau Sigurður sumarlangt á Merkjalæk en yfir vetrarmánuðina í Reykjavík. Það var auðfundið þegar fór að vora hvað tilhlökkunin var mikil að komast norður og fara að hlúa að gróðrinum, rósunum í garðstofunni, setja niður kartöflur og annað grænmeti. Ragnhildur var bundin æskustöðvunum sterkum böndum og hélt mér upplýstri um menn og málefni í sveitinni okkar alla tíð.
Við Runólfur sendum fjölskyldunni allri, eftirlifandi systkinum og frændfólki okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Anna Grímsdóttir frá Ljótshólum.
Það var stutt á milli bæjanna þar sem við bræðrabörnin ólumst upp. Ein fyrsta minningin um Ragnhildi er frá því að hún og eldri bróðir minn voru að leika sér með leikföng búnum til á staðnum – úr snjó! Hún og systkini hennar voru þekkt fyrir dugnað og mikla handlagni.
Haustið 1972 lenti Ragnhildur í alvarlegu bílslysi sem gerði hana næstum örkumla. Ég man enn eftir sorgmæddri rödd móður minnar í símanum þegar hún lét mig vita.
Sem betur fór náði Ragnhildur sér þokkalega eftir slysið og hún lýsti því sem kraftaverki að mjaðmabeinin náðu að gróa saman þannnig að hún varð aftur göngufær. Það sem eftir var ævinnar átti hún samt við hreyfihömlun að stríða – án þess að það verði nánar rakið hér.
Ragnhildur giftist prýðisgóðum manni og studdi störf hans eftir bestu getu. Á móti kom fjalltraust heimilishald hennar. Börnin uxu upp við gott atlæti. Eftir nokkurra ára búsetu á Blönduósi byggðu þau hús á landi Grundar og gáfu því nafn eftir læknum sem rennur þar rétt hjá. Eitt sinn átti ég erindi að Merkjalæk og hundur í eigu bróður míns elti bílinn.
Ragnhildur kom til dyra og fagnar mér, en sér svo útundan sér að hundurinn hafði náð í önd sem hafðist við nálægt húsinu. Ég náði öndinni ómeiddri, en sagði við Ragnhildi að hún hefði staðið með „öndina í hálsinum“ meðan hún horfði á öndina í kjafti hundsins.
Það var alltaf gott að koma til þeirra hjóna. Við Sigurður vorum starfsbræður og höfðum numið við sama háskóla. Það vantaði því ekki umræðuefni og þessi málhressa og brosmilda frænka mín átti sinn þátt í fjörlegum samræðum. Fyrir utan að vera hlý í viðmóti var Ragnhildur einstaklega glaðvær manneskja. Hún var þrautseig, lét ekki fötlun buga sig og svo naut hún stuðnings fjölskyldunnar – ekki síst eiginmannsins.
Fréttir af erfiðum veikindum Ragnhildar síðustu vikurnar reyndust mér þungbærar. Síðastu orrustu hennar við slys, fötlun og sjúkdóma er nú lokið. Hún er laus úr þjáðum líkamanum. Hérna megin móðunnar miklu lifa góðar minningar. Sigurði, Guðrúnu Valdísi og Pétri Magnúsi ber ég mínar innilegustu kveðjur.
Sveinn Helgi
Guðmundsson, frá
Syðri-Grund.