Sveinn Valfells
sveinnv@mbl.is
Skrúfað verður fyrir heitt vatn í öllum Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Norðlingaholti, Breiðholti, Álftanesi, Almannadal og Hólmsheiði, frá klukkan 22 mánudaginn 19. ágúst og er búist við því að heitavatnsleysið muni vara í um einn og hálfan sólarhring, fram til hádegis miðvikudaginn 21. ágúst.
Ástæða heitavatnsleysisins er sú að unnið er að tvöföldun suðuræðar heitavatnskerfisins, en hún sér suðurhluta höfuðborgarsvæðisins fyrir heitu vatni frá Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun.
Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumaður vatnsmiðla hjá Veitum, segir í samtali við Morgunblaðið að viðbúið sé að heitavatnsleysið muni valda einhverjum röskunum og því hafi Veitur átt í góðu samstarfi við stórnotendur um undirbúning framkvæmdarinnar fyrr í sumar.
„Flutningslögnin verður alveg ónothæf á meðan framkvæmdinni stendur en upplýsingagjöf er því helsta úrræðið sem við getum beitt," segir Hrefna.
Mikilvægt að huga að lögnunum
Hún segir framkvæmdina tímasetta með það í huga að sem minnst reyni á heitavatnsnotkun, en brýnt sé þó að sem flestir hugi að sínum innanhússkerfum svo hægt sé að fyrirbyggja bilanir eða leka þegar vatni verður hleypt aftur á að framkvæmdum loknum.
„Þar sem húshitunarkerfi og notkun þeirra er afar mismunandi eftir notendum er erfitt að gefa fyrirmæli sem gilda fyrir alla og því er æskilegt að fólk ráðfæri sig við fagaðila ef það hefur áhyggjur af mögulegum bilunum. Með því að ráðast í framkvæmdina utan frostatíma erum við þó að lágmarka áhættu á því að framkvæmdin valdi einhverjum skaða,“ segir Hrefna.