Lögregla snýr niður mótmælendur í Nottingham. Kraumandi óánægja með stöðu innflytjendamála hefur brotið sér leið upp á yfirborðið en bresk stjórnvöld hafa brugðist við með því að siga löggunni á dóna og durga á netinu.
Lögregla snýr niður mótmælendur í Nottingham. Kraumandi óánægja með stöðu innflytjendamála hefur brotið sér leið upp á yfirborðið en bresk stjórnvöld hafa brugðist við með því að siga löggunni á dóna og durga á netinu. — AFP/Darren Staples
Ég veit að sumir lesendur hafa afskaplega gaman af því þegar örsögur úr einkalífi blaðamanns á alþjóðaplani fá að fljóta með í miðvikudagspistlunum. Lífið er ljúft hér í Víetnam og endrum og sinnum fæ ég í heimsókn huggulegan heimamann sem ég kalla…

Ég veit að sumir lesendur hafa afskaplega gaman af því þegar örsögur úr einkalífi blaðamanns á alþjóðaplani fá að fljóta með í miðvikudagspistlunum.

Lífið er ljúft hér í Víetnam og endrum og sinnum fæ ég í heimsókn huggulegan heimamann sem ég kalla í gríni litla kommúnistann minn – þó að hann sé reyndar með öllu laus við að hafa pólitískar skoðanir. Flestir Víetnamar eru upp til hópa of önnum kafnir við að græða pening til að hafa minnsta áhuga á stjórnmálum.

Um daginn kynnti ég South Park-teiknimyndirnar fyrir litla kommúnistanum og var spenntur að sjá hvort bandaríski húmorinn gæti brúað menningar- og aldursbilið. Víetnamski kærastinn skellihló allan tímann en var um leið alveg gáttaður á því hvernig framleiðendur þáttanna gátu komist upp með að gera stólpagrín að áhrifamiklu fólki og stríða öllum þjóðfélagshópum. „Ef þú myndir búa til svona þátt hér í Víetnam þá yrðirðu handtekinn næsta dag,“ sagði hann.

Þrátt fyrir alla prumpubrandarana er South Park stórmerkilegt menningarfyrirbæri og raunar alveg einstakt hvernig þættirnir hafa getað speglað og gagnrýnt bæði bandarískt samfélag og alþjóðamál í næstum þrjá áratugi. Sennilegasta skýringin á gæðum og langlífi þáttanna er einmitt að South Park er ekkert heilagt, en um leið felur grínið og gagnrýnin ekki í sér árás eða illkvittni. Að vera skotspónn grínsins er að vera sýnilegur og háðið er aldrei illa meint. Ágætur menningarrýnir lýsti því þannig að heimspekin á bak við húmorinn hjá South Park væri einmitt að það væri móðgandi og særandi að vera undanskilinn frá gríninu frekar en að fá að vera hluti af brandaranum. Svo nýtur South Park líka verndar tjáningarfrelsisákvæðis bandarísku stjórnarskrárinnar.

Einhvern veginn hefur mér alltaf fundist þetta svo sjálfsögð og eðlileg nálgun. Smávegis stríðni, ef henni er beitt rétt, getur skapað heilbrigðara samband á milli fólks og gagnrýni er ekki það sama og aðför. Ef fólk síðan verðskuldar að fá nokkur föst skot, þá er það rétt og heiðarlegt að skjóta, og þá gera það málefnalega og vera reiðubúinn að útkljá málin af drengskap og yfirvegun. Vinur er sá er til vamms segir, og allt það.

Einblínt á einkennin frekar en orsökina

Mikil ólga hefur verið í bresku samfélagi undanfarnar vikur en upp úr sauð þann 29. júlí þegar unglingspiltur, sonur innflytjenda frá Rúanda, réðst á stúlknahóp í bænum Southport og stakk þrjú börn til bana en særði tíu.

Árásin var kornið sem fyllti mælinn hjá allstórum hópi Breta sem hefur lengi þótt landamæri Bretlands of opin og óttast að óhóflegt innstreymi innflytjenda sé að hafa skaðleg áhrif á bæði þjóðfélagið og vinnumarkaðinn. Í breskum fjölmiðlum hefur þetta fólk verið kallað öfgahægrimenn og jafnvel eitthvað þaðan af verra, og ef dæma ætti hópinn út frá fréttamyndum af mótmælum og átökum við lögreglumenn þá virðast þeir sem hafa sig mest í frammi tilheyra neðstu lögum breskrar verkamannastéttar.

Áhugavert var að fylgjast með því hvernig umræðan þróaðist dagana og vikurnar eftir árásina, því fljótlega varð aðaláherslumál stjórnvalda og fjölmiðla að fást við þær hættur sem fylgja kynþáttafordómum, hatursorðræðu og öðrum sora á netinu. Ekki var í boði að eiga samtal um innflytjendamál og hvernig leysa mætti úr þeirri togstreitu sem innflytjendastefnan hefur skapað, en Bretland er sér á báti í Evrópu þegar kemur að innstreymi löglegra og ólöglegra innflytjenda og virðist sem flaumurinn hafi bara aukist undanfarin ár.

Sjálfur vil ég hafa landamæri sem opnust, en í ófullkomnum og ófrjálsum heimi er ekki skrítið ef innflytjendamál valda núningi og sjálfsagt að eiga um það hreinskiptnar umræður – því varla leysast vandamálin öðruvísi.

En sumsé: yfirvöld gripu til þess ráðs að vakta sérstaklega umræðuna á netinu og fyrr en varði fóru að berast fréttir af fólki sem hafði – með miklum flýti – verið handtekið, dregið fyrir dómstóla og fengið þunga fangelsisdóma fyrir óboðleg ummæli á samfélagsmiðlum.

Amma í steininn á mettíma

Ummælin sem fólk hefur verið dæmt fyrir undanfarnar tvær vikur hafa vissulega verið ófalleg og ekki til sóma, en breskir frjálshyggjumenn hafa bent á að í mörgum tilvikum virðist refsingin ekki í neinu samhengi við glæpinn. Ekki nóg með það heldur virðast löggæsluyfirvöld og dómstólar sækja sambærileg mál af mun minni hörku ef gerendurnir eru ekki öfgahægrimenn. Gagnrýnendur hafa jafnframt bent á að miklu alvarlegri glæpir sitji á hakanum og í pistli sem samfélagsrýnirinn Douglas Murray skrifaði fyrir Spectator benti hann á að það ætti við um hér um bil helming lögregluumdæma landsins að þar hefur ekki tekist að hafa hendur í hári eins einasta innbrotsþjófs svo árum skiptir. Á meðan fá virkir í athugasemdum óskipta athygli lögreglunnar.

Annar pistlahöfundur hjá Spectator, Brendan O’Neill, minnti á að lögregluyfirvöld í Skotlandi hafa ekki enn fengið niðurstöðu í mál sem varðaði mótmælaskilti í réttindagöngu trans fólks í Glasgó í fyrra, þar sem hvatt var til þess að femínistar sem eru gagnrýnir á trans málstaðinn væru hreinlega gerðir höfðinu styttri. Tvö ár eru liðin síðan afskipti voru höfð af tveimur mönnum í London fyrir að hrópa slagorð sem hvöttu til fjöldamorða á gyðingum og ekki hefur enn tekist að fá dómstóla til að úrskurða um málið.

Það stóð hins vegar ekki á laganna vörðum að elta uppi 53 ára gamla ömmu og húsmóður í Cheshire sem missti stjórn á skapi sínu á Facebook og sagði um tiltekna mosku að réttast væri að sprengja bygginguna í loft upp og bænagesti með. Hún játaði sök og var dæmd til 15 mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisvistar.

Hef ég það fyrir satt að í dæmigerðu árferði hafi breska lögreglan afskipti af meira en 3.000 manns árlega vegna ummæla á netinu. Í Rússlandi, sem ekki er beinlínis þekkt fyrir að leyfa fólki að tjá sig eins og því sýnist og þar sem íbúafjöldinn er tvöfalt meiri, er talan í kringum 400. Nú síðast hótaði breska lögreglan að sækja fólk í öðrum löndum til saka fyrir óásættanlegt tal á netinu.

Bandaríska tilraunin

Tjáningarfrelsið er svolítið snúið viðureignar, því almáttugur hvað það er freistandi að þagga niður í fólki með rangar skoðanir. Verst af öllu er þegar þessu fólki er með öllu fyrirmunað að taka sönsum og tjáir sig af fullkominni sannfæringu og sjálfstrausti um hluti sem það hvorki skilur né hefur nokkurt vit á. Sumt af þessu fólki fær meira að segja að halda úti hlaðvarpsþáttum!

Sumar skoðanir eru líka ljótar og leiðinlegar og ættu helst ekki að heyrast eða líðast í siðuðum samfélögum. Væri þá ekki betra ef vitrir, góðir og grandvarir menn fengju að setja nokkrar reglur svo að fólk espi ekki hvert annað upp og allir lifi í sátt og samlyndi?

Gallinn er að rétt eins og með öll önnur grundvallarréttindi þá býður það hættunni heim að takmarka tjáningarfrelsið á þennan veginn eða hinn, og dæmin eru svo ótalmörg um að óvandaðir einstaklingar geta gert litlar glufur í lögunum að risastórri gjá sem gleypir allt og alla. Almenningur í Bretlandi situr einmitt pikkfastur í þannig gjá og það þrátt fyrir að þeir sem sömdu reglurnar og sköpuðu dómafordæmin hafi örugglega haft afskaplega góðan ásetning.

Það er ekkert leyndarmál hverjum væri réttast að herma eftir: Hvergi hefur tilraunin með tjáningarfrelsið heppnast betur en í Bandaríkjunum, einmitt vegna þess að þar hefur verið búið þannig um hnútana að frelsið njóti alltaf vafans. Bandaríska stjórnarskráin gæti ekki verið skýrari: ekki skal skerða tjáningarfrelsið. Punktur og basta.

Útkoman er sú að bandarísk stjórnvöld hafa alltaf þurft að hafa heilmikið fyrir því að skapa einhvers konar ramma utan um tjáningarfrelsi fólks. Þar hefði hálfsextuga amman í Cheshire sennilega sloppið við dóm enda úrskurðaði hæstiréttur Bandaríkjanna um það á sínum tíma að þó tjáningarfrelsið leyfi fólki ekki að hóta öðrum ofbeldi þá gildi aðrar reglur þegar ljóst megi vera að hótunin feli í sér ýkjur og ekki skýra og raunverulega ógn.

Dæmin eru ótalmörg af léttvægari málum sem hafa lent á borði lögreglu og dómstóla í Bretlandi en þætti hlægilegt að gera að lögreglumáli í Bandaríkjunum.

Bandaríska kerfið er ekki fullkomið, en kostirnir eru fleiri en gallarnir. Þess utan læknar það fólk ekki af heimsku, fordómum og almennum leiðindum að leyfa því ekki að tjá sig hispurslaust. Rétt eins og með húsmygluna er eina ráðið sem virkar að lofta rækilega út – en ekki að mála yfir.