Íslandsmeistari Kristófer Acox hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari með uppeldisfélaginu KR og tvívegis með Val.
Íslandsmeistari Kristófer Acox hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari með uppeldisfélaginu KR og tvívegis með Val. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristófer Acox, fyrirliði Íslandsmeistara Vals í körfuknattleik, meiddist illa á hné þegar nokkrar sekúndur voru liðnar af oddaleik Vals og Grindavíkur í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins á Hlíðarenda hinn 29

Körfubolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Kristófer Acox, fyrirliði Íslandsmeistara Vals í körfuknattleik, meiddist illa á hné þegar nokkrar sekúndur voru liðnar af oddaleik Vals og Grindavíkur í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins á Hlíðarenda hinn 29. maí.

Vinstri hnéskelin fór í tvennt hjá Kristófer og þá slitnaði sin í hnénu í þokkabót en þrátt fyrir áfallið tókst Valsmönnum að vinna oddaleikinn, 80:73, og Íslandsbikarinn fór því á loft á Hlíðarenda í fjórða sinn í sögu félagsins.

Framherjinn hefur þurft að gangast undir þrjár aðgerðir í sumar vegna meiðslanna, en hann gekk til liðs við Valsmenn frá uppeldisfélagi sínu KR og hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari með liðinu og einu sinni bikarmeistari.

Allar aðgerðir að baki

„Mér líður mjög vel í dag og ég er loksins búinn í þessum blessuðu aðgerðum sem ég hef þurft að gangast undir í sumar,“ sagði Kristófer í samtali við Morgunblaðið.

„Ég gekkst undir síðustu aðgerðina föstudaginn 23. ágúst, en hún var reyndar á hægra hnénu, ekki vinstra hnénu sem ég meiddist á. Fyrir síðasta keppnistímabil kom í ljós að ég er með mikið slit í hnénu og mikil brjóskeyðing hefur átt sér stað undir hnéskelinni. Hnéskelin liggur víst eitthvað vitlaust og læknarnir vilja meina að þetta sé fæðingargalli.

Það þurfti að tappa reglulega af hnénu á síðustu leiktíð, á þriggja til fjögurra mánaða fresti sirka, og mun oftar þegar úrslitakeppnin fór af stað. Það var því ákveðið að ég færi líka í þessa aðgerð þar sem brjóskið var hreinsað, þar sem það er ekki hollt fyrir mig að vera endalaust að stinga á það,“ sagði Kristófer.

Sjaldan verið í betra formi

Kristófer hefur sinnt endurhæfingunni vel í sumar.

„Ég myndi segja að ég væri í besta formi sem ég hef verið í, í einhver ár. Efri skrokkurinn er í mjög góðu ástandi og á svipuðum stað og ég var á þegar ég var að spila í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Ég hef í raun ekki haft neitt annað að gera í sumar en að æfa. Ég var lengi í gipsi og æfingarnar í lyftingasalnum voru því eina útrásin sem maður fékk. Allir dagar vikunnar hafa farið í það að sinna vinstra hnénu og ég hef tekið þessa endurhæfingu mjög alvarlega.

Ég gerði mér grein fyrir því, um leið og ég meiddist, að þetta myndi taka tíma. Ég var því staðráðinn í að sinna þessu almennilega og koma sterkari til baka. Það er mjög auðvelt að sinna svona meiðslum með hálfum hug en það kemur bara niður á manni sjálfum. Ég er líka aðeins byrjaður að dripla bolta líka, þannig að ég hef verið mjög duglegur og samviskusamur í sumar. Sem betur fer er veðrið búið að vera alveg glatað, þannig að mér líður ekki eins og ég hafi verið að missa af miklu.“

Allt á réttri leið

Kristófer er nánast orðinn verkjalaus og ætti því að geta hafið æfingar af fullum krafti á næstu vikum.

„Ég hef verið nokkuð verkjalaus í sumar. Ég gekkst undir aðgerð á vinstra hnénu fljótlega eftir oddaleikinn og fór svo í seinni aðgerðina á vinstra hnénu fimmtudaginn 15. ágúst. Ég byrjaði á hækjum en er laus við þær í dag. Ég er búinn að ganga með spelku síðan ég meiddist en er farinn að geta lagt henni núna, þegar ég er heima að slaka á í það minnsta.

Ég er enn aðeins bólginn eftir keyrsluna síðustu daga, enda búinn að fara í tvær frekar stórar aðgerðir á átta dögum, en þetta er allt á réttri leið. Ég er því farinn að geta gengið óstuddur en ég haltra enn aðeins. Staðan er samt sú að ég er miklu betri núna en fyrri hluta sumarsins og ég fer vonandi að geta æft eitthvað almennilega með bolta á næstu vikum.“

Snýr aftur eftir áramót

Valsmenn hefja leik gegn Stjörnunni í 1. umferð úrvalsdeildarinnar hinn 3. október í Garðabænum, en hvenær reiknar Kristófer með því að snúa aftur á gólfið?

„Planið er að vera byrjaður að spila í janúar, einhverjar mínútur í það minnsta. Þetta eru bara þannig meiðsli að þú vilt taka þér tíma í að ná þér góðum og það kann ekki góðri lukku að stýra að ætla að vaða af stað. Ég ætla mér að verða orðinn 120 prósent klár í slaginn þegar ég kem aftur og þá ætti ég í raun að verða betri en þegar ég meiddist.

Það er alltaf hættan með svona meiðsli, þegar menn fara of snemma af stað, að þeir slíti aftur. Þá verður þetta enn meira vesen en núna. Ég er því að horfa á janúar en ég er líka alveg viðbúinn að þetta geti dregist fram í febrúar. Ég er það þrjóskur að ég er að sinna þessu eins vel og ég get og ef ég lendi ekki í einhverju bakslagi verð ég kominn á fullt í febrúar.“

Leiðtogahlutverk utan vallar

Kristófer er einn af þeim leikmönnum sem hafa leikið flestar mínútur í deildinni á undanförnum árum og hann er því óvanur því að þurfa að hvetja liðsfélaga sína á bekknum.

„Það verður erfitt að fylgjast með þessum fyrstu leikjum tímabilsins á bekknum, það er klárt mál. Á sama tíma er ég ekki alveg jafn einbeittur og ég hef verið síðustu ár, kærulaus frekar, þar sem ég veit að ég er ekki að fara að byrja þetta mót. Það verður erfitt að undirbúa sig andlega fyrir leikina fyrir áramót en ég verð góður stuðningur fyrir strákana á gólfinu.

Ég ætla að taka að mér meira leiðtogahlutverk utan vallar, en ég hef engar áhyggjur af þeim inni á vellinum. Við erum komnir með mjög góðan hóp og leikmannakjarninn er virkilega öflugur. Það sem pirrar mig mest er að missa af leiknum gegn KR, þegar félagið er komið aftur í efstu deild eftir smá hlé, og mér finnst það mest svekkjandi í þessu öllu saman.“

Markmiðið að verja bikarinn

Valsmenn hafa verið mjög sigursælir á síðustu árum og leikið þrisvar til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu þremur árum.

„Markmiðið á Hlíðarenda er alltaf það sama og það er að verða Íslandsmeistari. Ef við erum ekki að reyna að vinna bikarinn erum við að reyna að verja hann en það hefur ekki enn tekist hjá okkur. Vonandi tekst það samt í ár því við teljum að Íslandsbikarinn eigi heima á Hlíðarenda og við viljum hafa hann hérna næstu árin.

Hópurinn er nú þegar orðinn þéttur og við erum svona að leggja lokahönd á það að finna síðustu púslin í þetta fyrir tímabilið. Það verður áhugavert að sjá hvernig við förum af stað en ég er mjög bjartsýnn. Við erum fullfærir um að byrja þetta af krafti og þegar við verðum orðnir fullmannaðir verðum við alvöru skepna að kljást við,“ bætti Kristófer við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason