Love is Blind Bretarnir brosa sínu breiðasta.
Love is Blind Bretarnir brosa sínu breiðasta. — Skjáskot/Netflix
Undirritaður hefur áður tjáð sig um hina kostulegu þætti Love is Blind sem Netflix-streymisveitan hefur nú haft til sýningar um árabil. Í fljótu bragði má segja að þættirnir snúist um að etja saman fólki og láta það fara á „blind…

Stefán Gunnar Sveinsson

Undirritaður hefur áður tjáð sig um hina kostulegu þætti Love is Blind sem Netflix-streymisveitan hefur nú haft til sýningar um árabil. Í fljótu bragði má segja að þættirnir snúist um að etja saman fólki og láta það fara á „blind stefnumót“, þar sem það bókstaflega sér ekki hinn aðilann, nema sá ákveði að fara á skeljarnar og biðja viðkomandi að giftast sér. Fólkið fær þá að sjást í fyrsta sinn, og það sem meira er; það verður að ákveða sig á ca. mánuði hvort það vilji virkilega giftast þessu greppitrýni sem leyndist á bak við vegginn.

Einn helsti gallinn við þennan þátt hefur að mínu mati verið sá að flestallir sem taka þátt í þeim eru „sjónvarpsfallegir“ og því hefur spurningin um hvort „ástin sé blind“ sjaldan skipt verulegu máli. Hinir ýmsu persónuleikabrestir hafa því haft mun meira að segja en útlitið um það hvort samböndin endist.

Nú hefur serían flutt sig til Bretlands, og þar kemur upp sama vandamálið, að fólkið sem valið hefur verið til þátttöku er mun laglegra en Bretar gerast flestir. Enginn er með sérstaklega „breskar tennur“, og flestir tala með frekar virðulegum hreim. Það sem verra er, þá virðast allir mun heilsteyptari en í fyrri seríum og því mun minna af alls kyns drama og látum. Hvar er dramað mitt, Netflix?

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson