Vöxtur í íslenskum eftirlitsiðnaði

Ýmis merki eru uppi um samdrátt í atvinnulífi, en það á ekki við um opinber umsvif.

Viðskiptaráð Íslands kynnti í gær þarfa úttekt á opinberu eftirlitsumhverfi, en niðurstaðan er sú að opinbert eftirlit standi samkeppnishæfni Íslands fyrir þrifum. Hér hafi óþarflega íþyngjandi útfærslur orðið fyrir valinu, auk þess sem fjöldi og umsvif hérlendra eftirlitsstofnana séu mun meiri en í helstu grannríkjum.

Ekkert af þessu þarf að koma á óvart og á það hefur margsinnis verið bent á þessum stað. Bæði um eftirlitsumhverfið allt og einstakar stofnanir, sem gerst hafa frekari til fjörsins en hæfilegt má teljast; jafnvel farið út fyrir ramma lagaheimilda og góðrar lýðræðishefðar.

Í úttekt Viðskiptaráðs er dregið fram að í landinu starfi um 1.600 manns við svokallað sérhæft eftirlit hjá ótal stofnunum, sem framfylgja afmörkuðum eftirlitsreglum um breytni bæði einstaklinga og atvinnulífs.

Margt af því er ugglaust nauðsynlegt, en annað síður, og allar hafa þessar stofnanir eindregna tilhneigingu til þess að færa út kvíarnar, auka við hlutverk sitt og starfsemi. Síðastliðinn áratug hefur starfsfólki eftirlitsstofnana þannig fjölgað um 29% samanborið við 21% fjölgun í einkageiranum.

Það eitt að 1.600 manns – 1% starfandi Íslendinga – fáist við eftirlit með samborgurunum er áhyggjuefni.

Miðað við íbúafjölda eru eftirlitsstofnanir hér mun stærri en annars staðar á Norðurlöndum, þrefalt til sexfalt stærri við fjármála-, lyfja- og samkeppniseftirlit.

Af þessu hlýst mikill beinn kostnaður, en sá óbeini er enn meiri, þar sem fólk og fyrirtæki þurfa að þola ómak og tafir, lögfræðikostnað og alls kyns skýrslugerð, sem hið opinbera læsir svo í skjalasöfnum sínum, engum til gagns.

Um nauðsyn þess alls og hagkvæmni má efast, en sjaldgæf endurskoðun á starfsháttum og umfangi hefur einvörðungu miðast við að belgja út báknið.

Fyrirkomulagið er líka umhugsunarefni, því hér er mestallt eftirlit á opinberri hendi, þar sem opinberum stofnunum er falið bæði reglusetningarvald og framkvæmd eftirlits, en í sumum tilvikum er sjálfstæði þeirra og sjálfdæmi slíkt að ræða má um ríki í ríkinu. Útvistun til faggiltra eftirlitsaðila er hins vegar afar fátíð, þótt reynslan af því sé góð og enginn sakni Bifreiðaeftirlits ríkisins.